22.5.2009 | 14:53
Námsstefna um jafnréttisfræðslu
Námsstefna um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum verður þriðjudaginn 26. maí kl. 13:30 í Salnum í Kópavogi. Í auglýsingu frá verkefninu segir: Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu, Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Hafnarfjarðarbæjar, Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar, Kópavogsbæjar og Mosfellsbæjar. Menntamálaráðuneytið styður verkefnið og leggur framkvæmd þess lið ásamt Jafnréttisráði og fjölmörgum styrktaraðilum. Þátttökusveitarfélögin fimm tilnefndu öll einn leikskóla og einn grunnskóla til að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála skólaárið 20082009. Á námsstefnunni kynna fulltrúar skólanna verkefni sem nýst geta til jafnréttisstarfs í skólum. Nánari upplýsingar um þróunarverkefnið má finna á slóðinni www.jafnrettiiskolum.is
Dagskrá - uppfærð
13:30 - 13:45 Tónlistaratriði frá leikskólanum Hörðuvöllum í Hafnarfirði
13:45 - 14:00 Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra setur námsstefnuna
14:00 - 14:15 Louise Windfeldt, höfundur barnabókarinnar Den dag da Rikke var Rasmus og Den dag da Frederik var Frida kynnir bókina og tilurð hennar
14:15 - 15:10 Kynningar á jafnréttisstarfi í leikskólum
15:10 - 15:40 Kaffihlé / kynningarbásar og veggspjöld
15:40 - 16:30 Kynningar á jafnréttisstarfi í grunnskólum
16:30 - 16:45 Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor fer yfir niðurstöður faghóps verkefnisins
16:45 - 17:00 Kristín Ástgeirsdóttir slítur námsstefnunni og veitir viðurkenningar fyrir teikni- og ljóðasamkeppni Jafnréttisstofu og Eymundsson
Námsstefnan er kjörinn vettvangur fyrir alla þá sem vilja fræðast um jafnrétti í skólastarfi. Hún er öllum opin og eru skólastjórnendur, kennarar, foreldrar, fulltrúar fræðslunefnda, fulltrúar jafnréttisnefnda, starfsmenn skólaskrifstofa, sveitarstjórnarmenn og stjórnmálamenn sérstaklega hvattir til að mæta. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til Arnfríðar Aðalsteinsdóttur verkefnisstjóra á Jafnréttisstofu sem einnig veitir frekari upplýsingar arnfridur@jafnretti.is / sími 460-6200.
Athugasemdir
Vel til fundið að halda svona námsstefnu um jafnrétti verkafólks gagnvart yfirstéttinni og efri-millistéttinni.
Jóhannes Ragnarsson, 23.5.2009 kl. 10:20
Takk fyrir innlitið, Jóhannes, segðu mér endilega meira af þessari ráðstefnu sem þú ætlar að halda um jafnrétti stétta.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 23.5.2009 kl. 11:17
Komdu sæll Ingólfur Ásgeir.
Það er ein grundvallrspurning varðandi jafnrétti allra, þar með talið grundvallarréttinn og þar með grundvallarmannréttindi til lífsins. Þessi spurning er lögð hér fram í fyllstu vinsemd: Er ekki lögð áhersla á það, á viðkomandi námsstefnu, að jafnréttið undanskilji engan, þar með talið hið ófædda barn?
Reykjavík 23. maí 2009,
Með bestu kveðjum, og óskum um Guðs blessun,
Ólafur Þórisson, guðfræðikandídat.
Ólafur Þórisson, 23.5.2009 kl. 13:20
Sæll Ólafur og þakka þér innlitið.
Ráðstefnan er um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum en nær ekki sérstaklega til fræðslu fyrir ófædd börn. Eflaust er ekki síður þörf á því að hugsa til hvort foreldrar, eldri systkini, afar og ömmur mismuna ófæddum börnum, ef þau á annað borð vita kyngervi þess, t.d. með því að kaupa ungbarnaföt í "stelpulitum" og "strákalitum". Eða spili "stráka-" eða "stelputónlist" fyrir þau.
Sumir foreldrar óska því sérstaklega eftir því að fá alls ekki að vita kyn eða hugsanlega fötlun hins ófædda barns í þeim anda að öll börn séu jafnvelkomin í heiminn.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 23.5.2009 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.