9.1.2009 | 08:52
Hreppaflutningar aldraðra og skerðing þjónustu við geðsjúka
Laugardaginn 9. janúar verður mótmælaganga frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorg á Akureyri kl 15.00. Við mótmælum hreppaflutningum á eldri kynslóðinni, lokun dagdeildar geðdeildar, uppsögnum ljósmæðra og skerðingu á þjónustu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
Og svo á að setja heilbrigðisstofnanir annars staðar á Norðurlandi undir þá stjórn sem hagar sér svona, sbr. nýjasta útspil frjálshyggjuráðherrans Guðlaugs Þórs Þórðarson. Um sameiningu heilbrigðisstofnana er margt að segja og örugglega á eitthvað af því rétt á sér. Þannig vitnar forstöðumaður rekstrar Heilbrigðisstofnunar Austurlands um mikinn sparnað af sameiningu þar fyrir ellefu árum. Hér á Norðurlandi hefur heilbrigðisþjónusta í Þingeyjarsýslu með miðstöð á Húsavík verið sameinuð í áföngum sem hafa tekið marga áratugi. Þar eru heilsugæsla og spítali undir einni stjórn og gefst vel. Í þessari stóru sameiningu á hins vegar ekki að sameina sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna sem væri rökrétt, meðal annars þar sem þjónustu heilsugæslustöðvar utan dagvinnutíma fer fram á sjúkrahúsinu. Og sérfræðilæknisþjónustuna á ekki heldur að sameina, hún skal fara fram úti í bæ. Væri slík sameining ekki vænlegri til bæði betri heilsu og sparnaðar? Og hvað um sérfræðibáknið á höfuðborgarsvæðinu? Það sem er á móti þessari sameiningu hér á Norðurlandi (og annars staðar á landinu), og hefur örugglega verið á móti henni líka á Austurlandi þar sem ég þekki minna til, er að stjórnun þjónustunnar færist fjær fólkinu í héraði, í þessu tilviki til stjórnenda sem eru nákvæmlega núna að skerða þjónustu við aldraða, geðsjúka og ungbörn. Hér á t.d. núna að færa deild aldraðra frá Akureyri fram í Eyjafjarðarsveit í Kristnes, sem er innan sömu stofnunar. Getum við búist við sambærilegum tilflutningum við sameininguna? Við þetta má bæta því að margvísleg samvinna er milli heilbrigðisstofnana á Norðurlandi - en verður hún meiri eða betri eða skilvirkari við sameiningu undir einni stjórn á Akureyri?
Markmið frjálshyggjuráðherrans er hvorki sparnaður né betri heilsa. Honum er kannski ekki sama um þetta, ég veit ekki hvernig hann er innréttaður sem persóna en ef þetta væru markmiðin væri sérfræðibáknið tekið fyrir. Nei, markmið Guðlaugs Þórs er einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar.
Á Ráðhústorgsfundinum á laugardaginn hér á Akureyri mun Rósa Eggertsdóttir taka til máls og í lokin munum við takast í hendur og hugleiða réttlæti. (Nánari upplýsingar um gönguna: Guðrún Þórs, s. 663 2848.)
Athugasemdir
Verð með ykkur í anda.
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.1.2009 kl. 08:57
Tek undir þetta og hef ábyggilega gott af því að ganga smá á laugardaginn!
Tryggvi R. Jónsson 9.1.2009 kl. 10:57
Baráttukveðjur frá Hafnarfirði.
Markmiðið með þessum breytingum er einkavæðing undir yfirskini hagræðingar.
Hér er verið smygla kröftum kapítalismans inn í heilbrigðiskerfið- sömu kröftum og beitt var á efnahagskerfi þjóðarinnar og árangurinn verður sá sami.
Þráinn Kristinsson 9.1.2009 kl. 11:09
Katrín Anna, Tryggvi Rúnar, Þráinn: Takk fyrir innlitið og ábendingar þínar, Þráinn.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.1.2009 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.