Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Krossgötur kynjarannsókna - Virðing og umhyggja

Var að koma heim frá höfuðborginni þar sem rekin voru margvísleg erindi, m.a. tvær ráðstefnur sem þó stönguðust á í tíma. Önnur þeirra var tveggja daga ráðstefna um margvíslegar kynjarannsóknir á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ. Hin var málþing um nýja bók Sigrúnar Aðalbjarnardóttur sem nefnist Virðing og umhyggja. Ákall 21. aldarinnar. Afar áhugavert bók þar sem Sigrún dregur saman og setur í samhengi umfangsmiklar rannsóknir sínar, m.a. um starf kennara og þroska nemenda. Á málþinginu töluðu fjölmargir og það troðfylltist stór salur svo að ég held að einhverjir hafi orðið frá að hverfa. Eitthvað fámennara var á kynjafræðiþinginu þótt erfiðara sé að meta það þar sem þingið var tveggja daga og yfirleitt nokkrar málstofur á sama tíma og gestir komu og fóru. Ég fylgdist með fyrirlestrum þar sem rætt var um þau teikn að ungt fólk hafi íhaldssamari sjónarmið um verkaskiptingu kynja en ungt fólk fyrir 10 til 20 árum. Einnig sat ég málstofu þar sem fræðafólkið hafði skoðað á hvern hátt byggðaþróun og auðlindanýting hafa ólík áhrif á karla og konur og hvernig karlar og konur taka að sér ólík hlutverk. Og loks sat ég málstofu um skólastarf og jafnréttispólítík, auk þess að hlusta á pallborðsumræður um utanríkismál þar sem m.a. kom fram það sjónarmið að setja á stofn rannsóknasetur um kvenna- og kynjafræði er gæti orðið framarlega á alþjóðlegum vettvangi á þessu fræðasviði. Afar áhugaverð hugmynd.

Upplifunarkrafan um hið óvænta

Undanfarna daga hef ég verið að segja fólki frá ferðalagi mínu til Arizona. Og spurður hvort Miklugljúfur væru ekki stórkostleg. Um leið og ég segi að þau hafi staðið undir væntingum þá er spurt hvort þau hafi ekki verið stórkostleg. Jú, svarið er, þau eru það bæði sem náttúruundur en einnig sem sögustaður og reyndar kom sá þáttur mér á óvart, kannski mest þáttur arkitektúrs. Landvörður sem ég fór með í stutta gönguferð sagði sögur af Mary Coulter (vona ég fari rétt með nafn hennar) sem hannaði mjög margar af hinum sögulegu byggingum. El Tovar-hótelið mun eitt hið frægasta af þeim, byggt 1905, stórmerkileg bygging.

Þetta hefur fengið mig til hugsa um að upplifunarkrafan um hið óvænta er orðin svo sterk í orðræðunni að ef manni er ekki komið á óvart er það næstum því þannig að maður verður fyrir vonbrigðum. Þannig t.d. kom ekki á óvart að matur Halastjörnunnar eftir ráðstefnuna í gær væri góður - en hver einstakur réttur kom yfirleitt á óvart. Ekki að vísu að innmatur, svo sem hjörtu og lifur, blóð og mör, væri góður matur - en samsetningarnar.

Mér finnst þetta umhugsunarvert Smile


Sauðkindur og Halastjarna

Náði í dindilinn af sauðkindarseiðnum í dag, erindi tveggja sauðfjárbænda, þeirra Guðríðar Baldvinsdóttur og Jóhönnu Pálmadóttur, pallborðsumræður frummælenda og matinn frá Halastjörnunni sem voru alls konar smáréttir, aðallega úr innmat og slátri, svo sem lifrarpylsa með bláberjum og steiktur blóðmör með avocado. Ágætis ráðstefna, fín stemmning, vel mætt. Akureyrarakademíunni sé þökk fyrir framtakið.

Miklugljúfur og mislögð gatnamót, vatn eða skólp?

Ég "brá" mér til Arizona í síðustu viku og kom heim í morgun. Meginerindið var að sitja litla ráðstefnu um hugtakið sjálfbærni, m.a. um hvers konar samræður eða hvers konar skilningur á samræðum er nauðsynlegur eða líklegur til að skapa virðingu milli fólks þrátt fyrir ágreining. Eitt erindið var um greiningartækni á umhverfismatsskýrslum - til meðferðar voru skýrslur um snjógerð í Snowbowl fyrir norðan Flagstaff í Arizona. Hvort nota mætti hreinsað vatn - eða hvað á það að heita vatnið, ég meina vatnið sem á að frysta en ekki heita vatnið - já, hreinsað vatn eða hreinsað skólp, er það þá skólp, eða er það endurunnið vatn (dæmi um ensk orð eru reclaimed watereffluent, treated sewage, sewage, treated wastewater, og pee, poop, or sewage, til að láta hlutina líta vel eða illa út)? En þetta snýst ekki bara um hvenær vatn er skólp og hvenær skólp er vatn heldur eru fjöllin heilög fyrir frumbyggjunum og a.m.k. einn ættbálkur er andsnúinn því að nota hreinsað vatn/skólp, hvað sem það heitir, við snjógerð á slíku heilögu svæði. Svo mun málið líka snúast um hvort bora eigi eftir vatni 1000 m niður í jörðina með tilheyrandi kostnaði og e.t.v. umhverfisskaða. Mér skilst að dómarinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hreinleiki vatnsins sé afgerandi, sambærilegur við mikilvægi hreinleika vatns við kristna skírn. [Höfundur þessa erindis heitir Paul Walker, prófessor við Murray State University.]

Ráðstefnan var haldin í Arizonaháskóla í Tempe en þaðan "skrapp" ég svo upp að Miklugljúfrum en skoðaði nokkra aðra staði í leiðinni, t.d. rústir Wupakti Pueblo og náttúruvættið Sunset Crater Volcano. Á þessum slóðum gaus miklu hraungosi fyrir 1000 árum eða svo, og rústirnar eru taldar um 800 ára gamlar. Naut þessar reyndar líka að aka þessa 400-500 km leið fram og til baka og njóta útsýnis og gríðarlega fjölbreytilegs landslags - og svo tókst mér að rata á margakreina hraðbrautum í gegnum Phoenix og a.m.k. þriggja hæðum háum mislögðum gatnamótum, allt eftir útprentuðum Yahoo-eiðbeiningum kollega míns Peters Rilleros sem var á Akureyri sem Fulbright-skiptikennari fyrir nokkrum árum. Reyndar eru merkingarnar ágætar og það skaðar ekki. Og kannski eru þessi gatnamót þá ekki mislögð eftir allt?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband