Sundagöng, eyjaleið - eða lest?

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarnar vikur um hvort réttara sé að leggja nýja leið frá Reykjavík upp á Kjalarnes með því að setja brýr og eyjar yfir Sundin eða grafa göng undir þau - en lestarsamgöngur lítið bornar saman við þessar leiðir.

Stjórnmálafólk vefengir niðurstöður Vegagerðarinnar um að eyjaleiðin sé betri þegar á heildina er litið (upphafskostnað, rekstrarkostnað, kannski fleira). Augljóst finnst mér að hér er ekki um að ræða sömu framkvæmdina; svo ólíkar eru vegleiðirnar. Hins vegar skilst mér að þessar tvær nokkuð ólíku framkvæmdir eigi að uppfylla það markmið að greiða leið frá Vesturlandi og Norðurlandi til og frá Reykjavík. Framkvæmdirnar skipta okkur hér fyrir norðan því talsvert miklu máli og það hlýtur að skipta máli hvor leiðin uppfyllir betur markmiðin með samgöngubótunum. Göngin virðast koma ferðalöngum mun nær miðborg Reykjavíkur - og ég veit að ég er líklegri til að vera á leiðinni þangað en á leiðinni upp á Reykjanesbrautina nálægt Elliðaám þar sem mér sýnist eyjaleiðin koma upp. Mér finnst hins vegar hæpið af stjórnmálafólki að vefengja niðurstöður Vegagerðarinnar, þótt vitaskuld sé hún ekki óskeikul í vegavali eins og önnur dæmi sýna.

En eru þetta hinar raunverulegu samgöngubætur sem við þurfum á að halda? Er Vegagerðin byrjuð að huga að lestarsamgöngum? Eða hefur henni ekki verið sett slíkt verkefni fyrir? Ef svo er ekki, er þá ekki kominn tími til þess? Eru skipulagsyfirvöld í Reykjavík byrjuð að huga að því að taka frá land fyrir lestarsamgöngur í samvinnu við yfirvöld nágrannasveitarfélaga? Mun miðstöð lestarsamgangnanna verða í samgöngumiðstöðinni í Vatnsmýri, nálægt tveimur háskólum, Landspítalanum, stjórnarráðinu o.fl.o.fl.?


mbl.is Göng 9 milljörðum dýrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það er bara tímaspursmál hvenær lestakerfi í einhverri mynd verður sett upp á Íslandi og því löngu orðið tímabært að fara að huga betur að þeim málum.

Ég hef haldið á lofti hugmyndum um að tengja miðsvæðið Reykjavíkur betur og beina þá mestu umferðinni framhjá Grafarvogi og Mosfellsbæ eftir beinni og mun einfaldari leið en núverandi Sundabraut/göng kallar á.

Þar eru á ferðinni gífurlega flókin mannvirki með slaufum og flóknu gangnakerfi neðanjarðar sem væri hægt að leysa með mun einfaldari hætti eins og sjá má á eftirfarandi lausn.

ÞVÍ EKKI AÐ FARA Í EINFALDARI, ÓDÝRARI OG HAGKVÆMARI FRAMKVÆMD?

Ef lögð yrðu göng/brýr sem stofnæð í beinni línu á milli eyjanna með betri tengingu við miðsvæði Reykjavíkurborgar, þá myndi skapast góð tenging við Sæbraut, Kringlumýrarbraut og svo ekki síst stuttar leiðir á hafnarsvæðin þrjú, Sundahöfn, Reykjavíkurhöfn og Holtabakka. Einnig verður stutt í nýja miðbæinn í Borgartúni sem verið er að byggja upp.

Kostirnir við þessa tillögu umfram þær tvær tillögur sem nú eru í gangi eru:

1) Nýtt dýrmætt byggingarland verður aðgengilegt eins og Viðey, Geldinganes og Álfsnes. En það bráðvantar byggingarland sem er niður við sjó en ekki lengst inni í landi.

2) Hringvegurinn styttist um heila 10 Km og jafnframt leiðin frá miðbæ Reykjavíkur að Hvalfjarðargöngunum.

3) Umferðin fer utan um byggðirnar í stað þess að fara í gegnum þær sem sparar flókin og dýr umferðarmannvirki á þeirri leið og íbúar þeirra svæða losna við mengun og hávaða sívaxandi umferðar á þeirri leið.

4) Þessi framkvæmd myndi nýtast landsbyggðinni mun betur því fjarlægð frá Reykjavík styttist um 10 Km og sá tími sem tekur að komast í þjónustu þar sem nánast öll stjórnsýslan er - styttist.

5) Í minni hugmynd þarf aðeins að leggja um 4 Km í göng en þó mætti bora meira á landi eins og hugmyndir um Sundagöngin ganga út á. Sundagöngin eru mjög flókið gatnakerfi neðanjarðar og nýtast að mestu aðeins Grafarvogi til að byrja með. Þau eru um 5 km frá Laugarnesi að Gufunesi á meðan göngin sem að ég kem með tillögu að eru samanlagt 4 Km og myndu nýtast mun betur og skapa fullt af nýjum tækifærum!

6) Ef hætt yrða að rukka fyrir aðgang að Hvalfjarðagöngunum, þá væri hægt að spara bygginu á nýjum göngum. En umferðatafir á þeirri leið myndast þar sem gjaldheimtan á sér stað í stað þess að láta umferðina renna óhindrað í gegn. Svo er þetta auka skattur sem landsbyggðarfólkið er að greiða. Ríkið á að greiða Spöl upp verkið og láta þá byrja strax á byggingu nýrra ganga í svipuðum stíl og Hvalfjarðargöngin eru í dag. Svo má tvöfalda það kerfi eftir því sem byggð stækkar og umferð eykst.

7) Varðandi lestarhugmyndir, þá hef ég komið með 3 tillögur að umhverfisvænum lestarsamgöngukerfum og er það 4 í vinnslu fyrir leiðina frá Reykjavík upp í Borgarfjörð. Hugmyndina að jarðgöngum má svo vinna á þeim nótum að hægt sé að aka lest um þau og væri ekki amalegt að hafa beina tengingu við Hafnarsvæðin 3 í Reykjavík á þeirri leið. En hugmyndir af lestarkerfunum má svo sjá hér:

8) Reykjanes - Gullhringurinn - Léttlestarkerfi

Hér má sjá hvernig hægt er að samtengja byggðir á suðvesturhorninu sem myndi nýtast vel byggðum og ferðamönnum sem ferðast um þetta svæði.

Mynd sýnir samgöngukerfi sem gæti leyst umferðarvanda á Reykjanesinu - fyrir íbúa jafnt sem ferðamenn

Lesa má nánar um málið hér:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/372669/

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/392155/

En fyrir norðanmenn, þá ætti ekki að vera flókið mál að tengja þessi tvö kerfi saman t.d. í gegnum Kaldadal.

9) Norðurland - Demantshringurinn - Léttlestarkerfi

Á eftirfarandi mynd og korti má sjá hugmyndir af brautarkerfi fyrir DEMANTSHRINGINN (Húsavík - Ásbyrgi - Dettifoss - Mývatn) og Tröllaskagann (Sauðárkrókur - Hofsós - Siglufjörður - Ólafsfjörður - Dalvík - Akureyrir).

Brautarkerfi, lest eða monorail kerfi fyrir Norðurland, Demantshringinn og Tröllaskagann

STYRKJUM LANDSBYGGÐINA - EFLUM SAMGÖNGUKERFIÐ - LÉTTLESTARKERFI FYRIR NORÐURLANDIÐ! http://photo.blog.is/blog/photo/entry/367524/

10) Austurland - Álhringurinn - Léttlestarkerfi

Á eftirfarandi mynd og korti má sjá hugmyndir af brautarkerfi fyrir Norðaustur- og Austurland Möðrudalsöræfin (Mývatn - Egilsstaðir), Álhringurinn (Egilsstaðir - Seyðisfjörður - Norðfjörður - Eskifjörður - Reyðafjörður)

Brautarkerfi, lest eða monorail kerfi fyrir Norðausturland, Möðrudalsöræfi og Álhringurinn

ÞUNGFÆRT, SKAFRENNINGUR, HÁLKA, ÓFÆRT! - ÞAÐ ER HÆGT AÐ LEYSA MÁLIÐ http://photo.blog.is/blog/photo/entry/367893/

Það eru nokkur lönd sem eru byrjuð á svipuðum hugmyndum um léttlestir og er ekki annað að sjá en að það hafi gengið vonum framar.

Það er ekki mikið sem þarf að gera til að byrja á svona verkefni og tillögur að slíku má lesa hér:

BYRJA SEM FYRST Á AÐ LEGGJA 25 KM TILRAUNABRAUT FYRIR LÉTTLEST http://photo.blog.is/blog/photo/entry/379281/

Kjartan

WWW.PHOTO.IS

Kjartan Pétur Sigurðsson, 19.1.2008 kl. 10:31

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sorry - sé að stílformið á síðunni hjá þér býður ekki upp á svona breiðar myndir. Það má þá alltaf smella á linkana undir kortunum til að skoða þau nánar.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 19.1.2008 kl. 10:33

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir þetta, Kjartan; ég hef séð hugmyndir að mig minnir frá Jens Ruminy, en ég kalla eftir því að samgönguyfirvöld - að tilstuðlan Alþingis - nú eða borgaryfirvöld að eigin frumkvæði - hefji vinnu að undirbúningi.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.1.2008 kl. 16:55

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Vaá mar verður klumsa þegar öll þessi skrif og myndir eru í athugasemdum - en greinilega allra athyfli vert.

Ég er á þeirri skoðun eins og er, að göng eigi að koma. Þessa leið þarf strax og ég hef reynslu núna af Hvalfjarðargöngum sem eru góð fyrir utan það að þau þyrftu að vera tvöföld.

Edda Agnarsdóttir, 19.1.2008 kl. 17:50

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

'atti að vera:allra athygli

Edda Agnarsdóttir, 19.1.2008 kl. 17:50

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mikið óskaplega vildi ég að lestakerfi yrði byggt upp hér á landi. Mér finnst mjög prímitívt kerfi að setja hverja sál upp í (margra) milljóna hylki, flestir eru amatörar og undir þetta þarf rándýrt vegakerfi með tilheyrandi tvöföldunum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.1.2008 kl. 19:43

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Sæl öll.

Ég hélt bara að það væri ekki svona mikil umræða á Íslandi um lestarkerfi, hélt að ég væri einn með þessa hugmynd. Mín tillaga er sú að leggja lestarteina kringum landið því að ég sé mestan hag af því að færa vöruflutningana, sem einu sinni fóru mest fram á sjó, af þjóðvegunum yfir á lestarkerfið.

Ég var nú svo íslenskur í mér að ég taldi ekki mögulegt að ná neinum landa minna út úr einkabílnum sínum yfir í lest, ekki til að ferðast milli landshluta, en maður á aldrei að segja aldrei.

Þessi uppsetning hjá þér Kjartan er mjög góð, sýnir að þú hefur pælt þónokkuð í þessu. Ert þú ekki að tala um rafknúnar lestar?

Við getum dregið mikið úr olíueyðslu með slíku móti. Færslan frá skipunum yfir á bíla var auðvitað galin, ekki síst út frá olíueyðslu sjónarmiðinu. Við erum að tala um 2 - 3000 hestafla vél og 200 gámaeiningar á skipinu en 5 - 600 hestafla vél og 2 gámaeiningar á bílnum.

Þegar við förum að velta því fyrir okkur hvernig við getum komið raforkunni okkar í verð, sem við auðvitað eigum að nýta en með skynsemi, þá verðum við að huga að svona hlutum.

Við getum notað gríðarlega orku í rafdrifið lestarkerfi og flutt um það alla okkar vöru og fullt af fólki. Og ef búast má við allt að tvöföldun á eldsneytisverði i heiminum á næstu árum held ég að það þurfi eitthvað nýtt að koma til.

Ég er allavega búinn að fá upp í kok af umhverfisumræðu sem snýst um nokkra rafmagnsbíla eða tvinnbíla að ég tali nú ekki um 5 vetnisknúna strætóa, þar sem 80% af orkunni er sóað í að búa til vetnið.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 19.1.2008 kl. 22:17

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll,

Ég skoðaði heimasíðuna hjá Jens Ruminy og sá að hann var að tala um stórar hefðbundnar lest. Slíkar lest með vögnum getur orðið hundruð tonna á þyngd og kallar slíkt á flókna vegalagningu með sterku burðarvirki í brúm og fl.

Því hef ég verið að halda léttlestarhugmyndinni meira á lofti og tel hana henta íslenskum aðstæðum mun betur.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 19.1.2008 kl. 22:35

9 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Jóhannes,

Sá ekki textann frá þér fyrr en að ég var búinn að senda hinn inn.

Það eru að verða nokkrir mánuðir síðan ég kom með þessar hugmyndir mínar hér inn á bloggið. En mér finnst eins og mörgum að það sé orðið löngu tímabært að íslendingar fari að gera eitthvað í þessum málum og ekki er verra ef hægt er að notast við innlenda umhverfisvæna orkugjafa.

Það er svo með þessa umhverfisumræðu hér á Íslandi, hún virðist öll vera í einhverju sýndarmennsku formi þar sem verið er að gera út á örfáa bíla svo að hægt sé að sýna útlendingum hvað við erum framalega á þessum sviði :)

Væri ekki nær að skoða þessa stóru eyðslu- og mengunarpósta og koma með eitthvað raunhæft svo að þetta sé meira á borði en í orði?

Það eru stórtækar hugmyndir víða í heiminum í dag og nú síðast voru Danir að spá í stórt og mikið rafbílakerfi.

Einnig voru Indverjar að koma með loftbíla á markaðinn og svo má ekki gleyma Íslenska fyrirtækinu Fjölblendir sem hefur unnið að þróun á íslenskum blöndungi sem bætir bruna til muna í smávélum.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.1.2008 kl. 00:15

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég skora á alla sem hafa áhuga á þessu máli að skoða síðuna hjá Kjartani Pétri. Það þarf reyndar að fletta dálítið langt aftur, eða smella á slóðirnar sem hann setur inn þarna að ofan.

Þetta eru nefnilega snjallar hugmyndir, sýnist mér á öllu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.1.2008 kl. 00:24

11 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka ykkur góðar umræður og ábendingar. Ég geri mér enga grein fyrir því enn þá hvað af þessu er raunhæfast, þá einkum með tilliti til kostnaðar; líklega er mikilvægast að setja upp lestarkerfi frá samgöngumiðstöðinni í Vatnsmýri þannig að hægt sé að komast suður á flugvöll á Miðnesheiði, upp á Skaga eða Borgarnes, og austur á Selfoss. Þetta er ekki einföld skipulagsvinna, en er það ekki svo að sumar borgir erlendis séu látnar þróast utan um þess háttar samgönguleiðir?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 20.1.2008 kl. 13:24

12 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég myndi kjósa lestarkerfið. Er ekki kominn tími til að hér sé blásið til nýbreytni í samgöngumálum.

Anna Karlsdóttir, 21.1.2008 kl. 11:59

13 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hvernig er það annars, Anna, er það rétt sem mig minnir ég hafi heyrt að Köben sé skipulögð út frá lestarkerfinu?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.1.2008 kl. 14:20

14 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

"ég kalla eftir því að samgönguyfirvöld - að tilstuðlan Alþingis - nú eða borgaryfirvöld að eigin frumkvæði - hefji vinnu að undirbúningi"

Ekki er annað að sjá en að Ingólfi hafi orðið að ósk sinni. En í morgun birtist frétt á visir.is um að borgaryfirvöld væru komin á fulla ferð í þessum efnum :)

Mér skilst að metróinn í köben aki á ökumanns svo að þer eru komnir langt á veg með sjálfvirkni í sínu kerfi.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.1.2008 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband