Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Stóri veggjakrotsvandinn

NÝLEGA var ég nokkra daga í Reykjavík í þeim erindagjörðum að sitja landsfund Vinstri grænna. Á leið minni úr Hlíðunum í áttina að fundarstaðnum við Sigtún gekk ég þrjá daga í röð um undirgöngin undir Miklubraut við Lönguhlíð og fram hjá Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð. Víða á þessari leið er veggjakrot – graffíti – ekki síst í undirgöngunum, en einnig á veggjum Kennaraháskólans en mest þó á íþróttahúsi hans.

Myndlistarsýning í undirgöngum

Listakonan Rósa Sigrún Jónsdóttir sýnir nú 31 mynd sem hún tók af graffíti í undirgöngunum undir Miklubrautina. Þar sést þróun krotsins í mánuðinum á skemmtilegan hátt.

Það var líka forvitnilegt að fylgjast með sýningunni og vettvangi hennar: Fyrsta daginn sem ég gekk þarna um var megn málningarstækja af nýrri málningu og allar myndirnar, en svo smáminnkaði málningarlyktin, kom nýtt krot og nokkrar myndir voru farnar af veggnum og lágu í undirgöngunum.

Rannsóknir á graffíti

Í febrúar voru tveir þættir á Rás 1 í Ríkisútvarpinu um graffíti með viðtölum við graffara, þ.e. þá sem búa til graffíti, og fræðimenn. Þar kom fram að graffíti er alþjóðlegt fyrirbrigði og í mörgum borgum erlendis eru staðir þar sem graffarar mega annaðhvort krota eða það er látið afskiptalaust. Stórskemmtilegir þættir hjá Lísu Páls á föstudögum klukkan þrjú.

Raunar er alls ekki sanngjarnt að tala um graffíti sem "krot" – nema þá kannski einhvern hluta þess. Fræðimenn í viðtölunum gerðu mikinn greinarmun á listrænni tjáningu sem oft byggist á flókinni framsetningu, margbreytilegu mynstri þar sem t.d. stafir eru litaðir. Viðmælandinn Þórdís Claessen, sem vinnur að bók um graffíti, líkti fallegustu myndunum við mynstur í "persnesku teppi". Raunar þarf ekki mikla myndlistarmenntun til að njóta fallegasta veggjakrotsins; það er einfaldlega svo skemmtilegt. Áhugavert var að heyra í íslenskum graffara sem fannst lítið til byrjendenna koma, einkum af því að þeir krotuðu á staði sem ekki væri við hæfi að krota á og skemmdu þannig fyrir þeim sem héldu sig innan smekklegra ramma.

Graffíti er bæði rannsakað sem myndlist og sem félagslegt fyrirbrigði, jafnvel sem markaðslegt fyrirbrigði. Ungt fólk vill tjá sig á listrænan hátt – má þá ekki tala um graffíti-listamenn? – og það vill koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Graffíti hefur líka stundum verið upphaf að starfsferli í myndlist.

Er stríðið við veggjakrot fjáraustur?

Morgunblaðið sagði frá "sprengingu" í veggjakroti í vetur (baksíðan 26. febrúar sl.) – og heyrst hefur sá orðrómur að það hafi aukist sem andsvar við sterkari háþrýstidælur til að ná af krotinu. Til hvers í ósköpunum er verið að fara í öll 23 undirgöng Reykjavíkurborgar á hverjum degi til að hreinsa krot? Í útvarpsþáttunum kom fram að á annað hundrað milljónum króna sé varið til hreinsunarinnar.

Mér virðast áhyggjur reykvískra borgaryfirvalda af graffíti of miklar. Nýtum orkuna fremur í að leyfa graffíti sums staðar en sporna við því annars staðar. Graffíti-listamenn hafa nokkrum sinnum fengið tækifæri til að koma list sinni á framfæri á tilteknum stöðum. Væri hægt að merkja staði sem "má" mála og krota á; erlendis munu vera slíkir leyfilegir staðir? Undir þetta tók t.d. lögreglumaður sem rætt var við í þáttunum og borgarstjóri sagðist tilbúinn til að ræða þetta við graffarana. Of mikil bjartsýni er þó að ætla að slíkar aðgerðir muni koma alveg í veg fyrir krot sem flokka mætti undir skemmdarverk. Kannski við losnuðum fremur við krot í formi skemmdarverka ef listnám í grunnskólum yrði aukið?

Meiri hreinsun – meira krot?

Gæti verið að hin ósmekklega áletrun á suðurhlið Kennaraháskólans, og er óprenthæf, hefði aldrei komið fram ef krotið í undirgöngunum við Lönguhlíð fengi að vera í friði fyrir háþrýstidælunum? Enginn viðmælendanna í þáttum Lísu, hvorki graffíti-listamennirnir né aðrir, varði áletrun af því tæi sem "prýddi" Kennaraháskólann – og ekki heldur listafólk sem ég hef ónáðað með þessu umræðuefni undanfarna daga. Þannig að það eru mörk í graffíti eins og á öðrum sviðum mannlífsins. Og eiga að vera það – en þau geta ekki þróast af viti ef allt er bannað. Munum líka að graffíti-listamenn eru ekki hættulegir glæpamenn og að graffíti-vandinn er ekki neitt viðlíka jafnalvarlegur og spilakassar eða klám.

Graffíti á að rannsaka meira fremur en eyða svona miklum fjármunum í hreinsun. Á flestum öðrum sviðum er rannsakað hvaða aðferðir skila bestum árangri. En þá þurfum við reyndar að vita hvort minna krot er einhlítur mælikvarði á meiri árangur eða hvort betra krot á heppilegri stöðum er skárri kvarði. Rannsóknir gætu líka eytt fordómum gagnvart graffíti, aukið skilning á listgreininni og hjálpað til við að draga mörkin gagnvart því hvar graffíti á heima og hvar ekki.

Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og áhugamaður um myndlist.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband