Íslenska söguþingið 2012

Fyrir söguþingið hef ég skipulagt málstofuna Söguleg greining orðræðu: Verklag við rannsóknir sem verður síðdegis á föstudag. Í henni verða kynntar fjölbreytilegar rannsóknir sem eiga það sameiginlegt að beitt er verklagi sögulegrar greiningar á orðræðu í anda Foucaults og femínískra rannsókna. Lögð er áhersla á það annars vegar að ræða álitamál við að nota slíka greiningu og hins vegar að kynna nýjar niðurstöður rannsókna sem fengnar eru með því að nota sögulega greiningu á orðræðu. Hvers konar spurninga er spurt? Hvenær telst rannsókn geta verið söguleg greining á orðræðu? Meðal álitamála sem er fjallað um í flestum erindum er hvort verklag sögulegrar greiningar á orðræðu sé frábrugðið öðrum rannsóknum. Eftirtalin sjö erindi verða í málstofunni:

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri: Söguleg orðræðugreining í félags- og menntavísindum.

Í erindinu er fjallað um um uppruna, þróun og sérstöðu sögulegrar greiningar á orðræðu og „landnám“ hennar í mennta- og félagsvísindum. Í erindinu er fjallað um hvernig staðlaðar kröfur megindlegra rannsókna – og að nokkru marki einnig staðlaðar kröfur svokallaðra eigindlegra rannsókna – hafa haft áhrif á til hvers er ætlast af þeim beita verklagi ættuðu úr hugvísindum.

Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands: Kvenleiki sem orðræða

Á hverjum stað og tíma eru hlutverk kvenna og karla skilgreind í orðræðunni út frá ríkjandi menningu. Í túlkuninni endurspeglast ásýnd og atgervi sem mótar kyngervi (e. gender) manneskju og öfugt og þannig verða til kvenleiki og karlmennska og ímyndir þeirra. Kyngervi tákngerir jafnframt þau kynjuðu valdatengsl sem liggja til grundvallar hverju samfélagi. Staða íslenskra kvenna undanfarna áratugi hefur verið flókin og mótsagnakennd. Þrátt fyrir augljósan ávinning seinni bylgju kvennahreyfingarinnar, formlegt jafnrétti og ríka félagslega þátttöku kvenna í samfélaginu síðustu áratugina fyrir hrun, voru konur lítt sýnilegar sem leikmenn á markaði góðærisins. Ímynd uppgangs og hruns íslensks efnahagslífs var karlmennskuímynd útrásarvíkinganna. Erindið fjallar um hina hlið kynjapeningsins; birtingamynd/ir kvenleikans í íslenskum samtíma. Rýnt verður í orðræðu kvenna í vinsælum tímaritum á tímabilinu og sá kvenleiki sem komið var á framfæri kortlagður. Hver var orðræðan um stöðu og hlutverk kvenna? Hvað getur útskýrt fjarveru þeirra af opinberum vettvangi?

Anna Guðrún Edvardsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Þekkingarsamfélagið og byggðaþróun: Mótsagnakennd orðræða um þekkingarsetur á landsbyggðinni

Uppbygging háskólamenntunar og rannsóknastarfsemi hefur verið mikil á landsbyggðinni á síðustu 15–20 árum og í hverjum landshluta starfa háskóla- og/eða rannsóknasetur, annaðhvort sem sjálfstæðar einingar eða sem hluti af móðurstofnun sem staðsett er á höfuðborgarsvæðinu. Fjallað verður um þá orðræðu sem birtist í opinberum skýrslum um uppbyggingu þekkingarsamfélagsins, þ.e. háskólamenntun og rannsóknir, á landsbyggðinni og áhrif þess á byggðaþróun. Áhersla stjórnvalda hefur verið lögð í að byggja upp þekkingarsetur og skapa störf fyrir háskólamenntað fólk og stuðla þannig að jákvæðri byggðaþróun. Greindar voru skýrslur þar sem umfjöllunarefnið voru þekkingarsetur og áhrif atvinnusköpunar þekkingarsamfélagsins á styrkingu byggða  og er í erindinu dregið fram hvað einkennir orðræðuna um málaflokkinn og hvaða mótsagnir felast í henni.

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Orðræða hagsmunaaðila um starfsmenntun – mótsagnir og möguleikar

Margir aðilar telja nauðsyn á að þeir komi að mótun starfsmenntunar og flestir þeirra hafa mismunandi hagsmuni að leiðarljósi. Í erindinu er greind orðræða þriggja hagsmunaaðila:  Samtaka Atvinnulífsins, Kennarasambands Íslands og Sambands Íslenskra framhaldsskólanema. Hagsmundir atvinnulífs hafa tekið örum breytingum undanfarin ár, frá kröfum til stjórnvalda um að sinna þörfum iðnmenntunar til þess að leggja áherslu á „þjónustuhlutverk“ starfsmenntunar, virkjun samkeppnis- og markaðslögmála með einkavæðingu menntakerfisins og kröfum um „ávísanakerfi til náms“. Kennarasamband Íslands leggur áherslu á jafna aðstöðu til náms á framhaldsskólastigi, skýr viðmið um framkvæmd laga og þátt stjórnvalda, faglegt sjálfstæði, langtímasýn í menntunarmálum, nýtingu rannsókna í skólastarfi og rétt kennara til að koma að mótun menntastefnu og framkvæmd menntunar. Nemendur leggja höfuðáherslu á gagnkvæma virðingu, lýðræði, jafnrétti til náms, samráð og opna og lýðræðislega ákvarðanatöku um menntun og tryggingu gæðaeftirlits með námi. Í erindinu er einnig rætt hvernig orðræðugreining getur veit leiðarljósi á starfsmenntaumræðuna – og vakið athygli á einstaka þáttum hennar sem þarfnast umfjöllunar.

Hildigunnur Gunnarsdóttir, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Orðræðan um styttingu framhaldsskólans

Setning nýrra laga um framhaldsskóla 2008 átti sér aðdraganda og sýndist sitt hverjum. Ágreiningurinn var bæði af pólitískum toga og hagnýtum. Í erindinu er sagt er frá opinberum umræðum sem urðu á 1. áratug aldarinnar um styttingu framhaldsskóla og sjónum beint að því hvað framhaldsskólakennarar sögðu opinberlega um styttingu náms til stúdentsprófs. Leitað var eftir því hvers konar framtíðarsýn birtist í þeim textum sem voru skoðaðir sem voru annars vegar skýrslur Menntamálaráðuneytisins og hins vegar blaðagreinar. Eitt af því sem oft var rætt var „skert nám“ eða „skert stúdentspróf“. Rýnt var sérstaklega í hugtakið vald með tilliti til vettvangsins sem orðræðan var sprottin úr.  Notast var við nálgun sögulegrar orðræðugreiningar og stuðst við hugmyndir Foucaults og Bourdieus um vettvang og yfirráðin yfir honum. Framhaldsskólinn getur verið vettvangur í þessu samhengi og hann einkennst af togstreitu á milli sjálfræðis vettvangsins (t.d. kennarar) og hinna ráðandi utanaðkomandi áhrifa (t.d. Alþingi, Mennta- og menningarmálaráðuneytið).

Helga Ólafs, doktorsnemi í félagsfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands: Ógnin að utan: Orðræða Frjálslynda flokksins um innflytjendur

Farið var yfir umræðu um innflytjendamál í dagblöðum í kjölfar birtingar greinar Jóns Magnússonar undir heitinu Ísland fyrir Íslendinga – gamalkunnugu þrástefi íslenskrar þjóðernishyggju. Fjölmiðlaumræðan var orðræðugreind með hliðsjón af málgögnum Frjálslynda flokksins. Þrástef orðræðu Frjálslynda flokksins afhjúpa gegnumgangandi átakapunkt, sífelldan samanburð á „okkur“ og „hinum“ – Íslendingum og útlendingum, kristnum og múslimum. Samanburðurinn afhjúpar andstæður og mótsagnir um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Niðurstöður þessarar greiningar eru skoðaðar í ljósi sögulegra og pólitískra aðstæðna og umræðan, og skortur á henni, skoðuð með hliðsjón af meintum pólitískum rétttrúnaði.

Jón Gunnar Ólafsson, MA í alþjóðasamskiptum: Peningar, Ísland og „tær snilld“: Frásögnin um Icesave fyrir hrun

Í erindinu er fjallað um rannsókn á þeirri orðræðu sem birtist í íslenskum fjölmiðlum um Icesave fyrir hrun. Frásögn um velgengni sem endar í milliríkjadeilu tengist nokkrum lykilatburðum og er umfjöllun fjölmiðla í tengslum við þá atburði greind með aðferðum sögulegrar orðræðugreiningar. Löggildingarlögmálið „við og hinir“ er gegnumgangandi átakapunktur í orðræðunni. Áberandi þrástef tengjast góðum árangri sem ekki er dreginn í efa, tæknilegri viðskiptaorðræðu, íslenskri náttúru, menningu, sjálfsmynd og útlendingum sem gagnrýna.

akademia.is/soguthing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband