2.10.2008 | 10:11
Vinnufundur um verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð
Undanfarin misseri hef ég tek þátt í því áhugaverða starfi sem er uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs, sl. ár í svæðisráði norðursvæðis og þar á undan í nefnd sem undirbjó lög um þjóðgarðinn. Á morgun verður vinnufundur stjórnar og svæðisráða, haldinn í Mývatnssveit, þar sem undirbúnar verða verndaráætlanir um þjóðgarðinn. Verndaráætlun heitir á ensku management plan og er í rauninni framkvæmda- og skipulagsáætlun. Þar verður tekið fram hvaða verndarstig er á hverjum hluta þjóðgarðsins.
Ég vona að það takist á vinnufundinum að móta heildstæðar hugmyndir um uppbyggingu gönguleiða í þjóðgarðinum. Ég á mér þann draum að það verði kerfi leiða þannig að hægt sé að ganga báðum megin Jökulsár á Fjöllum og að það verði hringleið um jökulinn og svo verði gönguleiðir til sjávar fyrir sunnan jökul og í Lóni og ef til vill víðar fyrir suðaustan jökulinn. En út frá þessum leiðum þurfa líka að vera gönguleiðir niður í byggð, t.d. frá Dettifossi til Mývatnssveitar og frá Herðubreiðarlindum og Öskju niður í Bárðardal og niður í Mývatnssveit. Margar af þessum leiðum eru til staðar, en það þarf að setja þær fram sem heildstætt kerfi sem getur orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, erlenda sem innlenda, og finna nýjar leiðir og enn fjölbreyttari.
Ég býst einnig við því að rætt verði um hvers konar vegir og bílslóðir skuli vera í þjóðgarðinum því að áætlun um þá þarf auðvitað að vera í slíku plaggi sem verndaráætlunin verður. Miklu skiptir að vegir falli sem best að landinu en það á því miður ekki við um þann veg sem nefndur er Dettifossvegur og á að liggja að hluta til um Vatnajökulsþjóðgarð, bæði þann hluta sem áður tilheyrði þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum, svo og frá Dettifossi upp á þjóðveg um land sem þyrfti að tilheyra þjóðgarðinum þegar fram líða stundir. (Sjá fyrri blogg - og annað blogg.)
Athugasemdir
Sæll Ingólfur. Vonandi gekk fundurinn vel. Áhugavert að frétta af framvindu mála fyrir þjóðgarðinn. En segðu mér: Er einhver heimasíða fyrir garðinn? Ég finn hana ekki.
Kær kveðja frá Flórída
Elva Guðmundsdóttir, 4.10.2008 kl. 20:54
Sæl Elva, þetta var fínn fundur en heimasíðan sem á að mig minnir að vera vatnajokulsthjodgardur.is er ekki komin í loftið. Kveðjur til Flórída
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 6.10.2008 kl. 12:51
Mér finnst ég alltaf eiga töluvert í Vatnajökli enda farið um hann marga góða og eftirminnilega jeppatúra
Ísdrottningin, 6.10.2008 kl. 22:52
Takk fyrir innlit, ísdrottning góð; það er náttúrlega viðeigandi að ísdrottning sé drottning á Vatnajökli
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 7.10.2008 kl. 17:02
Sæll, æji það er nú leiðinlegt að síðan sé ekki orðin virk en það hlýtur að hafast á endanum. Nú skulum við bara vona að menn missi sig ekki í kreppunni og virki allt heila klabbið
Elva Guðmundsdóttir, 8.10.2008 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.