Hálendi hugans við Heklurætur

Um helgina var ég á ráðstefnu Sagnfræðingafélags Íslands og Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Ráðstefnan nefndist Hálendi hugans og var haldin að Leirubakka í Landsveit. Þar voru haldin erindi af margvíslegum toga: um ferðamennsku á hálendinu (burðarþol, skemmtanir, landnám ferðafólks), um þjóðlendumálin (bæði frásögn Júlíusar Sólness fv. umhverfisráðherra, en einnig um málskilning Hæstaréttar), um þjóðsögur, um náttúruvernd og virkjanir o.s.frv. Erindi um þjálfun tunglfaranna á Íslandi var framlag mitt. Einnig var farin stutt rútuferð, m.a. til að skoða upptök Ytri-Rangár sem eru afar falleg og fast við veginn austan Þjórsár, á móts við Búrfell. Og fyrsta kvöldið var afhjúpaður minnisvarði um Guðna Jónsson prófessor sem var alinn upp á Leirubakka. Frábær kokkteill af fræðum og skemmtun með skemmtilegu fólki.

Að Leirubakka hefur verið byggð upp ferðaþjónusta eins og algengt er um sveitir. Það sem skilur starfsemina að Leirubakka þó að frá flestum öðrum sveitahótelum er aftur á móti Heklusetrið sem annars vegar byggir á margmiðlunarsýningu um fjallið og eldgosin en hins vegar góðri ráðstefnu- og veitingaaðstöðu. Útsýnið úr veitingasalnum er að ég held það fegursta sem ég hef notið úr slíkum sal: panorama af Búrfelli og Heklu og lægri fjöllum í grenndinni. Hekla sýndi okkur að vísu aldrei toppinn en við vissum af honum þarna á bak við þokuslæðing eða ský.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra að þér líkaði vel, Ingólfur. Mér þykir verst að hafa ekki náð að vera á þeim hluta ráðstefnunnar þegar þú fluttir erindið um tunglfarana; mér var sagt að það hefði verið afar fróðlegt erindi - vont þykir mér líka (hafi ég skilið málið rétt) að geta ekki lengur sagt útlendingum að geimfararnir bandarísku hafi komið hingað til lands á sjöunda áratugnum af því að landið átti að líkjast svo tunglinu. Það var góð saga - og kannski maður segi hana áfram en bæti svo við að auðvitað hafi fræðimenn svo þurft að eyðileggja hana með leit sinni að hinu sanna...

Og svo tek ég undir hvert orð um fegurðina á Leirubakka, svo ekki sé talað um hlýtt viðmót staðarhaldara og frábæran viðurgerning í alla staði. Á þennan stað á fólk að fara, sé það í leit að friði, og fyrirtæki í hvataferðir og hvað það nú heitir allt saman.

 Kær kveðja,

 Guðni

Guðni Th. Jóhannesson 4.6.2007 kl. 23:01

2 identicon

Vona að þú ljóstrir upp leyndarmálinu um þjálfun tunglfaranna í eyru okkar samstarfsfólksins einhvern tíma á góðum degi - yfirskrift erindisins gefur vísbendingar um afar forvitnilegt efni

Anna Ólafsdóttir (anno) 4.6.2007 kl. 23:53

3 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Ha! Er þetta ekki satt með tunglfarana hér á landi? 

Valgerður Halldórsdóttir, 5.6.2007 kl. 17:32

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þeir komu hingað vissulega tvívegis til almennrar jarðfræðiþjálfunar. En enginn átti von á splunkunýju hrauni á tunglinu eins og úr Öskjugosinu 1961 og fátt er líkt með Íslandi og tunglinu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.6.2007 kl. 18:17

5 Smámynd: Alma Lísa Jóhannsdóttir

Flottur staður Leirubakki! Langaði að mæta á ráðstefnuna en komst því miður ekki. Gisti á Leirubakka fyrir nokkrum árum og fékk þar bestu sósu (með lambalæri) sem ég hef nokkurn tíma smakkað... nammm..

Auðvitað áttir þú góða helgi á Suðurlandi  Góðar sumarkveðjur Alma

Alma Lísa Jóhannsdóttir, 7.6.2007 kl. 20:21

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fæ smá heimþrá í sagnfræðiheiminn þegar ég les þetta, Ingólfur. Enda stendur ekki til að segja alveg skilið við sagnfræðina þótt ég hafi skroppið í pásu. Þannig að eitt fagurt söguþing kemst ég vonandi aftur í þennan ágæta hóp.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.6.2007 kl. 23:36

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Anna skólasystir, Alma, Valgerður og Annó: Þið hefðuð einmitt átt að vera þarna. Annars er víst komið til tals að birta fyrirlestrana á bók.

Og um Leirubakka: Ég vona að staðarhaldarar flýti gerð göngustígs að Rangá sem mér fannst alveg ótrúlega falleg á eftir að kunnug manneskja hafði sýnt mér hana. Svo fannst mér flatt hraunið líka flott, sérstaklega þar sem ekki eru komin í það útlend tré.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 8.6.2007 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband