21.8.2008 | 18:25
Sóknargjöld til lífsskoðunarfélaga
Eitt af þeim mörgu málum sem fór fram hjá mér í störfum Alþingis í vetur er tillaga Kristjáns Þórs Júlíussonar til þingsályktunar á þingskjali 582 (346. mál) þar sem hann leggur til að við sem erum utan trúfélaga höfum aukið val um hvert sóknargjöld í okkar nafni renna. Sóknargjöld eru þannig greidd að ríkið leggur til lága upphæð í nafni allra einstaklinga sem voru 16 ára eða eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári, eins og það er orðað í lögum nr 91/1987. Gjaldið var tæpar 9500 kr. á árinu 2007 og breytist (hækkar) árlega skv. flóknu útreikningskerfi, og greiðir hana til trúfélags viðkomandi skv. þjóðskrá.
Sóknargjald í nafni okkar sem tilheyrum ekki trúfélögum rennur til Háskóla Íslands. Sú upphæð var orðin margir tugir milljóna síðasta þegar ég vissi og er varið til margvíslegra þarfra mála innan Háskólans. Við sem greiðum þetta gjald höfum litið eins vel og við getum eftir því að þessir fjármunir renni ekki til guðfræðideildar, eins og margir óttuðust, eða almennrar starfsemi þeirra stofnana sem hún ræður á einhvern hátt yfir og höfum notið fulltingis Umboðsmanns Alþingis í þeim efnum. Gjaldstofn þessi mun vera orðinn svo hár að það gæti skaðað Háskólann að fella með öllu niður án þess að til komi jafnhá upphæð.
Tillaga Kristjáns er að einstaklingar utan trúfélaga hafi aukið val um það hvert sóknargjöld þeirra renna og Alþingi feli kirkjumálaráðherra að endurskoða ákvæði laga um sóknargjöld. Kristján leggur svo til í greinargerð sinni að einstaklingum sem standa utan trúfélaga geti verið gefinn kostur á að velja annan háskóla en þann sem tilgreindur er í núgildandi lögum. Jafnframt er mælst til að kannað verði hvort einstaklingar utan trúfélaga geti óskað eftir því að gjöld þeirra renni til ákveðinna líknarfélaga.
Auðvitað eigum við sem ekki tilheyrum trúfélagi að fá að ráða því hvernig sóknargjöldum okkar er varið, eins og þeir sem tilheyra kirkjudeildum og taka þátt í safnaðarstarfi gera. Ég er reyndar ekki sérlega hlynntur því að gjaldstofn af þessum toga fjármagni háskólastarf og sé ekki góð rök til þess heldur vil ég að gjaldið geti runnið til lífsskoðunarfélaga á borð við Siðmennt eða annarra félaga sem vinna á grunni manngildishugmynda, svo sem Amnesty eða Rauða Krossins. Þá sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að náttúru- og umhverfisverndarsamtök ættu að eiga tilkall til þess að geta kallast lífsskoðunarfélög og geti sótt um að vera á skrá sem hægt er að merkja við á skattframtalinu. Jafnframt tel ég hæpið að trúfélög sem mismuna fólki eftir kynhneigð, ef einhver eru, fái fjármuni úr ríkissjóði í nafni sóknargjalda.
Þegar á allt er litið er tillaga Kristjáns hins vegar mjög góð og jafnvel líkleg til lausnar á leiðinlegu máli þar sem borgurum landsins hefur verið mismunað með lögum. Ég fæ ekki séð að tillagan hafi verið rædd í þinginu og ég hvet hann sterklega til að taka málið upp að nýju með þeirri breytingu að hugtakið líknarfélög verði lífsskoðunarfélög.
Athugasemdir
Ég skrifaði stuttlega um þessa tillögu í vetur. Þó að ég telji hana tvímælalaust ti bóta, er hún alls ekki eðlilegasta eða rökréttasta breytingin.
Krafan hlýtur að vera að þeir sem tilheyra engu trúfélagi greiði ekki sóknargjald. Með öðrum orðum að þeir greiði 9500 krónum (ef það er rétta talan) minna, eða fái 9500 krónur endugreitt frá hinu opinbera.
Eðlilegast væri þó líklega að hætta þessarri innheimtu og láta trúfélög annast slíkt sjálf. Einstaklingum bærist einfaldlega gíróseðill eða annað slíkt frá viðkomandi sókn eða trúfélagi.
G. Tómas Gunnarsson, 21.8.2008 kl. 19:00
Þetta er athyglisverð tillaga og alveg sjálfsagt að hún fái brautargengi. Að auki finnst mér að félög eins og Siðmennt öðlist stöðu trúfélags gagnvart lögum. Það er nú svo að ýmisr fræðimenn vilja setja slík lífsskoðunarfélög undir sama hatt og trúfélög. Það er annað mál. Ég vil reyndar ekki að skattpeningar renni til einkafyrirtækja eins og t.d. HR. Einkafyrirtæki eiga að vera nákvæmlega það og lifa án skattpeninga almennings. Ég vil hins vegar að það sé gengið enn lengra og að almenningur fái að ráð miklu meira um það í hvað skattpeningarnir fara. Ég vil t.d. alls ekki að mínir skattpeningar fari í umsókn íslands til öryggiráðs SÞ. Ég átta mig mjög vel á því að þetta er flókið og erfitt en ég held að það séu ýmis ráð til þess að gefa almenningi færi á að ráð því betur sjálft í hvað skattpeningar fari.
Grétar Einarsson
Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 21.8.2008 kl. 20:36
Takk fyrir innlegg í umræðuna, Tómas og Grétar.
Tómas: Ertu til í að senda mér slóð á innleggið þitt frá því í vetur.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.8.2008 kl. 22:17
Háskólinn er gott málefni, svo fremi sem aurarnir fari ekki í greinar, sem ekki falla undir vísindi. (guðfræði). Tæplega getum við ráðið um það hvort þetta fer til líknarfélaga, nema að þau séu opinber stofnun að einhverju eða öllu leyti. æEg gæti hugsað mér að láta þetta renna til spítaladeilda eða sjúkrastofnana, sem hljóta framlög frá ríki á öðrum grunni...nú eða vegagerðarinnar ef því er að skipta.
Það sem ég sé gott við þetta er að þeir sem eru í þjóðkirkjunni óumbeðið og eru hlutlausir í trúmálum, fái hvatningu til að fara niður í þjóðskrá til að breyta skráningunni sinni.
Ég er grjótharður trúleysingi og hef aldrei fundið óvild eða mætt andmælum hjá þeim, sem ég umgengst ffrá degi til dags. Raunar eru flestir sammála eða allavega samsinna rökum mínum gegn hírakíi kirkjunnar. Fólk hefur aðallega áhyggjur af því hvernig það verður grafið og hvernig það giftir sig.
Ég held að langflestum Íslendingum sé nokk sama um trú eða trúmál. Skynsamt og jarðbundið fólk, sem treystir sínum innbyggða alturimsma.
Maður fær þó annars aðrar hugmyndir um þetta hér á blogginu eða við áhorf á Omega. Ég get huggað fólk með því að hér erá ferðinni veruleikafirrtur minnihluti, sem er viti sínu fjær af kvíða og ótta við dauðann og væntanlegt eftirlíf, þótt það ætti í raun að vera þau einu, sem engu ættu að kvíða, samkvæmt ímyndunarheimsmynd þeirra.
Viti sín fjær, segi ég í þeirri meiningu að hugur þeirra er hvort tveggja í afglöpum fortíðar og við endalok lífskeiðs þeirra en ekki hér og nú, þar sem lífið á sér óhjákvæmilega stað.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.8.2008 kl. 23:34
Hér má finna það sem ég bloggaði um tillögu Kristjáns í vetur.
Ég hef reyndar bloggað áður í svipuðum dúr, http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/25686
og
http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/37888
G. Tómas Gunnarsson, 22.8.2008 kl. 00:31
Ég ætla nú ekki að fara mikið út í trúmálaumræðu hérna á þessu bloggi enda að nokkru óskilt upprunalegu blogginu. Ég er sjálfur mjög virkur í Þjóðkirkjunni og sé ekkert athugavert við það fyrirkomulag sem nú er. Ég sé heldur ekkert athugavert við að breita því og er frekar farinn að hallast að þeirri skoðun að slíkt mundi styrkja kirkjuna en um leið veikja ýmsa félagslega þætti samfélagsins sérstaklega á landsbyggðinni. Það er oft þannig að þeir sem hæst láta gegn þjóðkirkjunni eru búsettir í þéttbýli þar sem kirkjan er ekki eins snar þáttur í lífi fólks og víða í dreifbýli og á smærri þéttbýlisstöðum. Það þarf að hugsa þetta út frá mörgum þáttum. En ég hef ekki miklar áhyggjur af kirkjunni þó af aðskilnaði kæmi. Ég ætla ekki frekar út í þessa sálma hér. Hins vegar langar mig aðeins að gera smá athugasemd við þessa málsgrein Jóns Steinars;"Ég held að langflestum Íslendingum sé nokk sama um trú eða trúmál. Skynsamt og jarðbundið fólk, sem treystir sínum innbyggða alturimsma." Þessu er ég algjörlega ósammála. Ég held þvert á móti að íslendingar séu lang flestir trúað fólk (sem betur fer eru þeir sem fylla öfgahópa, hvort heldur er í trú eða trúleysi, mjög fáir, en það heyrist oft mest í slíkum hópum, því miður, því þeir skekkja oft hina raunverulegu mynd og eyðileggja fyrir þeim okkar sem hófsamari eru). Það má nefnilega ekki rugla saman sýnilegri eða virkri trú, t.d. kirkjusókn, og ósýnilegri trúarþörf eða trúarjátun fólks. Ég þekki marga mjög trúaða einstaklinga, flesta kristna, sem ekki fara í kirkju nema ör sjaldan og sumir aldrei. Trúin skiptir þessa einstaklinga hins vegar mjög miklu máli og trúarlíf þeirra er afar frjótt og öflugt þó það sé ekki sýnilegt út á við. Íslendingum stendur alveg örugglega ekki á sama um trúmál. Það sýnir sig í virkri þátttöku í trúarumræðu bæði hér á netinu sem og í fjölmiðlum. Trú og trúariðkun íslendinga er að mörgu leiti ólík því sem er víða erlendis. Við höfum alla tíð haldið í ýmiskonar trú á álfa og huldufólk og drauga og annað þvíumlíkt og eftir kristnitöku blótuðu margir á laun og sama var uppi á teningnum eftir siðbótina varðandi kaþólskuna. Allt fór þetta leint og ljóst fram. Trúarheimur okkar íslendinga er því mjög blandaður. Við höfum heldur ekki haldið okkur fast við kirkjusókn eins og þekkist svo víða erlendis og kemur þar margt til. Fleira ætla ég nú ekki að segja um þetta mál hér á þessu bloggi.
Grétar Einarsson
Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 22.8.2008 kl. 02:12
Þakka ykkur fyrir innleggin í umræðuna, Jón Steinar, Tómas og Grétar.
Grétar: Þú segir: "Ég sé heldur ekkert athugavert við að breita því og er frekar farinn að hallast að þeirri skoðun að slíkt mundi styrkja kirkjuna en um leið veikja ýmsa félagslega þætti samfélagsins sérstaklega á landsbyggðinni." Það er einmitt hið félagslega og menningarlega hlutverk kirkju og sóknarpresta í dreifbýli sem fær mig til að staldra við áður en ég legg til að sóknargjöldin séu færð út úr skattkerfinu. Það er líka beinlínis hluti af sjálfsmynd sveita að þar sé kirkja og henni þjóni prestur, en það eru líka oft gerðar kröfur þeirra til þeirra að þeir sinni veraldlegum viðfangsefnum er varða heill samfélagsins, ekki bara trúarþörfum. Meðal annars þess vegna fækkar kirkjan sjálf slíkum embættum, telur þeirra meiri þörf í dreifbýlinu.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.8.2008 kl. 06:55
Heil og sæll Ingólfur. Gleymdi að setja inn í tekstan hér að ofan að ég tel umræðuna um aðskilnað ríkis og kirkju vera landsbyggðarmál m.a. eins og þú bendir svo réttilega á hér að ofan. Þetta er mál sem þarf að ræða í mjög víðu samhengi. Ekki held ég að kirkjan sé fyrir neinum en allir hafa aðgang að henni og hún kemur að lífi lang flestra einhverntíma.
Grétar Einarsson
Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 22.8.2008 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.