Þjórsárorkan norður?

Í Morgunblaðinu í dag heldur Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra því fram að það sé ekkert misræmi í því að hafa tekið skóflustungu að álveri í Helguvík og að vera á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Hann heldur því fram að hann hafi ekki tekið afstöðu til álversins og að álverið í Helguvík og virkjun í Þjórsá hefðu ekkert hvort með annað að gera. 

Nú verður að trúa ráðherranum um að hann hafi ef til vill byrjað að moka fyrir álverinu án þess að hafa sannfæringu fyrir því, rétt eins og þegar samflokksráðherra hans úrskurðaði um umhverfismat álversins gegn sannfæringu sinni - en einmitt þess vegna er ástæða til að spyrja Björgvin að því hvernig hann viti að álver í Helguvík og Þjórsá hafi ekkert hvort með annað að gera úr því að orkukostir Helguvíkurálversins eru ekki metnir með álverinu. Og það má líka spyrja sig að því, meðan ekki liggur fyrir hvort orkukostir Húsavíkurálversins verða metnir með því, hvort orkan úr Þjórsá muni á beinan eða óbeinan hátt fara norður, t.d. með því að móti að rafmagn úr Blönduvirkjun komi ekki suður heldur verið sent til Húsavíkur og Þjórsárrafmagn komi á almennan markað í staðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður gamli! Ekki er þörf á að æra óstöðuga. Það er ekki gustuk nóg er nú samt.

Aðalmálið er ekki hvort eða hvaða álver fá orku úr hinum þremur fyrirhuguðu virkjunum í Þjórsá heldur hitt að mönnum skuli yfirhöfuð detta í hug að virkja neðri hlutann - þann hluta sem er í blómlegri byggð. Að mönnum skuli í alvöru detta í hug að ráðast til atlögu við búsældarlegar sveitir, ryðja þar öllu um koll, grafa sundur og saman og sökkva túnum og náttúrlegum verðmætum upp úr og niðurúr nærliggjandi sveitum.

Mér finnst ekki hægt að tala um þessar hryðjuverkahugmyndir í léttum dúr eða hvað fyndist þér um svipaðar hugmyndir ef uppi væru í þinni sveit eða Laxánni? Ætli það risu ekki á þér hnakkahárin?

Nei, höfum virkjanaæðið í Þjórsá ekki í flimtingum, Þjórsána - lengstu og eina flottustu á landsins verðum við öll að vernda.

Bestu kveðjur ,

Elín G. Ólafsd.

Elin G. Olafsdottir 27.7.2008 kl. 16:57

2 identicon

Sæll gamli stalli. Mér finnst það að æra óstöðugan að hafa þessar hrikalegu  hugmyndir í hálfgerðum flimtingum; áætlanir um að sundurgrafa lengstu og eina flottustu á landsins þvers og kruss, sökkva landi á báðar hendur, bæði ræktuðum túnum og náttúruvættum í búsældarlegum sveitum finnst mér sorglegt?  Ég veit ekki hvað þér fyndist um þína sveit eða ána Laxá í Aðaldal ef svona ætti að níðast á því fagra fljóti og sveitunum í kring. Ætli það risu ekki á þér hnakkahárin? Þér væri í öllu falli ekki hlátur í hug.

Ég hef e.t.v.  eitthvað misskilið þig. Ef svo er bið ég þig afsökunar á reiðilestrinum.

Elín G. 

Elín G. Ólafsdsóttir 27.7.2008 kl. 17:16

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Blessuð Elín, gaman að heyra frá þér.

Jú, þau risu nú eftirminnilega hnakkahárin á okkur Þingeyingum þegar átti að sökkva Laxárdal og leiða Suðurá og Svartá yfir Mývatnssveit með svokallaðri Gljúfurversvirkjun um 1970, svo eftirminnilega að næstum 100 manns tóku sig saman og eyðilögðu stíflu sem komið hafði verið fyrir í Laxá í óleyfi bænda á Arnarvatni og Geirastöðum.

Baráttan fyrir því að vernda Þjórsá, eða það sem ekki hefur verið af henni virkjað, hvort heldur er efsti hlutinn (Þjórsárver) eða neðsti hlutinn á að vera barátta allra landsmanna. Snemma í sumar fór ég í gönguferð um nágrenni gömlu Þjórsárbrúarinnar til að skoða a.m.k. hluta aðstæðna á þessum slóðum. 

Ég legg áherslu á að náttúruverndarbaráttan fyrir Þjórsá og fyrir háhitasvæðunum á Reykjanesskaga og í Þingeyjarsýslum er samþætt við baráttuna gegn skaðlegri atvinnustefnu. Rafmagn úr virkjunum í neðri hluta Þjórsár verður auðvitað notað í uppbyggingu álvera, beint eða óbeint, alveg sama hvað viðskiptaráðherra segir í heimasveit. Tilraunir til að láta annað í veðri vaka eru að mér sýnist tilraunir til þess að fá fólk til þess að slaka á í baráttunni vegna þess að það eigi að nota rafmagnið í "betri" tilgangi, en ef virkjunarkostur er óásættanlegur af náttúruverndar- eða búsældarástæðum er hann það auðvitað hvernig sem rafið verður notað. Það er einfaldlega býsna lítið eftir af ásættanlegum virkjunarkostum í landinu og meðal annars þess vegna þarf að stöðva stóriðjubrjálæðið.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 27.7.2008 kl. 18:29

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Spurningin er, er þetta hræsni eða trúir hann eigin yfirlýsingum?

Villi Asgeirsson, 28.7.2008 kl. 03:42

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæl aftur Elín, enda þótt ég hefði aðeins séð fyrri færsluna þína í gær þegar ég svaraði held ég að það sé ljóst að þú hefur misskilið mig varðandi Þjórsá. Og gott að fá það á hreint

Bestu kveðjur úr blíðviðrinu á Akureyri

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.7.2008 kl. 08:02

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Bestu kveðjur að sunnan, en hér blíðan svo mikil að norðanmönnum stendur ekki á sama.

Eyþór Árnason, 29.7.2008 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband