Sauðkindinni fagnað

Akureyrarakademían stendur fyrir haustþingi til heiðurs sauðkindinni þann 3. nóvember nk. kl.13-19 í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti. Þetta hús er rétt hjá húsi kennaradeildar Háskólans á Akureyri, eða á hinu alræmda og nú víggirta tjaldstæði Akureyrarbæjar. Þingið er fræðaflétta, þar sem saman tvinnast hugvísindi, búvísindi, listir og matarmenning. Skv. tilkynningu er forystusauður Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og bóndasonur úr Eyjafirði.

Þarna verða nokkrir fyrirlestrar:

13:15  Íslenska ókindin: Bar sauðféð ábyrgð á landeyðingunni? - Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur (mig minnir að Árni Daníel efist um það, en komið til að fullvissa ykkur)

14:00  Sauðfé og seiður  - Jón Jónsson, þjóðfræðingur   

14:30  Blessuð sauðkindin - Guðrún Hadda Bjarnadóttir, listakona og formaður Laufáshópsins. Svo verður kaffihlé og handverkssýning

15:45  Óður til sauðkindarinnar - Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi

16:15  Fólk og fénaður til framtíðar - Jóhanna Pálmadóttir, varaformaður félags sauðfjárbænda.

Loks verður pallborð með þátttöku fyrirlesara og almennar umræður. Ja, reyndar á þessu að ljúka með haustblóti  - næringu sem verður seidd fram úr sauðfé, í umsjá Halastjörnunnar. Upplýsingar bárust með tölvupósti frá Reykjavíkurakademíunni.

Þetta er bersýnilega AFAR áhugavert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Sæll félagi

Fyrir nokkrum árum vorum við hjónin á ferðalagið um landið, hafði kona mín  á orði hvort bara væru orðnar til hvítar kindur, hvar væri hinn margumræddi sauðalitur. Við gerðum það að leik okkar ásamt dóttur okkar að reyna að finna annað en hvítar. Sem gömlum smala kom það mér á óvart hversu fjölbreytnin var lítil, nánast allt hvítt. Í framhaldinu málaði kona mín Anna Gunnlaugsdóttir þessar myndir.

Ég vona að þú  standir vörð um sauðalitina á Haustþinginu.

Rúnar Sveinbjörnsson, 21.10.2007 kl. 21:48

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég væri til að mæta,en kemst trúlega ekki. (Þegar best lét heima var full kró af mórauðum kindum á fóðrum og margar gráar og svartar).

Eyþór Árnason, 22.10.2007 kl. 00:05

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sælir félagar og þakka ykkur kveðjurnar og þér, Rúnar, fyrir hlekkinn til myndanna. Þessi sýning fór fram hjá mér á sínum tíma.

Man eftir því sem barnið hversu mikils virði það var að hafa ólíka liti, ekki bara á forystufénu. Mér var eignuð svarbotnótt gimbur þegar ég flutti í sveitina fjögurra ára gamall og þegar ég var átta ára eignaðist hún mórauða gimbur sem ekki hafði verið lengi hjörðinni. Þetta stafaði af því að hrúturinn faðir þeirrar mórauðu, hvítur að lit, mig minnir frá Geir í Álftagerði, var fjarskyldur ættingi hennar og það var vitað um mórauð gen í ættinni - við þetta frétti maður fyrst af erfðum og erfðafræði. Held reyndar mér finnist núna svarbotnótti liturinn enn þá fallegri en sá mórauði. (Lenti hér í merkilegum vandræðum með hvernig ætti að skrifa orðið svarbotnóttur en með gúgli sé ég að ég er ekki sá eini sem finnst rétt að sleppa t-inu. Orðabókin gefur bara upp botnótt!)

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.10.2007 kl. 07:58

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta verður áhugavert haustþing hjá AkureyrarAkademíunni og ég bendi á nýjan vef þar sem einnig er sagt frá Fimmtudagshlaðborðum í vetur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 22.10.2007 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband