Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
11.7.2013 | 23:31
Hvað heitir afkvæmi langreyðar og steypireiðar á latínu?
Ég heyrði tvær undurfurðulegar hvalafréttir í dag, aðra um hval"afurðir" sem voru sendar í gámi áleiðis til Japans, en urðu að bitbeini skipafélaga í Hollandi og Þýskalandi því að þær voru ýmist merktar sem frosinn fiskur (vissulega er hvalur sjávardýr, en ekki er hann fiskur) eða nafni langreyðar á latínu, en Kristján Loftsson hjá Hval hf notar eflaust það mál í samskiptum við Japani en skilst illa annars staðar í Evrópu, þótt einhver uppgötvaði þetta þó; hin var um að það væri kannski hugsanlega mögulega afkvæmi langreyðar og steypireyðar í sjónum fyrir norðan og það ætti að skjóta í einhverju til að ná húðsýni til að rannsaka málið. En þrátt fyrir þetta hef ég ekki fengið að vita hvað langreyður er á latínu, og ekki heldur hvað afkvæmi langreyðar og steypireyðar heitir á latínu, en giskar á það heiti frosinn fiskur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2013 | 23:51
"Nýja" Framsókn og Íbúðalánasjóður
Formaður "nýju" Framsóknar ver gjörðir gömlu Framsóknar og Íbúðalánasjóðs. Hér hefði verið kjörið tækifæri að standa með skýrslunni í uppgjörinu við hrunið. En það er auðvitað engin ný Framsókn þrátt fyrir útskipti í þingmannahópnum og stóran þingmannahóp.
Ég hef nú fá tækifæri haft til að kynna mér skýrsluna sjálfa en að sögn þeirra sem hafa kynnt sér hana snýst hún ekki bara um Íbúðalánasjóð heldur húsnæðiskerfið í heild þar sem 90%-stefna og lán bankanna og síðast en ekki síst lán ÍLS á endurgreiddum lánum til bankanna urðu að stórri hringavitleysu. "Nýja" Framsókn sér lítið athugavert við þetta og formaður flokksins varði Íbúðalánasjóð í útvarpinu í kvöld og agnúaðist út í skýrsluna. Skýrslan er alveg örugglega ekki hafin yfir gagnrýni - en það sem ég hef heyrt úr henni er hún mikilsverð lexía EF við viljum í raun og veru gera upp hrunið og þá atburði sem leiddu til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2013 | 16:16
Sólskin og sumarfrí
Og þá skín sólin í frekar köldu veðri. - Sumarfrí að skella á - og í tilefni af því kom ég við í Fiskbúðinni við Gnoðarvog og fékk þar dýrindis plokkfisk, en fiskbúðin hefur lítinn og snyrtilegan matsal. Meðlæti með plokkfiskinum var þykkskornar rúgbrauðssneiðar - með smjöri - og lítil hrúga af tómat- og fetaostsalati, skemmtileg samsetning. Svo sá ég fisk dagsins á næsta borði: Löngu sem leit ekki síður girnilega út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)