Verndun Mývatns og Laxár - loksins tillaga að verndaráætlun

SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, barst nýlega til umsagnar tillaga að verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá (slóð: http://ust.is/Adofinni/Frettir/nr/5959). Hér á eftir er hluti af umsögninni:

"Að fá þetta skjal í hendur rifjar upp hálfgerða harmsögu nýju löggjafarinnar frá 2004 um verndun Mývatns og Laxár sem leysti af hólmi eldri lög sem friðlýstu meðal annars allan Skútustaðahrepp. Það er nefnilega svo að setningu reglugerða, gerð verndaráætlunar og friðlýsingu einstakra staða, sem þá stöðu verðskulda, átti að vera lokið fyrir býsna löngu. Gerð verndaráætlunarinnar átti að vera lokið fyrir árslok 2005 og friðlýsingu einstakra staða fyrir árslok 2007, t.d. Dimmuborga sem eru ekki formlega friðlýstar þótt þær hafi verið í farsælli vörslu Landgræðslunnar sem hefur eftir föngum reynt að greiða aðgengi almennings með því að gera þar stíga, í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun og bresku sjálfboðaliðasamtökin. Tímasetning verndaráætluninnar í nýju lögunum á sínum tíma var nú að vísu nokkuð brött - átti sem fyrr segir að vera lokið fyrir árslok 2005 - en síðan eru nú samt liðin þrjú og hálft ár. Auðvitað var bent á það á sínum tíma af náttúruverndarsamtökum og einstaklingum að ekki væri mikið vit í að aflétta friðlýsingu í lögunum án þess að önnur stjórntæki lægju fyrir. Æskilegt væri að verndaráætlunin innihéldi mat á því hvað hefur breyst síðan löggjöfin var sett, hvaða tækifæri hafa glatast á þessum tíma. Ef það er ekki talið eiga heima í henni væri engu að síður æskilegt að Umhverfisstofnun eða umhverfisráðuneytið léti fara fram hlutlægt mat á því hvað hefur breyst síðan lögin voru sett.

Tillagan sem nú liggur fyrir að verndaráætlun gæti markað nýtt upphaf um verndun Mývatns. Í henni er sérhæfð lýsing þar sem leitast er við að lýsa gildi svæðisins af ýmsum sjónarhólum náttúruvísindanna. Í henni er gerð grein fyrir margvíslegum aðgerðum af ólíkum toga. Tillagan er þó hreint ekki gallalaus og sumt í henni er mikilvægara en annað að komist í framkvæmd. Hér verður tæpt á fáeinum atriðum sem SUNN telja að Umhverfisstofnun þurfa að hafa sérstaklega í huga eða beinlínis að bæta við áætlunina eins og tillagan liggur nú fyrir.

1. SUNN eru að sjálfsögðu sammála því að formlegri friðlýsingu staða utan núverandi verndarsvæðis verði formlega lokið sem allra fyrst. Þetta er vísast eitt algerra forgangsatriða fyrir utan gerð verndaráætlunarinnar sjálfrar. Sama gildir um reglugerðir sem á að setja.

2. SUNN telja að fræðslu- og túlkunarkaflinn þurfi að vera ítarlegri og meira upp úr honum lagt. Tvenns konar starfsemi hefur verið komið á fót á sl. tíu til tólf árum en lögð niður skömmu síðar, það er Kvika-fræðagarður og Mývatnssafn. Kviku mætti gjarna endurvekja eða koma á fót sambærilegri starfsemi. Mývatnssafn sýndi ýmislegt frá atvinnustarfsemi tengdri vatninu, bæði veiðiskap, eggjatekju og námugreftri. SUNN telja að þess háttar starfsemi samrýmist vel starfsemi gestastofu Umhverfisstofnunar og mætti stefna að nánu samstarfi. Þetta samrýmist líka því sem fram kemur á bls. 69 að virkja heimafólk til fræðslustarfsins.

3. Kjarninn í fræðslustarfseminni er starf landvarða - en einnig þarf að huga að öðrum verkefnum landvarða. Verndaráætlun án þess að gera grein fyrir því hvernig efld verði landvarsla á svæðinu er ekki nægilega traust. SUNN vita vel að nú er alvarlegur halli á ríkisfjármálum og því ekki auðvelt að auka þessa starfsemi akkúrat nú um stundir. SUNN kalla eftir því að sett verði skýr framtíðarmarkmið um fræðslu landvarða en einnig um vöktunarhlutverk landvarða, bæði á sviði náttúruverndar og ferðamennsku (sjá t.d. bls. 71). Nefna má sem möguleika að koma upp fáeinum túlkunarstöðum þar sem landverðir hafa fimm mínútna dagskrá á fyrir fram auglýstum tímum einu sinni eða oftar á dag.

4. Varðandi landgræðslu og endurheimt skóga taka SUNN undir það markmið að lögð verði áhersla á endurheimt og endurhæfingu birkiskóga og fagna því að barátta við skógarkerfil verði sett á forgangslista. SUNN fagna því líka að baráttan við útbreiðslu lúpínu sé sérstaklega nefnd og SUNN fagna líka því markmiði að ekki verði notaðar erlendar trjátegundir sem myndu breyta mjög ásýnd svæðisins, t.d. ef þær yrðu settar niður á Ásunum milli Krákár og Arnarvatns.

5. Skoða þarf mengunarmál vel, t.d. af virkjun í Bjarnarflagi. SUNN telja afar hæpið að stór virkjun í Bjarnarflagi geti rúmast innan markmiða laganna. Á þessu þarf að taka í verndaráætluninni. Einnig þarf að skoða mögulega mengun af vélknúnum vetraríþróttum á Mývatni. Hér má spyrja sig þeirrar spurningar hvort sé skynsamlegra: Að takmarka slíka starfsemi eða búa til viðamiklar áætlanir til mengunarvarna ef slys bæri að höndum.

6. Hljóðvist er eðlilegt að taka sérstaklega eins og gert er og styðja SUNN þá „ósk" Umhverfisstofnunar að ekki sé flogið lágflug yfir verndarsvæðið. Hér þarf líka að hafa í huga hljóðmengun af vélknúnum vetraríþróttum sem getur verið talsvert mikil, ekki síst á kyrrum dögum að vetrarlagi. Hljóðvistin lýtur að sambýli ólíkra tegunda ferðamennsku.

7. ... Fagnað er markmiðum um vöktun breytinga Framengja því þótt SUNN hafi staðið að endurheimtinni í samvinnu við landeigendur er ljóst að samtökin hafa ekki bolmagn til rannsókna á áhrifum endurheimtarinnar. SUNN stefna þó að því að gefa út fræðsluefni og ætti að vera óhætt að greina frá því í verndaráætluninni. Vonandi tekst að gefa það út á árinu 2010.

8. Samkvæmt lögum á að vera samráð við umhverfisverndarsamtök um gerð verndaráætlunarinnar. SUNN mæla með því að það samráð verði aukið og látið ná til ferða- og útivistarfélaga."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband