23.7.2008 | 17:31
Vegir og náttúruvernd í þremur landshlutum
Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar, þeim hluta sem birtur er í Mogganum, kemur ekki fram að þessir vegir hafa fengið falleinkunn af náttúruverndarástæðum. Nú man ég ekki hver gaf hverjum hvaða álit hvenær um vegina um Teigsskóg eða Gjábakkaveg - en veit að þeir vegir eru á leið fyrir dómstóla vegna óánægju með úrskurði umhverfisráðherra um þessa vegi. Og veit að þeir eru alvarleg náttúruspjöll þegar litið er lengri tíma sem skemmri. Og Þingvellir og Þingvallavatn á heimsminjaskrá í húfi og merkilegur birkiskógur á Vestfjörðum sem tengist Breiðafirði en líklega fellur hann ekki undir sérstök náttúruverndarlög um fjörðinn. -- [Viðbót 24. júlí: Ég fletti þessu upp í morgun hjá Skipulagsstofnun og þar sést að vegurinn um Teigsskóg fékk falleinkunn og umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, Jónína Bjartmarz, sneri úrskurðinum við og núverandi umhverfisráðherra hefur ekki treyst sér til þess að taka málið upp. Gjábakkavegurinn hlaut ekki falleinkunn Skipulagsstofnunar. Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra. Sama Jónína kvað upp úrskurð tveimur dögum fyrir Alþingiskosningar og staðfesti mat Skipulagsstofnunar að viðbættu einu skilyrði.]
Málið um Dettifossveg þekki ég betur: Skipulagsstofnun gaf þeirri veglínu sem Vegagerðin vill nota falleinkunn í áliti sínu á mati á umhverfisáhrifum, en sveitarfélagið Skútustaðahreppur gaf engu að síður út framkvæmdaleyfi sem úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál taldi standast þegar framkvæmdaleyfið var kært. Sá úrskurður breytir samt ekki álitinu og hann breytir því ekki heldur að til er önnur veglína sem má nota án þess að áhrif á náttúru þyki umtalsverð. Enda kom það fram í máli umdæmisstjóra Vegagerðarinnar í hádegisfréttum útvarps (ruv.is) í dag að það eru vegtækni og verð sem ráða, ekki náttúruvernd. Sambærileg kostnaðaratriði gilda að einhverju leyti um vegina fyrir vestan og sunnan.
Ég geri ráð fyrir að Vegagerðin sem stofnun og starfsfólk hennar sé í vandræðum með þessi mál þar sem auðvitað veit stofnunin hvað er í húfi, en hún getur tæpast haft pólitískt frumkvæði að því að fara aðrar leiðir. Er nokkur furða þótt Landvernd beini orðum sínum til samgönguráðherra sem hefur pólitískt vald? Nema í tilviki Dettifossvegar þar sem önnur veglína, nálægt núverandi slóð, talsvert langt vestan við Jökulsá, hefur ekki hlotið falleinkunn Skipulagsstofnunar. Sú leið er 10 km styttri milli Dettifoss og Mývatnssveitar.
Ef náttúruvernd fengi að ráða verður enginn af þessum þremur vegum lagður heldur fundnar aðrar leiðir, sem kannski eru allar betri í raun og veru, en dýrari. Allra nýjustu fréttir af árekstri samgöngumála við náttúruvernd að nú hefur sæsímafyrirtæki sótt um að fá að fara inn á friðlýsta svæðið við Surtsey, nýkomna á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er við erfiðleika að glíma í náttúruvernd.
Vegagerðin hagar sér ekki eins og ríki í ríkinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ingólfur
Þessi setning í yfirlýsingu Vegagerðarinnar fer mjög í mínar fínustu!
"Má til dæmis varðandi Dettifossveg nefna að árið 2001 var stofnaður samráðshópur sem í áttu sæti fulltrúar sveitarfélaga, Náttúruverndar ríkisins, Ferðamálaráðs og Samtaka ferðaþjónustunnar auk Vegagerðarinnar sem komst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu síðla árs 2002 að legga veginn vestan Jökulsár."
Þessi samráðshópur hittist tvisvar. Fulltrúi Öxarfjarðarhrepps skrifaði undir samkomulagið með fyrirvara, fulltrúi Kelduneshrepps var fluttur úr hreppnum og hreppurinn mótmælti undirskrift hans flótlega eftir hana. Sveitarstjórnir beggja þessara hreppa lýstu yfir að vilji þeirra væri að vegurinn yrði lagður austan ár en ekki vestan. Fulltrúi náttúruverndaryfirvalda gerði grein fyrir sömu skoðun í fundargerð og að vegur um þjóðgarðinn yrði ferðamannavegur sambærilegur vegi á Þingvöllum. Engu að síður heldur Vegagerðinn og aðrir áfram að tönglast á að allir hafi verið sammála um að vegurinn yrði vestan ár. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Það mælir allt með því að heilsárshraðbrautin væri austan ár en ferðamannavegur vestan ár og um þjóðveginn.
Sigrún Helgadóttir 23.7.2008 kl. 18:11
Sæl Sigrún og þakka þér fyrir þessar upplýsingar.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.7.2008 kl. 11:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.