Breytingar í Laugaskóla

Meðal bestu skólaminninga er útgáfa skólablaðsins Járnsíðu sem var gefin út landsprófsveturinn minn í Laugaskóla í Þingeyjarsýslu og félagslífið sem spratt upp í kringum blaðið og nýtt málfundafélag.

     Fyrir nokkrum dögum var ég staddur í Laugaskóla, sem nú er Framhaldsskólinn á Laugum þeirra erinda að kynna mér skólastarfið og flytja fyrirlestur um umhyggju í starfi kennara. Þar er nú unnið að þróunarverkefni sem felst meðal annars í breyttu kennsluformi: Einungis helmingur kennslunnar fer fram í svokölluðum fagtímum en hinn helmingurinn í vinnustofutímum þar sem nemendur vinna sjálfstætt að viðfangsefnum námsgreinanna en kennarar leiðbeina þeim. Þetta merkir að kennarar hafa meiri samvinnu en áður og nemendur núna leita til þess kennara sem er staddur hjá þeim hverju sinni hvort sem hann kennir fagið eða ekki. Konráð Erlendsson, Konni, sem kenndi mér í landsprófi forðum rifjaði upp að þannig hefðum við nú haft það þegar kennarar gengu á milli herbergjanna síðdegis á daginn; við hefðum spurt út í hvað sem var – og alltaf fengið gagnleg svör! Ég hugsa að það sé alveg rétt hjá honum.

     Þetta fyrirkomulag merkir líka að aldrei eru eyður í stundatöflu sem er einn böggull áfangakerfis því að núna skiptast á fagtímar og vinnustofutímar með eðlilegum matar- og kaffihléum; það er líka styttri vinnudagur fyrir vikið. Ef nemi velur fáa áfanga vegna þess að hann treystir sér ekki til að taka fullt nám hefur hann fleiri vinnustofutíma og meiri aðgang að kennurunum. Sem er jákvætt. Þetta fyrirkomulag kalla Laugamenn sveigjanlegt námsumhverfi og líka er notað hugtakið persónubundin áætlun þar sem nemendur geta tekið mismarga áfanga í einu.

     Hver einasti dagur byrjar á hálftíma vinnustofutíma kl. 8.30. Margir nemendur vakna fyrr og geta mætt upp úr kl. 8 en aðrir eiga erfiðara með að vakna og eru kannski syfjaðir fyrst í stað. Svo er morgunmatur en þar sem ég kom ekki austur í Laugar fyrr en kl. 11 veit ég ekki hvort þar er sami hafragrauturinn á boðstólum eins og þegar ég var þar fyrir 37 árum. Hins vegar var sprengidagssaltkjötið beinlaust og það get ég fullyrt að saltkjötið á Laugum var ekki í gamla daga. En þar sem þarna er sama eldhús og sami matsalur fékk ég að drekka bollukaffi í sætinu sem ég hafði í landsprófi, alveg út við dyrnar fram í anddyrið. Kennarar sögðu mér að með þessu fyrirkomulagi sé betri mæting í tíma en hefði verið með eldra fyrirkomulagi og nemendur borði nú meira af því að þeir væru duglegri, svæfu t.d. aldrei af sér máltíðir dagsins sem áður hefði komið fyrir.

     Lítill framhaldsskóli með um 100 nemendum á undir högg að sækja í reiknilíkaninu sem notað er til að deila út fé til framhaldsskóla. Ég þekki þetta reiknilíkan ekki til hlítar og veit þess vegna ekki hvort þarf að breyta því mikið til að stuðla að því að framhaldsskólar eða deildir á framhaldsskólastigi geti verið á stöðum þar sem framhaldsskóli er ekki til staðar í dag. Það er líka að mörgu að hyggja við breytingar af þessum toga, t.d. að kjarasamningum við kennara sé rétt fylgt.

     Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem breytingar verða á Laugum. Laugaskóli var stofnaður sem héraðsskóli 1925 með eins konar lýðháskólasniði en þróaðist yfir í að vera svipaður gagnfræðaskólum þéttbýlisins á þeim tíma sem ég var þar (1969–1971). Svo kom þar framhaldsdeild og loks varð hann að framhaldsskóla, fyrst í stað með 10. bekkjar deild en svo var hún lögð niður og nú er þar eingöngu framhaldsskóli með náttúrufræði-, félagsfræði- og íþróttanámi. Með þeim breytingum sem nú eiga sér stað bregst Laugaskóli við nýjum aðstæðum og nýjum hugmyndum um hvernig nám fer fram –kröfum og hugmyndum upphafs 21. aldar. Þannig hefur Laugaskóli verið til í hartnær öld af því að honum er breytt til að svara kröfum nýs tíma. Reynslan sker úr um hvort breytingarnar nú skila árangri en hugurinn er mikill og það skiptir máli þegar breytt er til.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Þetta er mjög spennandi verkefni hjá þeim á Laugum.  Þegar ég var í ME á sínum tíma,- 81-85 þá var opið kerfi í gangi,- þ.e. kennslustundir og síðan opnar stofur hjá kennara.  Mér sýnist þetta vera betri útfærsla á því sem var þar,- en það var samt mjög sniðugt kerfi á þeim tíma.

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 9.2.2008 kl. 11:51

2 identicon

Þegar ég var í Laugaskóla þá var áfangakerfið. Þó það kerfi hafi sína ókosti var alltaf gaman að geta farið upp á herbergi í Húsó að hlusta á tónlist með góðum vinum og spila á hljóðfæri þegar maður átti eyðu.

Haraldur 9.2.2008 kl. 14:21

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég hefði alveg verið til í að sitja með þér í gamla matsalnum á Laugum og háma í mig saltket og baunir. Svo hefðum við fengið okkur gott kaffi á eftir og spjallað lengi. Kveðja norður.

Eyþór Árnason, 10.2.2008 kl. 01:00

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Þórhildur, Haraldur og Eyþór. Já, ég var búinn að gleyma að hafa heyrt um opna kerfið á Egilsstöðum, en það hefur margt verið gert gott hér og þar, og sumt lagst af, því miður.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.2.2008 kl. 12:28

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Skemmtileg lesning og fróðleg.

Edda Agnarsdóttir, 12.2.2008 kl. 14:17

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Edda

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.2.2008 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband