Halló Akureyri! Halló Akureyri?

Nýjasta nýtt í verslunarmannahelgarskemmtunum á Akureyri er að meina fólki á aldrinum 18-23 ára aðgang að tjaldsvæðum bæjarins, og hafa fáir komið til varnar þeirri ákvörðun. Ég á bágt með að skilja þessa ákvörðun og þar með á ég erfitt með að vera með henni eða á móti af efnislegum ástæðum. Hins vegar heyrist mér og sýnist á öllu að þetta bann verði sveitarfélaginu til verulegs álitshnekkis og verði þannig hluti af röð hneyksla í kringum verslunarmannahelgarskemmtanir í bænum. Þannig var að fyrstu árin eftir að ég flutti til Akureyrar fyrir 12 árum var haldin hátíð sem nefndist Halló Akureyri sem mér fannst alltaf vera stytting á "hallærislega Akureyri" og ég bar fram með "dl" í halló til að tákna það. Sú hátíð varð alræmd vegna fyllirís og slæmrar umgengni og í kjölfarið var sett gríðarlega mikil girðing utan um tjaldsvæðið rétt við hús Háskólans við Þingvallastræti þar sem ég vinn; Háskólinn og tjaldsvæðið deilar raunar bílastæði. Ég kom þar inn á bílastæðið á frídegi verslunarmanna 2004 og þvílík umgengni - og þá var samt búið að skipta um heiti á Halló Akureyri.

Ég óttast að ákvörðunin um aðgangsbann 18-23 ára, hversu vel meint sem hún kann að hafa verið, sé fáránleg almannatengslamistök og til þess fallin að láta Akureyri líta hallærislega út. Kjörorð bæjarins er:  Akureyri - öll lífsins gæði. Nema fyrir 18-23? Við í Háskólanum viljum t.d. fá fleiri nemendur, m.a. fólk á aldrinum 20-23 ára, og bjóðum margvíslegt spennandi nám fyrir fólk á þeim aldri, en það er líka mikilvægt að nemendunum líði vel í bænum, og reyndar hafa bærinn og Háskólinn unnið saman að því. En bæjarfélagið þarf að fara yfir það að lokinni helginni hvort aðgangsbannið að tjaldsvæðunum hafi verið skynsamlegt og skoða þá vel umræðuna sem hefur farið fram og þær ábendingar sem hafa komið fram frá ungu fólki á öllum aldri á síðustu dögum.


mbl.is Aldurshópurinn 18-23 ára fær ekki aðgang á tjaldstæðum á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nokkuð undarleg ákvörðun, sérstaklega að aðilar á þessum aldri þurfi að vera í fylgd forráðamanns (eins og það er orðað einhversstaðar). Hver er forráðamaður sjálfráða einstaklings yfir 18 ára aldri? 

 Ég er sammála þarna er um mjög óhagstætt almannatengslamál að ræða og aftur fellur á þessi annars ágætu einkunnarorð bæjarins.

Tryggvi R. Jónsson 3.8.2007 kl. 13:23

2 identicon

Mér finnst þetta alls ekki hafa verið ígrundað nægjanlega áður en tekin var ákvörðun. Annars hefur andúð mín á þessari hátíð magnast með árunum og mér finnst heitið Horror Akureyri lýsa henni einna best, sérstaklega eftir síðasta ár.

Anna Ólafsdóttir (anno) 3.8.2007 kl. 14:14

3 identicon

Mér finnst þetta "bann" hæpið ef ekki er nema bara fyrir þá ástæðu að Akeureyrarbær hefir veitt talsverðum fjármunum í að auglýsa sig fyrir landanum sem skólabær fyrir fólk frá 16 ára til 25 ára (ja, eða aðeins hærra ef menn eru ekkert að flýta sér).

Það má hinsvegar vel vera að þetta bann hafi jákvæð áhrif á hátíðina sjálfa. Líklegt er að ef banninu er haldið uppi í 1-3 ár gleymi allir unglingar Akureyri sem verslunarmannahelgarhátíð og vandmálið flytji sig alfarið á Neistaflug.

Dettifoss Bergmann 3.8.2007 kl. 14:56

4 Smámynd: Halla Rut

Hvaða gamaldags karlfúskar settu þessi boð og bönn. Ég veit til þess að kaupmenn og veitingamenn á Akureyri eru arfareiðir. 

Ég ætla að halda útihátíð á næstu helgi og ég býð ég ykkur öllum. En ég vil bara ekki fá neinn undir 23 ára og engan sem er svartur. Og svo vil ég ekki fá neinn sem er fatlaður og alsekki neinn frá Taílandi eða þeim heimshluta. Þeir sem eiga við offitu að stríða eða eru of horað eru ekki velkomnir og dvergar eða fólk undir 1,60m eru sérstaklega beðnir um að vera heima. Já, og svo gamalt fólk það getur verið með svo mikið vesen svo það er ekki æskilegt og ekki viljum við hafa homma og lespíur á meðal vor. Þar sem þetta á að vera friðsamleg útilega bið ég Vinstri græna og Saving Iceland að halds sig víðs fjarri því ekki viljum við neina neikvæðni. Fólki sem einhvern tíman hefur farið yfir strikið í drykkju eða gert sig að fífli drukkið verður vísað frá við hliðið. Þar sem þetta er siðsöm útihátíð þá er ekki æskilegt að fólk sem átt hefur börn utan hjónabands komi eða fólk sem hefur haldið framhjá enda bakar slíkt fólk oftast vandræði og uppsteyt. Annars segi ég bara að allir eru velkomnir og vona ég að sem flestir láti sjá sig. Það verður örugglega margmenni. 

Sjá nánar blogg færslu mín um málið: 

Halla Rut , 5.8.2007 kl. 01:44

5 Smámynd: Helgi Már Barðason

Valið var einfalt: fjölskylduhátíð eða sukk. Hefði sá hópur ungs fólks, sem sukkið stundar, fjölmennt til bæjarins hefði fjölskyldufólkið farið annað. Bæjaryfirvöld kusu fjölskyldurnar - og sátt hins almenna borgara. Þeir sem hafa verið í fréttum og mótmælt ósköpunum eru einkum þeir sem hafa hagsmuna að gæta - kaupmenn og forsvarsmenn fyrirtækja - sumir undir yfirskini þess að bera hagsmuni hins almenna Akureyrings fyrir brjósti! Mér finnst aftur á móti ótrúlega lítið hafa borið á mótmælum unga fólksins sjálfs. Þessi ákvörðun var tekin fullseint, á það get ég fallist, en ekki finnst mér sambærilegt að bjóða ungt fólk velkomið til háskólanáms eða bjóða ósmekklegustu fulltrúum þess einkagarða til að skíta í og lausamuni til að stela. Og sé ekki önnur leið fær en að setja aldurstakmark verður bara að hafa það. Minni á að sama leið var farin víðar um land nú um helgina, t.d. á Flúðum og á Hrafnagili, þótt ekki hafi það farið eins hátt.

Helgi Már Barðason, 5.8.2007 kl. 10:52

6 Smámynd: Halla Rut

Helgi segir hér alla milli 18 og 23 ára, stela, skíta í garða og sukka. 

Halla Rut , 6.8.2007 kl. 22:39

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Halla, bæjarstjórinn okkar er fertug kona. Vandinn sem Helgi Már talar um hefur verið til staðar og við hér á Akureyri vitum öll af honum, og þess vegna erum við mörg sem gagnrýnum ákvörðunina sem höfum samt nokkra samúð með henni því við viljum ekki sukkhátíðir. - En ef þessi ákvörðun var rétt hefði átt að taka hana miklu fyrr og útskýra hana betur, t.d. áður en dagskrá vikunnar var gefin út á miðvikudag með auglýsingu um 18 ára aldurstakmark. Kaupmenn hefðu þá pantað inn vörur með hliðsjón af breyttum markhópi ef ákvörðunin hefði verið tekin fyrr. Ég tók eftir þessu með aldursmark á tjaldstæði við Hrafnagil, en það var 20 ár. Sem sé: Afskaplega klaufalegt mál og nauðsynlegt að bæjarfélagið biðji afsökunar á því.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 7.8.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband