500 megawött?

Eru 500 megawött í háhitasvæðunum Bjarnarflagi, Þeistareykjum, Kröflu og Gjástykki?

Í gærkvöldi fór ég ásamt Bergi Sigurðssyni framkvæmdastjóra Landverndar á fund á Breiðumýri í Reykjadal þar sem Samvinnunefnd um skipulag háhitasvæða boðaði til fundar til að kynna afurð sína. Samvinnunefndin starfar á vegum Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Aðaldælahrepps og Norðurþings. Í auglýsingu um skipulagið segir: „Skipulagssvæðið er allt land sveitarfélaganna sem liggur utan afmörkunar svæðisskipulags miðhálendisins. Í skipulagstillögunni er sett fram stefna um verndun og nýtingu háhitasvæða og flutningslínur rafmagns á öllu skipulagssvæðinu en meginviðfangsefni hennar er afmarkað svæði, sem nær yfir land Þeistareykja, Gjástykki, Kröflu og Bjarnarflag. Þar eru sett fram skipulagsákvæði um orkuvinnslu og mannvirki, vegi, línur og aðrar lagnir annars vegar og verndarákvæði vegna náttúrufars og minja hins vegar."

Þetta var ágætis fundur þar sem starfsmenn nefndarinnar gerðu skýra grein fyrir því hvernig lagt er til að nánast allt svæðið verði orkuvinnslusvæði, vegir og raflínur en reynt verði að friða lítinn blett við Leirhnjúk og norður af honum að Gæsafjöllum og áleiðis út í Gjástykki. Og enda þótt reynt verði að lágmarka áhrif af raflínunum er einfaldlega ekki hægt að koma í veg fyrir að stórfelld spjöll verði af Kröflulínu vegna þess að hún þarf að fara yfir eldhraunið frá Kröflu.

Vandinn liggur í þeirri ákvörðun yfirleitt að ætla sér að taka öll þessi svæði undir orkuvinnslu vegna álvers. Verður hætt við álverið ef menn verða úrkula vonar um að þarna fáist 500 megawött, nokkuð sem enn er ekki ljóst að fáist. Verður viðbótarorka sótt í Skjálfandafljót eða Héraðsvötn? Eða háhitasvæði nær hálendinu eða inni á því? Vonandi verður Jökulsá sem nú á að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði ekki af-friðlýst eins og hluti Kringilsárrana þegar Kárahnjúkavirkjun var ákveðin! Ég hefði auk þess viljað að dokað yrði við eftir rammaáætlun þar sem virkjanakostir eru bornir saman, en vinna við hana hófst á ný fyrir skemmstu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

úff segi ég bara

Elva Guðmundsdóttir, 11.10.2007 kl. 13:17

2 identicon

Ég á svo erfitt með að skilja af hverju Húsvíkingar eru tilbúnir til að taka allt þetta svæði undir orkuvinnslu með öllum þeim spjöllum sem því fylgir og það fyrir álver. Trúa þeir því virkilega að næstu kynslóðir muni frekar kjósa að búa á Húsavík vegna þess að þær hafa aðgang að vinnu í álveri? Mín skoðun er skýr og hefur alltaf verið. Norðurland á að vera álverslaust svæði áfram. Ég tel okkur hólpin að hafa yfirhöfuð sloppið og skil ekki hvers vegna Húsvíkingar sjá framtíð fyrir bæjarfélagið í álveri.

Anna Ólafsdóttir (anno) 13.10.2007 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband