Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
22.9.2011 | 23:37
Náttúruverndarsamtök um Vestfjarðaveg
Ályktun Fuglaverndar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna vegagerðar í Gufudalssveit
Landvernd, Fuglavernd og Náttúruverndarsamtök Íslands lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hlífa Teigsskógi og leggja til vegagerð eftir svokallaðri D-leið í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Þessi leið hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra og því er ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana og bæta þannig strax úr brýnni þörf Vestfirðinga á betri samgöngum með láglendisvegi.
Með þessari úrslausn yrði komið í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll sem myndu hljótast af leið B um óspillta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar í nágrenni tveggja arnarsetra.
Ofangreind samtök telja óréttlætanlegt að fórna þessum náttúruverðmætum sem eru á náttúrminjaskrá og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar þar eð aðrar leiðir eru fyrir hendi. Göng undir Hjallaháls eru að öllum líkindum ódýrari en leið B þegar búið er að taka tillit til aukakostnaðar, jaðarkostnaðar og umhverfiskostnaðar.
Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar, svarar fyrirspurnum fjölmiðla um ályktunina í síma 8920299 eða 5673540.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2011 | 09:54
Er kynjakerfið álög?
Ég er búinn að sjá núna nokkrum sinnum auglýsingu Verslunarmannafélags Reykjavíkur um "álög" sem lögð eru á stúlkubarn á fæðingardeild, og algerlega dofinn ungan mann sem stóð með sóp þegar álögin voru lögð á stúlkuna. Mér finnst sá hluti auglýsingarinnar kannski bestur: Við karlar fljótum sofandi gagnvart því óréttlæti sem við höldum að við græðum á.
Jafnframt hefur Verslunarmannafélagið lagt til að konur fái 10% afslátt í búðum. Ef farið verður að þeirri tillögu munu karlmenn væntanlega steinhætta að versla fyrir heimilin og aukin vinna lenda á konum við innkaup (vinna sem sennilega er þó unnin af þeim í miklum meirihluta) - er það ekki?
Það er alltaf forvitnilegt að sjá einhverja nýja nálgun gagnvart vandamálum - en Verslunarmannafélagið leitar afskaplega langt yfir skammt, eða telur það kynjakerfið og feðraveldið vera yfirnáttúrleg fyrirbrigði?
Svo er ég að reyna að rifja upp hvort það sé rétt að það hafi verið verðmunur á mötuneytisgjaldi drengja og stúlkna í Laugaskóla eða MA á sínum tíma. Finnst þetta endilega og að okkur hafi alls ekki fundist neitt að þessu vegna þess að við vissum um betri fjárráð/hærra kaup á sumrin. Þar til við áttuðum okkur líka á því að óréttlát kerfi á að laga á kerfisgrunni en ekki einstaklingsgrunni, því að það voru líka til strákar sem fengu ekki há laun eða áttu mikla peninga að reyna að ganga í skóla. Sama gildir nú: Vill Verslunarmannafélagið að vöruverð til bankastjóra Arion og annarra sem fá milljónir í laun á mánuði sé margfalt hærra en til annarra? Til hvers er Verslunarmannafélag sem gerir kjarasamninga?
Viðbót frá Sigrúnu Ólafsdóttur á Facebook: Í Degi 17. maí 1966 skrifar Guðmundur Gunnarsson um Laugaskóla: Fæðiskostnaður pilta í vetur varð kr. 69.95 á dag og kr. 59.90 fyrir stúlkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)