Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019
18.4.2019 | 17:03
Slegið af menntunarkröfum til kennara
Lagt var fram á Alþingi fyrir skemmstu nýtt frumvarp til laga um menntun kennara. Í því er með skipulegum og markvissum hætti dregið úr þeim kröfum sem voru mótaðar til kennarastarfsins í löggjöfinni frá 2008 eða er sumt af því óvart?
Ágallana sem ég fundið rek ég ekki hér í einhverri sérstakri röð eftir því hversu slæmir þeir eru heldur eftir því hversu mikla athygli mér hefur sýnst þeir vekja:
1. Eitt leyfisbréf er orðasamband sem hefur verið notað um þá tilhögun, sem lögð er til, að gefa út leyfisbréf fyrir starfsheiti kennari, fremur en þrjú bréf, eitt hvert skólastig: Leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. En af hverju eitt leyfisbréf. Svo segir í greinargerð með frumvarpinu:
Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 87/2008 kom fram sú fyrirætlan að gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara skyldi útvíkkað til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hefði einnig heimild til að kenna tilteknum aldurshópi nemenda eða sinna kennslu á sérsviði sínu. Tilgangurinn var að þannig yrði stuðlað að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga. Markmiðum laganna um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga hefur þó ekki verið náð. Kennarar sem valið hafa að starfa á aðliggjandi skólastigi á grundvelli sérstakrar heimildar, öðru en leyfisbréf þeirra tilgreinir, hafa verið ráðnir til kennslu sem leiðbeinendur og starf þeirra auglýst árlega. Hefur þetta m.a. haft í för með sér að heimild þeirra til að kenna á aðliggjandi skólastigum hefur ekki verið viðurkennd við ráðningar sem leitt hefur til þess að þeir búa við óviðunandi starfsöryggi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa borist upplýsingar um að hæfir og reynslumiklir kennarar hafi kosið að láta af störfum sem leiðbeinendur því ekki sé unnt að greiða þeim laun í samræmi við stöðu þeirra, auk þess sem starfsöryggi þeirra sé óviðunandi. Brýnt er að bregðast við ofangreindum vanda og ágalla á lögunum, standa vörð um réttindi og starfsöryggi kennara, auka flæði milli skólastiga, fjölga tækifærum til starfsþróunar kennara og fjölbreytileika í menntakerfinu. Ég fæ ekki betur séð af þessari lýsingu, sem ég tel reyndar að sé alls ekki máluð of dökkum litum að löggjöfin frá 2008 hafi einfaldlega verið brotin af þeim sem réðu til dæmis framhaldsskólakennara til grunnskólakennslu í 8.10. bekk og á launum sem leiðbeinendur. Það á ekki að kollvarpa kerfi til að stöðva lögbrot þetta er ofdráp eins og sagt er (eða er það ekki íslenska orðið fyrir overkill) og: Afsláttur.
2. Dregið er úr einingafjölda í kennslufræði í 60 einingar úr 120150 fyrir leik- og grunnskóla og finn ekki að það sé kveðið á um að vettvangsnám hafi farið fram á viðkomandi skólastigi, enda er það óþarfi ef leyfisbréfið á að gilda úti um allt, hvort sem er. (Það er skilgreind sérhæfing fyrir skólastig en leyfisbréfið er það sama skv. frumvarpinu.) Reynslan af kennaranámi þeirra sem koma með bakkalárpróf í grunnskólakennaranám er þess eðlis að það veitir ekki af tveimur árum í kennslufræði. Ég skal reyndar samþykkja að leyfisbréf megi veita þeim sem áður tóku meistarapróf eftir eins árs diplómu sex ára háskólanám. En þetta er þegar á heildina er litið Afsláttur.
3. Þá er lögð til ný prófgráða, Master of Teaching, sem þarf samt ekki að vera fullgilt meistaraprófsverkefni með a.m.k. 30 eininga lokaverkefni. Nú geta allir sem hafa lokið námskeiðunum sínum en eiga ritgerðina bara eftir fengið að taka nýja tegund af prófi á lægra þrepi kerfisins, þrepi sem heitir 2.1 en ekki 2.2. Ég var reyndar á því á sínum tíma 2008 að það hefði átt að gefa færi á slíku prófi sem kennaraprófi, en það var ekki gert. Núna tel ég réttara að styðja við þá leið sem var valin 2008 Aftur og enn er hér þó Afsláttur.
4. Lokaatriðið af þeim sem ég hef kynnt mér og set og á móti eru samræmd hæfniviðmið fyrir kennara sem háskólunum ber að fara eftir. Í gildi eru almennar reglur um gæðaviðmið fyrir prófgráður háskóla og starf þeirra er tekið út undir umsjón Gæðaráðs íslenskra háskóla (https://www.rannis.is/starfsemi/gaedarad/). Þar með talið er kennaranámið tekið út á reglubundnum fresti og það er engin þörf á sérstöku kerfi utan um þá hæfni sem kennarar eiga að öðlast að loknu kennarapróf, umfram þá hæfni sem háskólarnir hafa skilgreint, og stjórnvöld hafa úttektir gæðaráðsins til að geta fylgst með því hvort háskólarnir standa sig. Stendur til að setja svona hæfniramma um lögfræði, hjúkrun, viðskiptafræði og fleiri greinar sem eru kenndar í fleiri en einum háskóla? Háskólarnir ættu ekki að sætta sig við að sumar deildir þeirra þurfi að sæta sérstöku eftirliti. Ég veit ekki fyrir víst hvort orðið afsláttur á við hér - sennilega því að gæðamatið af hálfu gæðaráðsins er jafningjamat en tillögur um hæfniviðmið fela ekki í sér jafningjamat.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)