Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sekur eða saklaus af einhverju misjöfnu?

Ég hef ekki hugmynd um hvort Helgi Sigurðsson fv. yfirlögfræðingur Kaupþings gerði eitthvað af sér í því starfi, hvort hann er sekur vegna einhvers né heldur hvort hann er saklaus af einhverju. Samt sýnist nokkuð ljóst að ýmislegt athugavert átti sér stað þegar Helgi var þar við störf, annars hefði nú hrunið ekki orðið svo óskaplegt sem það var. Hvers vegna þarf DV til að grafa upp upplýsingar sem reynt er að halda leyndum til að yfirmenn segi af sér? Hvers vegna er ekki búið að fara yfir þetta betur í bönkunum sjálfum, næstum níu mánuðum eftir hrunið?

Nú vil ég fá að vita hversu margir af helstu yfirmönnum bankanna gömlu eru þar enn við sömu störf og áður. Í því felst ekki yfirlýsing um að ég telji að þeir séu sekir af einhverju, en ég veit ekki heldur hvort þeir eru saklausir af einhverju. Einhvern veginn virðist bara enginn vilja taka nokkra ábyrgð á því sem gerðist, ekki sjálfviljugur! A.m.k. ekki nefndur Helgi Sigurðsson. Og munum að það að taka ábyrgð felur alls ekki endilega í sér misgjörðir heldur viðurkenningu á því að menn tóku þátt í því sem svo hrapallega mistókst.


mbl.is Helgi hættir hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafla lætur ekki að sér hæða

Getur verið að náttúran þarna í nágrenni virkra eldstöðva frá 1975-1984 sé of kröftug til að þola að meira sé átt við hana? Mér finnst ég reyndar muna að annars staðar á þessu svæði hafi verið boruð dýpri hola, en stundum held ég eldfjöll hafi frjálsan vilja og nú hafi það gerst að Krafla og Leirhnjúkur séu að lýsa andstöðu sinni við stóriðjustefnuna. Mig minnir líka endilega að Hekla hafi gosið í fyrra skiptið sem Bandaríkin réðust inn í Írak (janúar 1991).
mbl.is Boruðu niður í bráðið berg á 2,1 km dýpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálfti og stöðugleikasáttmáli hönd í hönd?

Stöðugleikasáttmálinn var frétt númer 1 í Sjónvarpinu, en jarðskjálftafréttin kom í kjölfarið, eða númer þrjú Smile
mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lengur trúfélags-sóknargjald til Háskóla Íslands

Ein af þeim breytingum sem lagt er til að nú verði er sú að ríkissjóður hætti að greiða sóknargjald til Háskóla Íslands fyrir okkur sem erum ekki í trúfélagi. Þetta hefur auðvitað verið fráleitur gjörningur. Hann hefur ekki bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs þar sem mér skilst að það eigi að veita sambærilegri upphæð til HÍ. Hér er að neðan rökstuðningur eins og hann kemur fram í frumvarpi til laga um ráðstafanir ríkisfjármálum:

"Lögboðin framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands, svonefnd sóknargjöld, eru ákvörðuð með þeim hætti að ákveðin grunnfjárhæð hækkar milli ára skv. 3. tölul. 2. gr. laganna með því að ofan á hana bætist hækkun sem kann að verða á meðaltekjuskattstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan tekjuárinu. Framlagið reiknast fyrir alla einstaklinga, 16 ára og eldri, og er deilt út til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga samkvæmt lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 og Háskólasjóðs. Rétt er að benda á í þessu sambandi að þrátt fyrir nafngiftina innheimtir ríkið í reynd engin sóknargjöld heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli framangreindra viðmiða. Til þess að ná fram þeim samdrætti í útgjöldum ríkisins sem nú er stefnt að er nauðsynlegt að lækka þá fjárhæð sem greiðist til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Framlag sem er greitt fyrir einstaklinga sem hvorki eru í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi samkvæmt lögum nr. 108/1999 rennur til Háskólasjóðs hjá Háskóla Íslands. Þetta framlag vegna einstaklinga utan trúfélaga tengist ekki beint neinum útgjöldum sem stofnast vegna trúarskoðana fólks til trúariðkunar líkt og gildir hjá skráðum trúfélögum, þ.m.t. þjóðkirkjunni. Þá er framlagið arfleifð frá fyrri tíð þegar aðeins einn háskóli var í landinu og á sér ekki hliðstæðu gagnvart öðrum háskólum, auk þess sem það þykir ekki falla vel að árlegri fjárlagagerð um háskólastigið. Þykir eðlilegra að þetta fyrirkomulag framlagsins til Háskólasjóðs verði afnumið og að í stað þess komi bein fjárveiting úr ríkissjóði."

Á hinn bóginn má spyrja sig sem svo hvers vegna á ekki að stíga það skref að leyfa sambærileg gjöld og sóknargjöldin til annarra lífsskoðunarfélaga, sjá fyrra blogg.
mbl.is Einblíni meira á niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógareyðing í Heiðmörk

Í lista yfir fréttir úr Kópavogi hefði gjarna líka mátt nefna frétt af dómi Héraðsdóms þegar vatnsleiðsla var lögð í gegnum Heiðmörk með tilheyrandi skemmdum - það er nefnilega ekki eitt heldur allt sem er á seyði í Kópavogi.


mbl.is Þrír flokkar funda í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgir vottar heilbrigði Bankasýslunnar með aðfinnslum sínum

Mér hefur virst í umræðunum í vetur að það hafi verið vísbending um að eitthvað jákvætt sé verið að gera þegar Birgir Ármannsson byrjar að gagnrýna (ef vill má segja að hann tuði og nöldri fremur en gagnrýni), sbr. meinta leynd sem hann kvartaði undan í vetur. Hann kvartar undan því að umstang muni fylgja þessari stofnun. Bankasýslan lengir leiðina frá stjórnmálamönnunum til bankanna sem er markmið í sjálfu sér, en umfram allt sýnist mér tilvist hennar gera bankamálin gagnsærri og faglegri og jafnframt að þannig geti fjármálaeftirlit og seðlabanki verið óháðar fag- og eftirlitsstofnanir meðan þessi stofnun sjái um framkvæmdir. Er það ekki jákvætt að mati Birgis og flokkssystkina hans? Veit Birgir ekki að einkavæðingunni fylgir kerfi ýmissa stofnana ríkisins? Nema hann vilji að þær séu of veikar og lélegar eins og sýndi sig á árunum fyrir hrunið.


mbl.is Ekki tími nýrra stofnanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupangur á Laugavegi! Sameining bókabúða og kaffihúsa?

Undarlegar hafa verið fréttirnar undanfarna daga af fasteignafélaginu "Kaupangri" sem ætlaði að hækka leiguna við Bókabúð Máls og menningar af því að ríkið ætti núna Pennann sem ætti Bókabúðina. Eigendur Kaupangurs hafa að vísu ekki svarað spurningum þeirra fjölmiðla sem ég hef séð eða heyrt um málið fjalla þannig að þetta hefur verið nokkuð einhliða frásögn af þeirri menningarlegu eymd er gæti skapast ef bókabúðinni yrði lokað, jafnvel hefur verið óskað álits menntamálaráðherra. Og nú kemur á daginn að á Laugavegi 18 verður vonandi stofnuð sjálfstæð bókabúð, ekki hluti af keðju Pennans, með haustinu. En síðustu daga hafa fréttirnar af "Kaupangri" angrað mig.

Talandi um fjölmiðla sem óska álits menntamálaráðherra á því hvort bókabúð við Laugaveg verður lokað: Hvað um þær bókabúðir í ólíkum byggðum landsins sem hefur verið lokað? Ætti hið opinbera að beita sér fyrir því að kaffihús og bókabúðir sameinist um rekstur eins og með góðum árangri í miðbæ Akureyrar þar sem Penninn rekur bókabúð og kaffihús sem er opið fram á kvöld alla daga?Það er enginn vafi á því að ég kem oftar í bókabúðir af því að þar eru kaffihús, og fyrir vikið fylgist ég betur með bókaútgáfu og kaupi stundum eitthvert rit af því að ég einfaldlega sé því útstillt á leiðinni að kaffinu. Gætu hér skapast nokkur störf í baráttunni við atvinnuleysið? Og aukið íslenska bóksölu.

Fyrirgreiðsla til þeirra sem vilja samreka bókabúð og kaffihús er kannski nokkuð sem á virkilega að hugsa um í baráttunni við efnahagsástandið. Kannski má reka myndlistargallerí í jafnnánum tengslum við bókabúðina-kaffihúsið, og skapa enn fleiri störf.


mbl.is Mál og menning aftur á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndun Mývatns og Laxár - loksins tillaga að verndaráætlun

SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, barst nýlega til umsagnar tillaga að verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá (slóð: http://ust.is/Adofinni/Frettir/nr/5959). Hér á eftir er hluti af umsögninni:

"Að fá þetta skjal í hendur rifjar upp hálfgerða harmsögu nýju löggjafarinnar frá 2004 um verndun Mývatns og Laxár sem leysti af hólmi eldri lög sem friðlýstu meðal annars allan Skútustaðahrepp. Það er nefnilega svo að setningu reglugerða, gerð verndaráætlunar og friðlýsingu einstakra staða, sem þá stöðu verðskulda, átti að vera lokið fyrir býsna löngu. Gerð verndaráætlunarinnar átti að vera lokið fyrir árslok 2005 og friðlýsingu einstakra staða fyrir árslok 2007, t.d. Dimmuborga sem eru ekki formlega friðlýstar þótt þær hafi verið í farsælli vörslu Landgræðslunnar sem hefur eftir föngum reynt að greiða aðgengi almennings með því að gera þar stíga, í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun og bresku sjálfboðaliðasamtökin. Tímasetning verndaráætluninnar í nýju lögunum á sínum tíma var nú að vísu nokkuð brött - átti sem fyrr segir að vera lokið fyrir árslok 2005 - en síðan eru nú samt liðin þrjú og hálft ár. Auðvitað var bent á það á sínum tíma af náttúruverndarsamtökum og einstaklingum að ekki væri mikið vit í að aflétta friðlýsingu í lögunum án þess að önnur stjórntæki lægju fyrir. Æskilegt væri að verndaráætlunin innihéldi mat á því hvað hefur breyst síðan löggjöfin var sett, hvaða tækifæri hafa glatast á þessum tíma. Ef það er ekki talið eiga heima í henni væri engu að síður æskilegt að Umhverfisstofnun eða umhverfisráðuneytið léti fara fram hlutlægt mat á því hvað hefur breyst síðan lögin voru sett.

Tillagan sem nú liggur fyrir að verndaráætlun gæti markað nýtt upphaf um verndun Mývatns. Í henni er sérhæfð lýsing þar sem leitast er við að lýsa gildi svæðisins af ýmsum sjónarhólum náttúruvísindanna. Í henni er gerð grein fyrir margvíslegum aðgerðum af ólíkum toga. Tillagan er þó hreint ekki gallalaus og sumt í henni er mikilvægara en annað að komist í framkvæmd. Hér verður tæpt á fáeinum atriðum sem SUNN telja að Umhverfisstofnun þurfa að hafa sérstaklega í huga eða beinlínis að bæta við áætlunina eins og tillagan liggur nú fyrir.

1. SUNN eru að sjálfsögðu sammála því að formlegri friðlýsingu staða utan núverandi verndarsvæðis verði formlega lokið sem allra fyrst. Þetta er vísast eitt algerra forgangsatriða fyrir utan gerð verndaráætlunarinnar sjálfrar. Sama gildir um reglugerðir sem á að setja.

2. SUNN telja að fræðslu- og túlkunarkaflinn þurfi að vera ítarlegri og meira upp úr honum lagt. Tvenns konar starfsemi hefur verið komið á fót á sl. tíu til tólf árum en lögð niður skömmu síðar, það er Kvika-fræðagarður og Mývatnssafn. Kviku mætti gjarna endurvekja eða koma á fót sambærilegri starfsemi. Mývatnssafn sýndi ýmislegt frá atvinnustarfsemi tengdri vatninu, bæði veiðiskap, eggjatekju og námugreftri. SUNN telja að þess háttar starfsemi samrýmist vel starfsemi gestastofu Umhverfisstofnunar og mætti stefna að nánu samstarfi. Þetta samrýmist líka því sem fram kemur á bls. 69 að virkja heimafólk til fræðslustarfsins.

3. Kjarninn í fræðslustarfseminni er starf landvarða - en einnig þarf að huga að öðrum verkefnum landvarða. Verndaráætlun án þess að gera grein fyrir því hvernig efld verði landvarsla á svæðinu er ekki nægilega traust. SUNN vita vel að nú er alvarlegur halli á ríkisfjármálum og því ekki auðvelt að auka þessa starfsemi akkúrat nú um stundir. SUNN kalla eftir því að sett verði skýr framtíðarmarkmið um fræðslu landvarða en einnig um vöktunarhlutverk landvarða, bæði á sviði náttúruverndar og ferðamennsku (sjá t.d. bls. 71). Nefna má sem möguleika að koma upp fáeinum túlkunarstöðum þar sem landverðir hafa fimm mínútna dagskrá á fyrir fram auglýstum tímum einu sinni eða oftar á dag.

4. Varðandi landgræðslu og endurheimt skóga taka SUNN undir það markmið að lögð verði áhersla á endurheimt og endurhæfingu birkiskóga og fagna því að barátta við skógarkerfil verði sett á forgangslista. SUNN fagna því líka að baráttan við útbreiðslu lúpínu sé sérstaklega nefnd og SUNN fagna líka því markmiði að ekki verði notaðar erlendar trjátegundir sem myndu breyta mjög ásýnd svæðisins, t.d. ef þær yrðu settar niður á Ásunum milli Krákár og Arnarvatns.

5. Skoða þarf mengunarmál vel, t.d. af virkjun í Bjarnarflagi. SUNN telja afar hæpið að stór virkjun í Bjarnarflagi geti rúmast innan markmiða laganna. Á þessu þarf að taka í verndaráætluninni. Einnig þarf að skoða mögulega mengun af vélknúnum vetraríþróttum á Mývatni. Hér má spyrja sig þeirrar spurningar hvort sé skynsamlegra: Að takmarka slíka starfsemi eða búa til viðamiklar áætlanir til mengunarvarna ef slys bæri að höndum.

6. Hljóðvist er eðlilegt að taka sérstaklega eins og gert er og styðja SUNN þá „ósk" Umhverfisstofnunar að ekki sé flogið lágflug yfir verndarsvæðið. Hér þarf líka að hafa í huga hljóðmengun af vélknúnum vetraríþróttum sem getur verið talsvert mikil, ekki síst á kyrrum dögum að vetrarlagi. Hljóðvistin lýtur að sambýli ólíkra tegunda ferðamennsku.

7. ... Fagnað er markmiðum um vöktun breytinga Framengja því þótt SUNN hafi staðið að endurheimtinni í samvinnu við landeigendur er ljóst að samtökin hafa ekki bolmagn til rannsókna á áhrifum endurheimtarinnar. SUNN stefna þó að því að gefa út fræðsluefni og ætti að vera óhætt að greina frá því í verndaráætluninni. Vonandi tekst að gefa það út á árinu 2010.

8. Samkvæmt lögum á að vera samráð við umhverfisverndarsamtök um gerð verndaráætlunarinnar. SUNN mæla með því að það samráð verði aukið og látið ná til ferða- og útivistarfélaga."


Verra ef Össur hefði týnst á Möltu

Mér finnst umræðan um Möltuferð Össurar mjög skemmtileg. Eftir yfirlýsingu Jóhönnu þýðir hins vegar lítið að halda því fram að hún hafi verið farin vegna gagnaöflunar ríkisstjórnarinnar til að setja sér sem skýrust samningsmarkmið eða afla upplýsinga um hvernig best sé að semja við ESB. Ef svo hefði verið hefði forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, hin heita stuðningsmanneskja þess að gengið verði í ESB, auðvitað lagt á ráðin með Össuri um ferðalagið.

Svo er spurning um tilkynningaskyldu ráðherranna: Þarf ekki forsætisráðherra á viðsjárverðum tíma að geta náð í ráðherrana með stuttum fyrirvara? Ekki að Össur og aðrir ráðherrar megi ekki, mín vegna, hafa ferðafrelsi. Mér finnst jákvætt að ráðherrarnir ferðist og hafi samskipti við önnur lönd - en þarf ekki aðhald í því eins og öðru? Markviss ferðalög?


mbl.is Jóhanna vissi ekki um ferð Össurar til Möltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband