12.2.2009 | 19:55
Loksins, loksins: Árósasamningurinn verður fullgiltur
Samningurinn var gerður árið 1998 og öðlaðist gildi í október árið 2001. Þrjátíu og átta ríki undirrituðu hann auk Evrópubandalagsins, þ.á m. Ísland. Fjörutíu og eitt ríki auk Evrópubandalagsins hafa fullgilt samninginn, öll norrænu ríkin þar á meðal að Íslandi undanskildu.
Þríþætt réttindi almennings
Árósasamningurinn tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi. Í samningnum segir að það sé réttur sérhvers manns að lifa í heilbrigðu umhverfi og um leið beri honum skylda til að vernda umhverfið. Samningurinn á að tryggja almenningi réttindi til að geta uppfyllt þessa skyldu. Réttindin eru þríþætt:
- Réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál.
- Réttur almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum.
- Aðgangur að réttlátri málmeðferð í umhverfismálum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila.
Breytingar á íslenskri löggjöf
Nefnd sem fór yfir ákvæði Árósasamningsins skilaði skýrslu til þáverandi umhverfisráðherra haustið 2006. Hlutverk nefndarinnar var m.a. að fara yfir hvaða breytingar þyrfti að gera á íslenskum lögum yrði samningurinn fullgiltur. Niðurstaða nefndarinnar var sú að fyrir hendi sé fullnægjandi löggjöf hér á landi um fyrstu tvær stoðir Árósasamningsins, sem varða aðgang að upplýsingum um umhverfismál og rétt til að taka þátt í töku ákvarðana um umhverfismál og uppfylli því kröfur samningsins að því leyti. Nefndin taldi hins vegar að íslensk lög uppfylltu ekki þriðju stoð Árósasamningsins, sem fjallar um aðgang að réttlátri málsmeðferð. Því þyrfti að gera breytingar á lögum kæmi til fullgildingar samningsins. Samkvæmt þriðju stoðinni skal ,,almenningur sem málið varðar hafa aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða óháðum úrskurðaraðila innan stjórnsýslunnar vegna útgáfu leyfa til framkvæmda sem geta haft umtalsverð umhverfisáhrif eða ef stjórnvald vanrækir að krefjast leyfis fyrir tiltekinni starfsemi þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Samkvæmt samningnum skulu umhverfisverndarsamtök ávallt teljast falla undir hugtakið ,,almenningur sem málið varðar og njóta þannig kæruréttar samkvæmt samningnum án þess að þurfa að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðildarríkin geta ennfremur valið um það hverskonar endurskoðunarleiðir eru opnar almenningi sem málið varðar, þ.e. annaðhvort endurskoðunarleið innan stjórnsýslunnar, þannig að unnt sé að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa fyrir sérstakar úrskurðarnefndir, eða fyrir almennum dómstólum.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum mánudaginn 9. febrúar sl. að fela umhverfisráðherra í samráði við utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra að ákveða hvor leiðin verði farin hér á landi við fullgildingu Árósasamningsins og hefja undirbúning við þá vinnu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.