11.6.2008 | 17:50
Nú er ég ánægður með fagfélagið mitt
Mér finnst frábært af Sagnfræðingafélagi Íslands að benda á að skýrsla forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands sé á skjön við sagnfræðirannsóknir um uppruna Íslendinga. Hér er tilkynning Sagnfræðingafélags Íslands um bréf sem félagið sendi forsætisráðherra í gær (bréfið er nælt við neðst í færslunni):
"Í viðhengi er afrit af bréfi sent forsætisráðherra frá stjórn Sagnfræðingafélags Íslands. Tilefnið er nýútgefin skýrsla um ímynd Íslands. Skýrslan er afrakstur af starfi nefndar forsætisráðherra en nefndarformaður var Svava Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík. Í skýrslunni kemur fram að ein af undirstöðum ímyndar Íslands eigi að vera uppruni þjóðarinnar og þá m.a. eftirfarandi þættir í sögu hennar: Fyrstu Íslendingarnir voru fólk sem kom hingað í leit að frelsi og betri lífsskilyrðum. Þjóðin bjó lengstum við kröpp kjör en þegar hún fékk frelsi og sjálfstæði tók hún stökk frá því að vera þróunarland til þess að verða ein ríkasta þjóð í heimi á innan við öld. Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi. Mikilvægasti menningararfur Íslendinga, íslensk tunga, lifir í máli þjóðarinnar og í bókmenntum hennar.
Sagnfræðingafélagi Íslands finnst rétt að benda á að þessar fáu setningar fela m.a. í sér söguskoðun sem er á skjön við sagnfræðirannsóknir síðustu 30-35 ára. Hún sver sig fremur í ætt við þá söguskoðun sem mótuð var í sjálfstæðisbaráttunni í pólitískum tilgangi. Þeirri söguskoðun hafa fjölmargir sagnfræðingar andmælt síðustu áratugi og komið fram með sannfærandi rök sínu máli til stuðnings. Greina má goðsagnir á borð við frelsisþrá landsnámsmanna og nýja gullöld í kjölfar sjálfstæðis sem voru meðal þeirra sem skapaðar voru til að réttlæta sjálfstæðiskröfuna. Einnig má sjá að nútímahugtök og -viðmið eins og betri lífsskilyrði" og þróunarland" eru notuð yfir fortíð þar sem óvíst er að þau hafi haft nokkuð gildi.
Sannarlega er umdeilt hvort ímyndir hafi nokkuð með sannleika að gera. Hins vegar lýsir nefndin því yfir að [á]rangursrík ímyndaruppbygging þarf að byggjast á einkennum lands og þjóðar sem eru sönn eða ekta" og eiga sér djúpar rætur." Ofangreindar staðhæfingar um sögu íslensku þjóðarinnar geta því varla samræmst skilgreiningu nefndarinnar á árangursríkri ímyndaruppbyggingu nema að því leyti að fyrrnefndar goðsagnir eiga sér sannarlega djúpar rætur.
Meðfylgjandi bréfinu er listi yfir áhugaverðar rannsóknir og umfjallanir fræðimanna annars vegar um ímyndir og hins vegar endurskoðunina á þeirri pólitísku söguskoðun sem ríkti á Íslandi fram á 8. áratug síðustu aldar. Það er von Sagnfræðingafélags Íslands að ekki verði litið fram hjá rannsóknum sagnfræðinga og annarra fræðimanna á síðustu áratugum við ímyndarsköpun Íslands á vegum hins opinbera. Jafnframt má benda á að ávallt er hægt að leita til félagsins sem veitir faglega aðstoð eftir bestu getu og er vilji meðal stjórnarmanna að halda fund með fagfólki og fulltrúum nefndarinnar um sagnfræði og ímyndarsköpun."
Bréf þetta er birt á Gammabrekku, tölvupóstlista sagnfræðinga.
Skoðanir í ímyndarskýrslu á skjön við nýjustu sagnfræðirannsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Athyglisvert að Sagnfræðingafélagið skuli ekki geta tekið fram hvernig það myndi vilja hafa þennan stutta texta í skýrslunni svo hann sé "réttur". Hvað er svona rangt við hann að mati félagsins?
Mér virðist á bréfinu að það sé helzt ritað af óánægju yfir því að enginn sagnfræðingur skuli hafa setið í nefndinni sem samdi skýrsluna (sem ég fæ ekki séð að sé raunin) og/eða að ekki skuli hafa verið leitað til félagsins eftir ráðleggingum við samningu hennar.
Kveðja,
Hjörtur
verðandi sagnfræðingur
Hjörtur J. Guðmundsson, 15.6.2008 kl. 08:16
Takk fyrir innlitið, Hjörtur. Ég held að það hefði verið frekar galið af Sagnfræðingafélaginu að segja hvernig einhver texti ætti að vera. Fyrir það fyrsta þá er
auðvitað ekki sjálfgefið að þennan tiltekna texta hefði þurft að hafa í skýrslunni - nefndin hefði þurft að vera gagnrýnnni á það þsem kom fram í rýnihópum
- já, ef til vill leita sér fagþekkingar hjá sagnfræðingum þannig að ekki sé stuðst við "rangar staðreyndir" um sögu landsins. En aðalatriðið er að félagið
gagnrýnir að stuðst hafi verið við söguskoðun sem þykir frekar úrelt - og ef ég segi hvað mér finnst - fremur hallærisleg í upphafi 21. aldar. Og félagið bendir á sagnfræðirannsóknir sem gæti verið gott að lesa áður en byggt er á líkaninu í skýrslunni sem vissulega er að mörgu öðru leyti athyglisvert.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.6.2008 kl. 09:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.