3.8.2008 | 22:21
Viðbrögð Sjálfstæðisþingmanna, ráðherra og verkalýðsforingja
Það hefur verið nokkuð ótrúlegt að fylgjast með því sem margir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa sagt um málið í fjölmiðlum. Illugi Gunnarsson telur til dæmis að úrskurðurinn grafi undan trúverðugleika ríkisstjórnarinnar við að fást við efnahagsvandann sem nú er (Fréttablaðið 2. ág. 2008, bls. 4). En ég spyr hvernig undan trúverðugleika ríkisstjórnarinnar sé hægt að grafa úr því að hún hefur framkvæmd á borð við þessa sem ráð. Kjartan Ólafsson óttast að úrskurðurinn fæli erlenda fjárfesta frá landinu (RÚV, kvöldfréttir, 3. ág.). Kjartan er varaformaður umhverfisnefndar Alþingis en hefur samt meiri áhyggjur af hagsmunum erlendra fjárfesta sem vilja nýta sér flýtileiðir inn í íslenskt samfélag en því að náttúru landsins sé hlíft. Aðalsteinn Baldursson verkalýðsforingi á Húsavík fer ekki síður mikinn en Sjálfstæðisþingmennirnir tveir og talar um svik og rýting í bakið (sami staður og Illugi). Fyrir utan þau ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar sem vísað er í í þessari frétt og ummæli iðnaðarráðherra að það væri óþarfi að setja framkvæmdirnar í sameiginlegt mat sem mig minnir að væru í Ríkisútvarpinu einhvern tíma í gær. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur eflaust vitað að það þyrfti kjark til að taka ákvörðun sína, að hún myndi mæta andstreymi víða í valdahópum - en tók ákvörðunina samt og á heiður skilinn fyrir vikið.
Auðvitað er úrskurður umhverfisráðherra pólitískur úrskurður en ekki bara lagatæknilegur gjörningur. Hann er túlkun á þeim lögum sem gilda um mat á umhverfisáhrifum, túlkun sem ber að fagna því að hún hlýtur að hafa fordæmisgildi. Úrskurðurinn kemur því miður ekki í veg fyrir að álverið verði reist, jafnvel ekki þótt í ljós komi að af framkvæmdunum í heild verði umtalsverð og óásættanleg umhverfisáhrif, því að sveitarfélög fara ekki eftir áliti Skipulagsstofnunar ef þau komast hjá því, sbr. svokallaðan Dettifossveg frá Dettifossi upp á Hringveg þar sem gefið var út framkvæmdaleyfi.
Úrskurðurinn nú um matið á álverinu kemur samt í veg fyrir að hægt sé að búta framkvæmdirnar niður í parta sem hver og einn veldur ekki skaðlegum áhrifum. Og hann stuðlar að því að það ætti að verða auðveldara fyrir almenning að henda reiður á ýmsum skýrslum og úrskurðum á ólíkum stigum, sem hefur verið býsna örðugt að gera undanfarið. Úrskurðurinn verður líka vonandi til þess að fá fram hin raunverulegu áform Alcoa um orkuöflun til viðbótar því sem fæst frá Þeistareykjum, Kröflu og Bjarnarflagi. Á að fara í Skjálfandafljót eða Jökulsárnar í Skagafirði? Eða Jökulsá á Fjöllum eða Laxá? Eða flytja orku úr Þjórsá norður?
Ákvörðun ráðherra kom mjög á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst viðbrögð þessara þingmanna sem þú nefnir, og reyndar fleiri aðila, sýna vanvirðingu við bæði Þórunni og embætti umhverfisráðherra. Ég man ekki eftir að áður hafi verið gengið fram með jafnharðorðum hætti gagnvart samherja í ríkisstjórn.
Anna Ólafsdóttir (anno) 4.8.2008 kl. 11:07
Þetta er eðlileg niðurstaða og henni ber að fagna. Að menn skuli láta eins og vitlausir yfir þessu sýnir einfaldlega vanþekkingu þeirra á umhverfismati...tilgangi og nauðsyn.
Ef einhverntíman varð þörf á heildstæðu mati var þegar hugleiðingar komu fram um enn stærra álver og orkuöflun fyrir það minna ekki í hendi ...
Mín skoðun er að þegar rykið sest og sést til sólar þá skilja menn að þessi ákvörðun beinist ekki gegn neinu heldur er tilraun til að hafa yfirsýn og sjá fyrir enda á því sem verið er að gera.... það er hygginna manna háttur.
Eftir nokkur ár dettur engum manni í hug að fara í svona stórframkvæmdir án þess að hafa yfirsýn og sjá fyrir niðurstöður.
__________________
Ég td óttast mjög afleiðingar af vatnaflutningum frá Jökulsá á Brú yfir í Skjálfandafljót... þar hefði þurft að fara fram heildstætt mat og reyna að átta sig á þeirri ógnarbreytingu... en þar voru menn enn að vinna samkvæmt blindu framsóknaraðferðunum... þar eigum við eftir að súpa beiskt seiði skammsýni og óvandaðrar vinnubragða.
Jón Ingi Cæsarsson, 4.8.2008 kl. 11:29
Í fyrstu vil ég nú spyrja Jón Inga Cæsarsson hvað hann meini með vatnaflutningum frá Jökulsá á Brú yfir í Skjálfandafljót........ er þetta viljandi gert hjá þér að skrifa þetta eða eru þetta mistök? Þetta er allavega óvandað ef þú ert að meina þetta.
Fólk er ekki á móti umhverfismati.
En líklegast hefur aldrei verið unnið eins vel að undirbúningi eins og í þessu tilviki með fyrirhugað álver á Bakka og jarðgufuvirkjanirnar hér.
Tafirnar geta orðið umtalsverðar og hringlandinn í stjórnkerfinu grefur að sjálfsögðu undan trúverðugleika okkar, en það er líklega það sem þið viljið.
Eins gætir ósamræmis að ekki skuli það sama gildaí Helguvík... það er óskiljanlegt.
Nýi Dettifossvegurinn er hið besta mál, en það skýtur skökku við finnst mér að andstæðingar vegstæðisins sem á að fara um, sem er gamli árfarvegurinn, vilja frekar fara yfir gróin svæði og raska þeim meira en er.
Þetta er hin svokallaða svarta náttúruvernd í verki.
Stefán Stefánsson, 4.8.2008 kl. 11:48
Smá mistök... mér er Skjálfandafljót ofalega í huga gangvart Bakka.... auðvitað á ég við Lagarfljót eins og gefur að skilja.
Jón Ingi Cæsarsson, 4.8.2008 kl. 11:53
Úrskuðrur umhverfisráðherra sýnir þá skoðun hennar að atvinna og fólk utan höfuðborgarsvæðisins skiptir minna eða engu máli en á SV-horninu. Ef þetta er bjrgföst skoðun ráðherrans hefði hún úrskurðað á sama hátt um Helguvík en það gerði hún ekki.
Framkvæmdir við Bakka eru í samþykki allra sveitarfélaga á svæðinu, framkvæmdin er lögleg í alla staði og meirhluti íbúa á svæðinu hlynntur framkvæmdunum. Það sem kemur fólki eðlilega að óvart er að Þórunn Sveinbjarnardóttir setur stein í götu atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.
Ég bið þig Ingólfur að bendla Laxá, Skjálfandafljóti og Jökulsá á Fjöllum ekki inn í umræðuna. Þessar ár eru ekki í umræðunni vegna framkvæmda við Bakka. Þó vil ég benda á þessu máli óskylt að ein hagkvæmasta virkjun á Íslandi væri að hækka stífluna í Laxá í 12 m.
kveðja
Hjálmar Bogi 4.8.2008 kl. 12:07
Hversu lengi ætla menn að halda áfram þeirri umræðu að mat á umhverfisáhrifum snúi að því að leggja stein í götu framkvæmda ??.... það er margbúið að segja að þetta mat tefji á engan hátt hugsanlega gangsetningu álvers á Bakka.... og ef það huggar menn.... umhverfismat fer fram í öllum siðmenntuðum heims nú til dags þegar um er að ræða framkvæmdir sem snúa að náttúru og umhverfi... viljum við halda áfram að vinna eins og þjóðir þriðja heimsins þegar að því kemur eða viljum við fjalla um land og umhverfi barnanna okkar af virðingu og framsýni ??
Jón Ingi Cæsarsson, 4.8.2008 kl. 12:37
Þakka ykkur fyrir innlitið, Anna, Jón Ingi, Stefán og Hjálmar Bogi. Stefán: Ég held að "hringlandi", ef einhver er, sé nú fremur í stjórnmálafólki sem berst gegn faglegum vinnubrögðum af því tæi sem nú hafa verið fyrirskipuð, það er fá heildarsýn yfir framkvæmd, þar með talið yfirlit yfir alla orkukosti til álversins. Hvers hagsmunir eru það að fá ekki heildarsýn? Hvers hagsmunir eru það, Hjálmar Bogi, að ræða ekki þann möguleika að ár verði virkjaðar handa álveri við Húsavík? Á að villa um fyrir okkur? Og Stefán: Ef unnið hefur verið "vel" að undirbúningi við álverið er hið sameiginlega umhverfismat ekki vandamál, hefði ég haldið. En ef ekki má ræða hluta af málinu er varla hægt að segja að vel hafi verið unnið. Álfyrirtækið hefði e.t.v. betur sjálft tekið ákvörðun um sameiginleg mat á öllum framkvæmdum því tengdu, túlkað lögin þannig.
"Tafir" eru algert aukaatriði í þessu efni - en ég er hins vegar ekki talsmaður tafa af neinu tæi, hvorki í úrskurðum umhverfisráðherra né þegar orkufyrirtæki eða álver setja fram matsáætlanir og svo standast þær dagsetningar ekki til trafala fyrir þá sem vilja taka málefnalega þátt í mati á umhverfisáhrifum. Og hið síðara hefur margoft skeð og kemur í veg fyrir að almenningur geti hent almennilega reiður á því hvaða framkvæmd er á hvaða stigi í mati á umhverfisáhrifum - eða hvort hún fengið undanþágu! Því að mér heyrist reyndar, Stefán, að margir séu á móti mati á umhverfisáhrifum þótt þú sért það ekki.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 4.8.2008 kl. 13:01
Ef umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði hug á ð vinna faglega eins og sumir vilja vera láta, hvers vegna tilkynnti hún niðurstöður sína strax og hún tók við embætti? Hvers vegna fellur ekki samskonar úrskurður um Helguvík? Þá þýðir ekki að halda fram að framkvæmdir í Helguvík séu lengra komnar, það er fyrirsláttur að halda slíkur fram. Eins ber það vott um heigulshátt ráðherra þar sem Helguvík er í Sv-kjördæmi, kjördæmi ráðherrans. Hvers vegna, fyrir aðeins 3 vikum fyrir úrskurð umhverfisráðherra, skrifaði iðnaðarráðherra undir viljayfirlýsingu um áframhaldandi framkvæmdir á Bakka? Að slá ryki í augu fólks með því að halda fram að um engar tafir er að ræða er aumur málflutningur. Eins má velta því upp hvers vegna ráðherran velur að setja allar framkvæmdir undir sama mat þar sem orkuöflun venga framkvæmdana tengjast ekki aðeins beint framkvæmdum á Bakka.
Umhverfismat er af hinu góða og nauðsynlegt en vinnubrögð ráðherrans eru óviðunandi með öllu og sýnir sundrung í flokki ráðherrans og stefnuleysi.
Virkjun Skjálfandafljóts, jökulánna í Skagafirði og fleiri eru virkjanakostir sem Landsvirkjun er með vituð um en hefur ekkert að gera með framkvæmdir á Bakka.
kveðja
Hjálmar Bogi 4.8.2008 kl. 18:58
Í viðbót þetta. Það sem vakir fyrir Þórunni Sveinbjarnardóttur er pólitík. Áður hefur hún lýst þeirri skoðun sinni að aðeins sé pláss fyrir eitt álver í viðbót sé tekið tillit til mengunarkvóta. Þess vegna hyggst hún tefja framgang verkefnisins við Bakka svo álver við Helguvík fá þann kvóta sem er í pottinum. Málið er ekki flóknara en svo, sem sagt pólitík og aðeins hagsmunagæsla hjá Þórunni til tryggja sig í sessi meðal kjósenda á SV-horninu.
kveðja
Hjálmar Bogi 4.8.2008 kl. 21:35
Sammála, Ingólfur, og ég tek ofan fyrir málflutningi Jóns Inga. Ég er búin að setja inn á tónspilarann á blogginu mínu alla fréttaumfjöllun í Ríkisútvarpinu um málið ef þið þurfið að rifja upp og hlusta. Það er merkt: Heildarmat Bakki 1, 2, 3 og 4.
Ég er mjög ósammála Hjálmari Boga og held að Þórunn hafi ekki verið að hygla sínu kjördæmi í sambandi við Helguvík. Ég gagnrýndi hana harðlega fyrir að staðfesta mat Skipulagsstofnunar, en hafna því alfarið að forsendur séu þær sem Hjálmar Bogi fullyrðir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.8.2008 kl. 23:44
Lára Hanna, málið hugsanlegar framkvæmdir við Bakka við Húsavík hófust ekki á þessu ekki og heldur ekki á því síðasta og því dapurlegt að vekja athygli á aðeins þeim umfjöllunum sem þú vekur máls á. Ég stend við orð varðandi ástæður umhverfisráðherra að meta Helguvík ekki á sama hátt og Bakka. Orð þín Lára staðfesta aðeins skoðun mína, takk fyrir það.
Kveðja
Hjálmar Bogi 5.8.2008 kl. 00:19
Ég botna ekkert í hvað þú meinar núna, Hjálmar Bogi...
Lára Hanna Einarsdóttir, 5.8.2008 kl. 00:22
Sem kannski sýnir þekkingarleysi þitt á vinnunni við undirbúning framkvæmda við Bakka. Undirbúningur við þessa framkvæmd hefur staðið mjög lengi og því úr samhengi að vitna í málflutningi sínum í nokkur viðtal þar um.
kveðja
Hjálmar Bogi 5.8.2008 kl. 01:35
Þakka ykkur rökræðurnar, Hjálmar Bogi og Lára Hanna.
Ég ætla fyrst að leiðrétta þig, Hjálmar: Kjördæmi Þórunnar er suðvesturkjördæmi, ekki suðurkjördæmi þar sem Helguvík er. Gott að vita þetta svo skammir Þórunni ekki á röngum forsendum.
Ég hafði hvorki séð né heyrt neitt um helgina, þar til í Mogganum í morgun (bls. 4) sem skýrir hvers vegna ekki þarf að meta orkuöflun og línur vegna Helguvíkurálversins, en fremur vegna Húsavíkurálvers. Það er EKKI vegna þess að framkvæmdir við Helguvík hafi verið lengra komnar heldur vegna þess að mati á umhverfisáhrifum álversins var lokið þegar kæra barst þar sem þess var krafist að orkukostir væru líka metnir - sem enn veit enginn hverjir verða og auðvitað eru lykilatriði. Það hefði þurft að kæra þegar matsáætlun lá fyrir, skilst mér. Eins og gert var núna með Húsavík. Þar með skil ég muninn en er samt ekki alveg sammála niðurstöðu Þórunnar um Helguvík, sem hún reyndar sagði að væri gegn sannfæringu sinni.
Og þegar þú, Hjálmar, fullyrðir hvaða orkukostir komi Bakka ekki við, ja, þá er það nú einmitt þetta sem við fáum að vita í gegnum skýrslur um mat á umhverfisáhrifum álvers. Orkan sem vitað er um á Þeistareykjum og Kröflu dugar kannski til hálfs upp í 346 þús. tonna álver. Enn: Hvers hagsmunir eru það að fá ekki heildarsýn?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.8.2008 kl. 09:30
Ég þakka þér fyrir þessa formlegu leiðréttingu og rétt skal vera rétt. Þó svo hefur þetta ekkert að gera með innihald málsins. Þórunn er að gæta pólitískra hagsmuna á svæðinu. Ég felst á þau rök Ingólfur að það er nauðsynlegt að fá heildarsýn á framkvæmdir vegna Bakka. En málið var í mjög eðlilegum farvegi, hver er tilgangur umhverfisráðherra? Sveitarfélög hafa samþykkt verkefnið, Alcoa hefur samþykkt verkefnið, (að því gefnu að sé miðað við 250 þús. tonn) og ríkið hefur, þrem vikum fyrir úrskurð Þórunnar samþykkt verkefnið. Nú er komin ný staða að Alcoa telur hagræðingu í því að miða við 350 þús. tonn. Þar með gengur verkefnið úr frá því? Þá á eftir að leita samþykkis sveitarfélaga og ríkis og fá heildarsýn á ný. Hvert var markmið ráðherrans annar en sá að tryggja álveri í Helguvík þann losunarkvóta sem í boði er? Aldrei hefur úrskuður líkur þeim sem Þórunn kynnti legið fyrir og því engin fordæmi fyrir honum. Því blasir við málsaðilum að enginn veit í hverju þessi niðurstaða er fólgin. Eiga hafnarframkvæmdir við Húsavík, sem eru í raun óskyldar framkvæmdir að fara í heildstætt umhverfismat vegna framkvæmda á Bakka?
kveðja
Hjálmar Bogi 5.8.2008 kl. 21:44
Eftir því sem ég fæ best skilið er tekið á því sem þú spyrð um, Hjálmar, í tillögu Alcoa að matsáætlun. Drög að henni eru kunngerð almenningi sem getur gert athugasemdir og Skipulagsstofnun tekur afstöðu til hennar að því loknu. Ef framkvæmdir við Húsavíkurhöfn eru óskyldar, eins og þú nefnir, munu þær ekki koma þar inn. En ef álverið er háð slíkri stækkun hlýtur að koma til álita að meta þær með. Sama hlýtur að gilda um vegi tilkomna vegna álversins, vinnubúðir og margt fleira. Og áhrif framkvæmdar á samfélag. Úrskurðurinn var mögulegur vegna nýlegrar lagabreytingar sem allir aðilar hafa vitað af.
Enda þótt það sé ekki í verkahring mínum að svara fyrir umhverfisráðherra um losunarkvóta finnst mér ákaflega ólíklegt að Þórunn láti sig varða hvort Húsavík eða Helguvík fái losunarkvóta. En auðvitað var það ráðherra frá Húsavík, Guðmundur frændi, sem á tímabili átti heima í Keflavík, sem barðist fyrir auknum losunarheimildum í Kýótóbókuninni. Spurning hvort þú telur Húsvíkinga eiga sérstakt tilkall til kvótans fyrir vikið?
Svo það sé algerlega ljóst: Ég vil hvorki fleiri álver né stærri, hvorki á Húsavík, í Keflavík, í Hvalfirði né í Hafnarfirði. Náttúruspjöll sem virkjanir handa þeim valda eru aðalástæðan. En áhrif á samfélag eru líka umtalsverð og óafturkræf.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 6.8.2008 kl. 08:33
Þó það hafi verið mögulegt að úrskurða líkt og umhverfisráðherra gerði þýðir ekki að það beri að úrskurða eins og gert var. Það er ljóst að þú reyndir að forðast að svara fyrir ráðherran og verja en það misstókst. Það á enginn né hefur gert tilkall til losunarkvótans en Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur stillt málinu þannig upp að Helguvík hefur nú greiðari aðgang að honum með því að vera fyrr á ferðinni. Þar með er Þórunn að sýna pólitíkst vald sitt, sinni eigin persónu til hagsbóta.
Ég hef nú lengi gert mér grein fyrir afstöðu þinni til álvera og framkvæmda sem kosta rask á einhvern hátt í umhverfinu. En hvaðan átti rafmagnið að koma í upphafi? Ég skal þó vera algjörlega sammála þér varðandi samfélagsleguáhrifin að þau eru vanmetnari en er í dag. En á móti spyr maður, viljum við að fólki fjölgi? Fækki? Eða að standa í stað, sem má segja að sé afturför!
kveðja
Hjálmar Bogi 6.8.2008 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.