Af hverju ætti Ísland að fá að menga meira en aðrir?

Ég fékk pistilinn Sögufölsun Sivjar sendan frá Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann birtist einnig í Smugunni: http://www.smugan.is/pistlar/penninn/arni-finnsson/nr/1550. Og ég ætla að birta hann hér að mestu:

Siv Friðleifsdóttir er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem ber titilinn „hagsmuni Íslands í loftslagsmálum." Samkvæmt flutningsmönnum er það markmiðið að Ísland fái frekari undanþágur fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju í samningaviðræðum um framhald Kyoto-bókunarinnar sem fram fara í Kaupmannahöfn í desember. Samtals nemur aukning í losunarheimildum Íslands nær 60% á tímabilinu 2008-2012 miðað við 1990. Næst þar á eftir kemur Ástralía með 8% aukningu. Nú skal sækja mengunarheimildir fyrir stóriðju langt umfram þær sem Ísland aflaði sér þegar endanlega var gengið frá Kyoto-bókuninni í Marakech haustið 2001.

Raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur með umsögn sinni til umhverfisnefndar Alþingis lagst gegn því að tillagan verði samþykkt. Það hafa einnig Náttúruverndarsamtök Íslands gert sem og ungliðar Hjálparstarfs Kirkjunar.

Þetta leiðindamál  er nú orðið eitt helsta keppikefli Sjálfstæðisflokksins og þingflokksformanns Framsóknarflokksins, Sivjar Friðleifsdóttur.

Í greinargerð vísar Siv Friðleifsdóttir og aðrir flutningsmenn í Bali-vegvísinn og benda á að „samkvæmt honum er ætlunin að ljúka gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á þingi samningsaðila í Kaupmannahöfn í desember 2009."

En umhverfisráðherrann fyrrverandi skautar yfir mikilvægasta atriði þeirra pólitísku skuldbindinga sem Bali-vegvísirinn felur í sér. Nefnilega, að á fundinum í Bali lýstu iðnríkin (Ísland þar á meðal) yfir vilja sínum til að ná samkomulagi í Kaupmannahöfn sem felur í sér samdrátt í útstreymi iðnríkjanna um 25-40% fyrir árið 2020 en viðmiðunarárið er áfram 1990. Jafnframt, að samningar í Kaupmannahöfn skuli miða að því að tryggja að meðalhitnun andrúmslofts Jarðar haldist innan við 2 gráður á Celsíus miðað við upphaf iðnbyltingar.

Enn síður minnast flutningsmenn tillögunar á að útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur aukist um 24% frá 1990, eða 14% umfram heimildir, og við blasir við að Ísland mun ekki geta staðið við skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni þrátt fyrir rúmar heimildir og undanþágur.
 
Raunar heldur Sjálfstæðisflokkurinn því fram í landsfundarályktun að Ísland sé „eitt fárra ríkja sem stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-samkomulaginu ..."

Ætli umheimurinn sé ekki orðin eylítið þreyttur á þessum sjálfumglöðu íslensku ráðamönnum. Pólitíkusum sem geta ekki einu sinni farið rétt með grundvallaratriði Bali-vegvíssins. Kröfugerð sem byggir á fölskum málflutningi er Íslandi ekki til framdráttar.

Svo mörg voru þau orð Árna - og ég spyr: Af hverju ætti Ísland að fá að losa gróðurhúsalofttegundir meira en aðrir? Til að reisa fleiri álver - sem þurfa orku úr virkjunum sem valda náttúruspjöllum? Ísland fékk rausnarlegar undanþágur í Kýótó 2008-2012, meðal annars vegna þess að mestöll húshitun er með jarðvarma. En við getum ekki sömu undanþáguna tvívegis. Fyrir utan hneykslið í sambandi við íslenska ákvæðið til að hér væri hægt að koma upp álverum. Óska þess að við taki Alþingi sem samþykkir ekki fleiri álver eða meiri náttúruspjöll.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 15,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Ég held að rök þeirra sem eru fylgjandi þessari tillögu séu ekkert leyndarmál: Orkufrek iðnframleiðsla á Íslandi leiðir til nettólækkunar á útblæstri koltvísýrings í heiminum miðað við að hún færi annars fram annars staðar. Ergo, leyfið okkur að menga mikið svo þið þurfið ekki að menga mjög mikið.

Svo er annað mál hversu sannfærandi þessi rök eru, sbr. umfjöllun Raunvísindadeildar HÍ, en þau eru ekki endilega prima facie absúrd.

Páll Jónsson, 8.4.2009 kl. 10:21

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlit og athugasemd, Páll. Mér finnst umsögn raunvísindadeildar sýna best hversu vanhugsuð þingsályktunartillagan er - nema það sé markmiðið að valda deilum um mál sem er komið alls konar farvegi aðra, svo sem alþjóðlega verslun með kvóta.

Eitt af því reyndar sem loftslagsorðræðan hefur í för með sér er minni áhersla í orðræðunni á aðra mengun. Þegar farið var af stað með hugmyndir um álþynnuverksmiðju við Akureyri fyrir fáum árum voru það helstu rökin með henni að hún ylli ekki miklu útstreymi gróðurhúsalofttegunda - en minna fór fyrir umræðum um aðrar mögulegar afleiðingar. Og er spurning hvort á ekki að nota orðið mengun um alla mengun, líka með gróðurhúsalofttegundir.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 8.4.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband