Landsskipulag og lýðræði

Ég las í 24 stundum í morgun að varaformaður umhverfisnefndar Alþingis kærði sig ekki um ákvæði í frumvarpi til laga um skipulag - ákvæði um landsskipulag.

En hvað er landsskipulag? Í frumvarpinu kemur fram að umhverfisráðherra eigi að leggja fram á Alþingi sem tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsáætlun. Hún skal marka stefnu stjórnvalda í skipulagsmálum og fjalla um mál sem varða almannahagsmuni. Landsskipulagsáætlun er eftir þörfum ætlað að samræma stefnu stjórnvalda í ólíkum málaflokkum sem snerta skipulagsgerð sveitarfélaga og í henni er stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun útfærð. Sérstaklega er tekið fram að mikilvægt sé að landsskipulagsáætlun sé kynnt opinberlega enda er í henni fjallað um almannahagsmuni og fá þannig fram sjónarmið íbúa og hagsmunaaðila. Mæla á fyrir um að tillaga að landsskipulagsáætlun skuli auglýst opinberlega til að tryggja að hún sé aðgengileg öllum og að almenningi verði gefið tækifæri til að koma með athugasemdir sínar við tillöguna innan átta vikna frá því að hún var birt. Jafnframt er lagt til að tillagan sé send til umsagnar sveitarfélaga og hagsmunasamtaka, sbr. 3. mgr.

Ég sé því ekki beinlínis hvað á að vera á móti slíkri áætlun. Þvert á móti, ég sé fátt mæla gegn henni af sjónarhóli almennings og langtímahagsmuna. Og hagsmunir almennings er miklu oftar langtíma- en skammtímahagsmunir. Meðan hagsmunir verktaka og stjórnmálamanna kunna að vera skammtímahagsmunir og ættu ekki að sitja í fyrirrúmi. Ég hvet Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, til að láta ekki undan með landsskipulagið, og aðra stjórnmálamenn og -flokka til að styðja þessa mikilvægu lagabreytingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband