1.4.2007 | 15:59
Göng undir Eyjafjörð
Umræður um samgöngumál eiga til að vera því marki brenndar að við bítum okkur í mikilvægi einnar lausnar á meintum vanda og hlustum ekki á neitt um aðrar, hvorki mótbárur né viðvaranir. Hvort heldur það er stytting vegalengda, nýr innanlandsflugvöllur, betri almenningssamgöngur eða margfaldur vegur milli einhverra staða. Slíkar hugmyndir þarfnast yfirleitt mikillar íhugunar og rannsókna. Eftirfarandi "töfralausn" setti ég fram í grein í Vikudegi 29. mars sl. í grein samnefndri þessari bloggfærslu. Í greininni segir m.a.:
"Er nauðsynlegt að koma við á Akureyri?
Ein er sú stytting sem aldrei hefur komið til umræðu opinberlega, mér vitanlega: Veggöng undir Eyjafjörð í tengslum við Vaðlaheiðargöng. Ég spyr hvort göng beint vestur frá brúnni á Fnjóská hafi verið skoðuð sem raunhæfur möguleiki. Þá væri hægt að halda áfram með göngin undir Eyjafjörð og stytta leiðina til Reykjavíkur fyrir Þingeyinga og Austlendinga um 15 til 20 kílómetra. Eflaust yrðu slík göng dýr en kostur þeirra er mikill og augljós fyrir þessa aðila. Vestan fjarðarins kæmu slík göng væntanlega upp nálægt Skjaldarvík.
Ef borað yrði beint vestur frá Fnjóskárbrú væri þó sennilega ódýrara að gera tvenn göng; önnur undir heiðina og hin undir fjörðinn, þótt einnig kæmi til álita að fara alla leið neðan jarðar og gera afleggjara upp á Svalbarðsströnd.
Hafi þessi leið verið skoðuð myndi það koma fram ef Vaðlaheiðargöngin færu í gegnum þann feril sem kallaður er mat á umhverfisáhrifum - en þau hafa nú verið undanþegin slíku mati og þar með verið minnkuð áhrif almennings. Þessi leið er líka ákjósanlegur samanburðarkostur og þá kæmi fram hversu raunhæf hún er í raun og veru.
Minni mengun á Akureyri:
Fyrir utan það að Þingeyingar og Austlendingar gætu með þessu móti ráðið því hvort þeir tefðu sig á Akureyri á leiðinni suður væri þessi gangaleið ansi mikil búbót í baráttunni við mengunina á Akureyri. Mengunin hefur verið æði áberandi í froststillunum í vetur. Þá hafa þungaflutningar um bæinn verið vaxandi áhyggjuefni og valdið ýmsum íbúum bæjarins verulegum óþægindum, eins og vissulega hefur komið fram í fjölmiðlum."
Athugasemdir
Þetta er ekki 1. aprílfrétt. Höfundur.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 1.4.2007 kl. 16:00
Mér líst afskaplega vel á þessa hugmynd þína þó ekki væri nema vegna þess að það myndi auka lífsgæðin hér á Akureyri verulega að losna við allt þetta gegnumstreymi bæði fólks- og þungaflutningabíla gegnum bæinn.
Anna Ólafsdóttir (anno) 4.4.2007 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.