Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Lífrænir neytendur

Fékk þetta sent í facebook-pósti TímiStaður
7. mars · 19:30 - 21:30
Norræna húsinu - stóra salnum
Sturlugötu 5
 
DAGSKRÁ
19:30 - Inngangsorð: Oddný Anna Björnsdóttir
19:40 - Kjör fundarstjóra og ritara
19:45 - Fundurinn formlega settur
19:50 - Erindi um mat og heilsu í iðnvæddum heimi: Dr. Kristín Vala
Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
20:10 - Tillögur og umræður um fyrirkomulag samtakanna
20:40 - Hlé, skráning í framkvæmdanefnd og faghópa
21:10 - Kynning á framkvæmdanefnd og faghópum
21:20 - Almennar umræður
21:30 - Fundi slitið

Boðið verður upp á léttar lífrænt vottaðar veitingar/smakk.

Á staðnum verður upplýsingamiðstöð um lífrænan landbúnað og framleiðsluaðferðir.

Tilgangur samtakanna: Stuðla að aukinni framleiðslu og neyslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og umhverfisins að leiðarljósi.

Markmið samtakanna: Efla miðlun upplýsinga um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra, hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða og nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða, og stuðla þannig að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.

Í undirbúningsnefnd stofnfundarins eru:

Björg Stefánsdóttir: Skrifstofustjóri NLFÍ
Dominique Plédel Jónsson: Formaður Slow Food
Eygló Björk Ólafsdóttir: Slow Food og Vallanes/Móðir Jörð
Guðmundur R. Guðmundsson: Nefnd um Græna hagkerfið
Guðrún Helga Guðbjörnsd: Brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu hjá LBHÍ
Guðrún Hallgrímsdóttir: Stjórnarmaður og formaður vottunarnefndar Túns
Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur: Náttúran.is
Gunnar Á Gunnarsson: Framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns
Kristín Vala Ragnarsdóttir: Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
Ólafur Dýrmundsson: Landsráðunautur í lífrænum landbúnaði
Oddný Anna Björnsdóttir: Stjfm Lifandi ehf og stofnandi SLN á FB
Sirrý Svöludóttir: Lífrænn bloggari og markaðsstjóri Yggdrasils

Hafa kennarar lítið hlutverk í framhaldsskólum?

Til hvers er ætlast af kennurum framhaldsskóla? Til hvers ætlast kennarar framhaldsskóla?

Erindi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar prófessors við Háskólann á Akureyri og prófessors og brautarstjóra framhaldsskólakennslufræði við Háskóla Íslands á Málþingi um stöðu innleiðingar laga um framhaldsskóla, sem haldið var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins þann 11. febrúar 2011 [frágengið því sem næst óbreytt frá textanum sem stuðst var við þegar erindið var flutt]

Sá sem talar núna hefur starfað sem framhaldsskólakennari, reyndar um fárra ára skeið fyrir aldarfjórðungi. Miklu lengur, eða í hartnær 20 ár, hef ég tekið þátt í að mennta framhaldsskólakennara og lengst af þeim tíma átt þátt í að móta hvað fólst í menntun þeirra, fyrst við Háskólann á Akureyri og nú við Háskóla Íslands. Það er að segja þann hluta námsins sem tilheyrir sjálfum starfsvettvangi kennara, þeim hluta sem oft er nefndur kennslufræði til kennsluréttinda og enn oftar kennsluréttindanám fyrir háskólafólk og iðnmeistara.

I.

Þegar ég fékk verkefnið að ræða til hvers er ætlast af kennurum í lögum um framhaldsskóla gáði ég í lögin (frá 2008). Ég komst að því í þeim segir mjög lítið um kennara og kennslu. Í fyrsta skiptið sem kennari er nefndur þá er tekið fram að „kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara" (6. gr.).

Næst er tekið fram að kennarar eigi fulltrúa í skólaráði (7. gr.) og í þriðja skiptið sem kennarar eru nefndir er tekið fram að skólameistarar ráði þá og þeir séu ráðnir í samræmi við lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda (8. gr.).

Flest önnur ákvæði eru um formsatriði, svo sem um kennarafundi sem allir kennarar eiga seturétt á (10. gr.), áheyrnarfulltrúa kennara í skólanefndum (10. gr.) og námsorlof (11. gr.). Orlofið sjálft og það markmið þess að kennarar geti óskað eftir því „til að efla þekkingu sína og kennarahæfni", eins og það er orðað, eru reyndar engin léttvæg formsatriði en lagagreinin fjallar þó að mestu um formsatriðin við að sækja um orlof og að fá því úthluta.

Menntunarkröfur til kennara eru nefndar í þremur línum en greinin sem kveður á um undanþágu frá menntunarkröfum er fjórar línur (13. gr.).

Sú grein sem mér sýnist segja einna mest um kennarana er greinin um námsmat sem er „í höndum kennara, undir umsjón skólameistara" (30. gr.). Tekið er fram að „matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá". Í sömu grein kemur fram að „hlutverk skólasafns [sé] að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara."

Loks er minnst á kjarasamninga kennara í grein um reiknilíkan (43. gr.).

II.

Er það gott eða slæmt að lögin um framhaldsskóla skuli ekki segja meira um kennara? Eykur það frelsi framhaldsskólakennara - eða veitir það kennurum lakari leiðsögn?

Ef ráða má af lögunum er það meginverksvið framhaldsskólakennara að gefa nemendum einkunnir. Og þótt mér finnist það þröngur skilningur, og þótt þetta kunni að vera útúrsnúningur, er þessi grein þó nokkuð afgerandi, a.m.k. svo lengi sem „undir umsjón skólameistara" er aðallega formsatriði.

III.

Lögin um framhaldsskóla eru ný - og það eru líka tímamót þegar meistaraprófs verður frá og með næsta sumri krafist af framhaldsskólakennurum. Og þótt skyldur kennara virðist, samkvæmt lögunum, ekki svo miklar má lesa miklu meira út úr almennum ákvæðum. Þær kröfur fara mjög saman við almennar tilhneigingar um hvers er krafist af fagmennsku allra kennara. Í grundvallaratriðum: Kennarar í framhaldsskólum eiga að gera meira en að kenna námsgreinina sína á hefðbundinn hátt. Þeir þurfa að skilja skólastarfið sem heild og þeir þurfa að mæta margvíslegum þörfum ólíkra nemenda með alls konar vonir og væntingar, þarfir og þrár.

Ég hef valið fjögur atriði úr lögunum til að nefna í þessu samhengi:

Í fyrsta lagi námskrárgerð og skólaþróun. Nú eiga skólar að semja eigin námskrár og fá þær staðfestar af menntamálaráðuneytinu. Og hver gerir það? Skólameistarinn sem ræður til þess námskrársérfræðinga? Nei, skólaþróun fer fram á heimavelli. Þetta er jákvætt við lögin - en mér sýnist það sannarlega geta krafist breyttra vinnubragða, meiri þekkingar og þjálfunar í námskrárgerð og mati á því hvernig breytingastarf tekst. Því auðvitað þarf að endurskoða námskrána reglulega. Við sem vinnum í kennaraháskólunum þurfum auðvitað að mæta þessum kröfum bæði í kennaranáminu og í tilboðum um símenntun og aðstoð við skólaþróun.

Í öðru lagi vil ég nefna þá kröfu laganna að nemendur með fötlun stundi nám við hlið annarra. Mér sýnist þetta gera kröfur um meiri fjölbreytni í kennsluaðferðum, meiri einstaklingsmiðun námsins og aukna þjálfun í samvinnu við annað fagfólk, svo sem þroskaþjálfa. Það getur vel verið að það verði ekki verkefni allra kennara að taka á móti nemendum með þroskahömlun inn í alla námshópa - en það verður líka mikilvægt að allir kennarar hafi þekkingu og áhuga á því að gera framhaldsskólann að skóla fyrir alla, án aðgreiningar.

Í þriðja lagi nefni ég móttökuáætlanir skóla fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og undir sama hatti fjölmenningu. Undanfarnar vikur hef ég heimsótt sjö framhaldsskóla sem kennaradeild Háskóla Íslands hefur samstarf við. Í þessum heimsóknum hef ég kynnst mjög áhugaverðu starfi og aðlögun nemenda að því að stunda nám í íslenskum skóla og á íslensku. Í þeim skólum þar sem ég hef kynnst þessu starfi sérstaklega hafa tilteknir kennarar tekið að sér verkefni af þessum toga - og ég á von á því að það sé skynsamlegt. En um leið veita þeir öðrum kennurum ráðgjöf þannig að í senn snertir aukinn fjöldi innflytjenda á framhaldskólaaldri suma kennara meira en aðra en alla kennara eitthvað.

Allir framhaldsskólakennarar þurfa því þekkingu á íslenskunámi fyrir útlendinga og á fjölmenningu. Þess vegna ákvað Háskólinn á Akureyri að námskeið um fjölmenningu sem skyldu fyrir verðandi framhaldsskólakennara og þess vegna verður í boði námssvið innan meistaranáms í kennslufræði Háskóla Íslands þar sem verðandi framhaldsskólakennarar, sem mæta með bakkalárpróf í ólíkum greinum upp á vasann, geta sérhæft sig í fjölmenningarlegri kennslu sem auðvitað fer fram í skóla án aðgreiningar. Þessi námssvið, þvert á námsgreinar og skólastig, eru valkostur í samræmi við ákvæði í reglugerð númer 872 frá 2009 þar sem fjallað er um inntak menntunar kennara.

Loks vil ég nefna sjálfræðisaldurinn sem að vísu er nokkuð síðan hækkaði úr 16 árum í 18 ár. Sú breyting hefur krafist meira foreldrasamstarfs af skólunum - en ég tel að hún undirstriki að umhyggja er og verður alltaf hluti af starfi kennara. Umhyggja er reyndar líka hluti af starfi háskólakennara, grunnskólakennara og leikskólakennara (sjá nánari umfjöllun mína í fyrirlestri á málþingi Kennaraháskóla Íslands 2007: http://www.ismennt.is/not/ingo/umhy.htm).

Hækkaður sjálfræðisaldur tengist fræðsluskyldunni sem nú hefur verið lögð á skólana. Það gæti breytt því hvers konar umhyggja þarf að vera í öndvegi, ekki bara umhyggja fyrir góðu námi í eigin fagi, sem langflestir framhaldsskólakennarar hafa í ríkum mæli, heldur umhyggja fyrir nemandanum sem manneskju. Hér koma líka til auknar kröfur um foreldrasamstarf, sem vissulega getur orðið streituvaldur hjá öllum framhaldsskólakennurum eins og foreldrasamstarfið er oft á tíðum hjá nýbyrjuðum grunnskólakennurum.

IV.

Flest af því sem ég hef nefnt breytir kröfum til framhaldsskólakennara og þar með auðvitað til menntunar og undirbúnings þeirra. Ég hef um árabil í minni háskólakennslu til framhaldsskólakennaranema skotið inn, þar sem ég hef getað, litlum þætti um það sem ég kalla samfagleg sjónarmið. Á ensku er þetta cross-curricular - þvert námskrár.

Nú fer hugtakið „þvert" á eitthvað, í þessu sambandi, í taugarnar á mér því að mér virðist mikilvægara að leggja áherslu á að jafnrétti kynja, fjölmenning, upplýsingatækni, sjálfbær þróun, lýðræði og mannréttindi eru allt saman málefni sem varða allt skólastarf - ekki bara þvert á námsgreinar og skólastig heldur eru þetta sameiginleg verkefni. Þar með geri ég ekki lítið úr því sem einstakir sögukennarar eða náttúrufræðikennarar eru að gera, svo að ég nefni dæmi, heldur legg ég áherslu á að þessi viðfangsefni eru ekki einkamál neins kennarahóps. Rétt eins og flestir af hinum 18 viðmælendum Atla Harðarsonar úr hópi raungreina-, sögu- og stærðfræðikennara í framhaldsskólum telja sig að einhverju marki sinna almennum markmiðum og að kennslugreinar þeirra séu til þess fallnar að vinna að framgangi þeirra (nýbirt rannsókn í Tímariti um menntamál, 2010).

Í eldri námskrám var að því er ég best man líka tekið fram eitthvað í þá veruna að allir kennarar væru íslenskukennarar og ef það er rétt þá er íslenskan samfaglegs eðlis og ætti kannski ekki að kenna hana sem sérnámsgrein heldur samþætta hana stærðfræði, sögu, smíðum, hárgreiðslu og náttúrufræði. Slíkt er hlutskipti flestra annarra samfaglegra málefna að vera samþætt við námsgreinarnar - eða sleppt, eins og franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu varar við í viðmiðum sem hann vann að um námskrárgerð fyrir franska menntamálaráðherrann fyrir rúmlega 20 árum (Sjá greinina Principles for reflecting on the curriculum sem birtist á ensku í tímaritinu The Curriculum Journal, 1. árgangi, 3, hefti, bls. 307-314.)

Viðfangsefni mitt með kennaranemum, sem ég nefndi áðan, hefur falist í því að biðja þá að hugsa um tvennt: Hvað getur greinin mín lagt af mörkum við að stuðla að jafnrétti kynja eða sjálfbærri þróun - svo ég taki dæmi af þeim málefnum sem ég hef kynnt mér best? Hin spurningin hljóðar svo: Hvernig getur það að taka tillit til kynjajafnréttis og hugmynda um sjálfbæra þróun bætt námsgreinina og kennslu í henni? Raunar hef ég iðulega beitt spurningunum á lýðræði, fjölmenningu, upplýsingatækni og jafnvel íslenskuna.

V.

Í ljósi þessara samfaglegu þátta, sem ég hafði um árabil lagt áherslu á að faggreinakennarar hugsuðu um, fagnaði ég auðvitað skilgreiningu mennta- og menningarmálaráðherra, sem ég heyrði fyrst af í september 2009 á málþingi um menntun til sjálfbærni, á fimm grunnþáttum menntunar er námskrá og kennsla í leik-, grunn- og framhaldsskólum skyldi taka mið af. Það er læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannrétti, jafnrétti og sköpun. Segja má að þessi ákvörðun sé eins konar framlenging af löggjöfinni með því að taka tillit til annarrar löggjafar, svo sem til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og til alþjóðlegra sáttmála sem við höfum skuldbundið okkur með. Í nýjum sameiginlegum hluta aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er þetta undirstrikað.

VI.

Einn af þessum þáttum eða í rauninni hluti af einum þættinum, jafnrétti kynjanna, er áhersluatriði í þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ári sem nú liggur fyrir Alþingi (Þskj. 401 - 334. mál). Í E-lið áætlunarinnar og atriði númer 27 er gert ráð fyrir að áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla og árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem hafa sýnt mestan árangur. Ég geri ráð fyrir að það sé til þeirra skóla sem hafa sýnt sterkasta litinn í jafnréttismálum.

Atriði númer 28 fjallar um félagslíf í framhaldsskólum og skoðað verði hverjar birtingarmyndir framhaldsskóla séu í Ríkisútvarpinu. Atriði númer 29 snýst um samstillt átak starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja til að opna aðgang „hins kynsins" að starfsgreinum sem teljast annaðhvort kvennagreinar eða karlagreinar „samkvæmt hefð", eins og það er orðað.

Svo er í atriði 30 það sem varðar okkur í kennaraháskólunum: Hvetja á okkur til að innleiða námskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur.

VII.

Hitt séráhugamálið mitt af samfaglegu málefnunum er sjálfbær þróun - það er að segja þetta málefni sem ég hef sett mig betur inn í en mörg af hinum samfaglegu málefnunum. Ríkisstjórnin gefur reglulega út ritið Velferð til framtíðar. Það var gefið út í þriðja sinn sl. sumar, það er sumarið 2010. Þar er sjálfbærnimenntun nefnd sem áhersluþáttur - í fyrsta skipti.

VIII.

Eigum við þá í kennaraháskólunum að hlaupa til ef það kemur slíkur pólitískur þrýstingur, eins og ég hef tilgreint, og birtist í grunnþáttunum, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun? Ef rannsóknir styðja þessa stefnu þá er svar mitt já - ekki að vísu við því að „hlaupa" heldur hlusta og taka tillit til.. Það er gríðarmikil þörf til þess að þjálfa kennara þannig þeir geti kennt um jafnrétti og mismunun og leiðbeint nemendum í leik-, grunn- og framhaldsskólum í átt til lýðræðis og sjálfbærni

Á að taka fram fyrir hendur kennara? Á ráðherra að neita að samþykkja námskrár framhaldsskóla nema þar séu áfangar um kynjafræði - eða sjálfbærnimenntun sé sýnileg sem þungamiðja skólastarfsins?

IX.

Á þessum nótum lýk ég erindinu. Það er bara hollt að það séu ekki allir sammála um hvort samfagleg málefni eigi að vera þungamiðja skólastarfsins. Samfaglegu málefnunum, eins og jafnrétti kynjanna, verður þó varla sinnt í hjáverkum eða þannig að kennarar geti bara vona að eitthvað komi út úr því sem þeir gera þegar þeir eru að kenna hefðbundnar námsgreinar. (Sjá meira um samfagleg málefni sem þungamiðju skólastarfs í fyrirlestri mínum á ráðstefnu skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri 2009: http://www.ismennt.is/not/ingo/Sjalftung.htm).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband