20.6.2009 | 08:31
Kaupangur á Laugavegi! Sameining bókabúða og kaffihúsa?
Undarlegar hafa verið fréttirnar undanfarna daga af fasteignafélaginu "Kaupangri" sem ætlaði að hækka leiguna við Bókabúð Máls og menningar af því að ríkið ætti núna Pennann sem ætti Bókabúðina. Eigendur Kaupangurs hafa að vísu ekki svarað spurningum þeirra fjölmiðla sem ég hef séð eða heyrt um málið fjalla þannig að þetta hefur verið nokkuð einhliða frásögn af þeirri menningarlegu eymd er gæti skapast ef bókabúðinni yrði lokað, jafnvel hefur verið óskað álits menntamálaráðherra. Og nú kemur á daginn að á Laugavegi 18 verður vonandi stofnuð sjálfstæð bókabúð, ekki hluti af keðju Pennans, með haustinu. En síðustu daga hafa fréttirnar af "Kaupangri" angrað mig.
Talandi um fjölmiðla sem óska álits menntamálaráðherra á því hvort bókabúð við Laugaveg verður lokað: Hvað um þær bókabúðir í ólíkum byggðum landsins sem hefur verið lokað? Ætti hið opinbera að beita sér fyrir því að kaffihús og bókabúðir sameinist um rekstur eins og með góðum árangri í miðbæ Akureyrar þar sem Penninn rekur bókabúð og kaffihús sem er opið fram á kvöld alla daga?Það er enginn vafi á því að ég kem oftar í bókabúðir af því að þar eru kaffihús, og fyrir vikið fylgist ég betur með bókaútgáfu og kaupi stundum eitthvert rit af því að ég einfaldlega sé því útstillt á leiðinni að kaffinu. Gætu hér skapast nokkur störf í baráttunni við atvinnuleysið? Og aukið íslenska bóksölu.
Fyrirgreiðsla til þeirra sem vilja samreka bókabúð og kaffihús er kannski nokkuð sem á virkilega að hugsa um í baráttunni við efnahagsástandið. Kannski má reka myndlistargallerí í jafnnánum tengslum við bókabúðina-kaffihúsið, og skapa enn fleiri störf.
Mál og menning aftur á Laugavegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.