Heimili og gallerí

Einn af skemmtilegustu viðburðum hversdagsins á Akureyri er sýningaropnun í myndlistargalleríinu Kunstraum Wohnraum. Það er til húsa á heimili Hlyns Hallssonar, ofurbloggara, og Kristínar Kjartansdóttur í Ásabyggð 2 á Akureyri. Kunstraum Wohnraum hefur verið starfrækt frá árinu 1994, fyrst í Hannover í Þýskalandi og nú á Akureyri.

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu, sem birt er á blogginu hans Hlyns, verður næst opnað kl. 11 á sunnudaginn kemur, þ.e. 27. júlí, en það hefur verið regla svo lengi sem ég man eftir galleríinu að opnun er kl. 11-13 á sunnudögum, sem er alveg sérlega hentugur tími til þess arna, hvort heldur er stórhríð eða sólskin, og gerir venjulegan sunnudag að hátíðisdegi við að skoða myndlist og ræða við aðra gesti yfir kaffibolla og veitingum við eldhúsborðið hjá þeim Hlyni og Kristínu.

Listamaðurinn sem nú mun sýna heitir Alexander Steig. Verkið er byggt á gjörningi og myndbandsinnsetningu og hefur þegar verið sýnt í Musée d´Art Moderne et Contemporain de Strassbourg, Dartington Gallery í Totnes á Bretlandi og í MoNA í Poznan í Póllandi. Nánari upplýsingar um verk Alexanders Steig er að finna á http://www.alexandersteig.de. Sýning Alexanders Steig stendur til 13. september 2008 og er opin eftir samkomulagi og hægt er að hringja í síma 462 3744.

Kunstraum Wohnraum er að finna á: http://www.hallsson.de/projects/kunstraum_wohnraum/kunstraum_wohnraum.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

já þetta er spennandi gallerí, ég hef verið svo lánsöm að sýna í þessu galleríi þegar það var til húsa í hannover. svo er hlynur og kittý bara alveg frábær !

kær kveðja

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 25.7.2008 kl. 10:08

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir kveðjuna frá Danmörku, Steina. Gaman að læra gælunafnið hennar Kristínar

Svo er víst líka sýning hans Steig í Gallerí Boxi á morgun, laugardag, kl. 4.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 25.7.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband