29.6.2008 | 11:42
Kynjahalli í ísbjarnarnefndinni
Athygli mína vakti um daginn þegar umhverfisráðherra skipaði fjóra karla í nefnd til að semja viðbragðsáætlun vegna yfirvofandi ísbjarnarheimsókna. Mikið lá á, því að undir venjulegum kringumstæðum hefur núverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, verið mjög ströng gagnvart þeim sem tilnefna í nefndir á vegum ráðuneytisins að tilnefna karl og konu svo að ráðuneytið geti kynjajafnað, og ef ekki tilnefndir einstaklingar af báðum kynjum að rökstyðja hvers vegna ekki. Umhverfisráðuneytið mun líka að mér skilst vera eitt þeirra ráðuneyta þar sem kynjahlutfall í nefndum er minnst konum í óhag enda voru forverar Þórunnar á svipaðri línu með tilnefningarnar.
Hver er svo tilgangur þess að tilnefna fólk af báðum kynjum? Hann er margvíslegur, bæði varðar hann aðgang karla og kvenna að völdum og áhrifum, en varðar líka mikilvægi þess að koma ólíkum sjónarmiðum að. Karlarnir í nefndinni eru hins vegar færir; ég veit þetta um suma þeirra af því að ég þekki þá eða þeirra störf, og geri ráð fyrir að það eigi við um þá sem ég þekki minna til. Þeir munu vinna þetta verk vel og leita eftir sjónarmiðum sem máli skipta og safna upplýsingum og gera skynsamlegar tillögur. Þetta á yfirleitt við um nefndir hvort sem þær eru eingöngu skipaðar konum eða körlum, eða fólki af báðum kynjum og á ólíkum aldri. Samt er það þannig að ekki er ólíklegt að karlar og konur upplifi ísbjarnarvána með ólíkum hætti og ég held að umhverfisráðherra hefði vel mátt gefa sér örlítið meiri tíma til að fylgja grundvallarreglunni um hlutföll karla og kvenna í nefndum. Traust mitt til þeirra einstaklinga sem sitja í nefndinni breytir engu um það.
Unnið að viðbragðsáætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Athyglisvert innlegg - alltaf má gott bæta! Mig grunar að þetta hafi þurft að gerast eldsnöggt og margir karlmenn til staðar en engin kona?
Edda Agnarsdóttir, 29.6.2008 kl. 14:06
Mæltu manna heilastur.
Berglind Steinsdóttir, 29.6.2008 kl. 15:31
Takk fyrir innlitið, Edda og Berglind
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 30.6.2008 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.