Miklugljúfur og mislögð gatnamót, vatn eða skólp?

Ég "brá" mér til Arizona í síðustu viku og kom heim í morgun. Meginerindið var að sitja litla ráðstefnu um hugtakið sjálfbærni, m.a. um hvers konar samræður eða hvers konar skilningur á samræðum er nauðsynlegur eða líklegur til að skapa virðingu milli fólks þrátt fyrir ágreining. Eitt erindið var um greiningartækni á umhverfismatsskýrslum - til meðferðar voru skýrslur um snjógerð í Snowbowl fyrir norðan Flagstaff í Arizona. Hvort nota mætti hreinsað vatn - eða hvað á það að heita vatnið, ég meina vatnið sem á að frysta en ekki heita vatnið - já, hreinsað vatn eða hreinsað skólp, er það þá skólp, eða er það endurunnið vatn (dæmi um ensk orð eru reclaimed watereffluent, treated sewage, sewage, treated wastewater, og pee, poop, or sewage, til að láta hlutina líta vel eða illa út)? En þetta snýst ekki bara um hvenær vatn er skólp og hvenær skólp er vatn heldur eru fjöllin heilög fyrir frumbyggjunum og a.m.k. einn ættbálkur er andsnúinn því að nota hreinsað vatn/skólp, hvað sem það heitir, við snjógerð á slíku heilögu svæði. Svo mun málið líka snúast um hvort bora eigi eftir vatni 1000 m niður í jörðina með tilheyrandi kostnaði og e.t.v. umhverfisskaða. Mér skilst að dómarinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hreinleiki vatnsins sé afgerandi, sambærilegur við mikilvægi hreinleika vatns við kristna skírn. [Höfundur þessa erindis heitir Paul Walker, prófessor við Murray State University.]

Ráðstefnan var haldin í Arizonaháskóla í Tempe en þaðan "skrapp" ég svo upp að Miklugljúfrum en skoðaði nokkra aðra staði í leiðinni, t.d. rústir Wupakti Pueblo og náttúruvættið Sunset Crater Volcano. Á þessum slóðum gaus miklu hraungosi fyrir 1000 árum eða svo, og rústirnar eru taldar um 800 ára gamlar. Naut þessar reyndar líka að aka þessa 400-500 km leið fram og til baka og njóta útsýnis og gríðarlega fjölbreytilegs landslags - og svo tókst mér að rata á margakreina hraðbrautum í gegnum Phoenix og a.m.k. þriggja hæðum háum mislögðum gatnamótum, allt eftir útprentuðum Yahoo-eiðbeiningum kollega míns Peters Rilleros sem var á Akureyri sem Fulbright-skiptikennari fyrir nokkrum árum. Reyndar eru merkingarnar ágætar og það skaðar ekki. Og kannski eru þessi gatnamót þá ekki mislögð eftir allt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Yfirfært aðferðir, já -  tæpast yfirfært neinar niðurstöður en e.t.v. dregið lærdóma. Í mínum augum eru það stjórnvöld og framkvæmdaaðilar sem hafa farið hratt fram og þeir sem vilja fara hægar hafa ekki undan. Eins og kemur fram hér á síðunni um Þeistareyki og Gjástykki.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.11.2007 kl. 09:10

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Velkominn heim Ingólfur.

Þetta hljómar sem áhugaverð ráðstefna. Það hefur örugglega verið áhugavert líka að sjá þessa staði  við Miklagljúfur. Ég er áskrifandi að mjög forvitnilegu tímariti sem heitir fishwrap og er gefið út af enn forvitnilegra þekkingarsetri, sem heitir Institute for small town studies, í Bandaríkjunum. Þar var mjög skemmtileg söguleg grein um þróun ferðamennsku í Miklugljúfrum og þátt járnbrautarinnar í þeirri þróun.

Anna Karlsdóttir, 3.11.2007 kl. 16:53

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæl Anna og takk fyrir. Ágætis ráðstefna og Miklugljúfur stóðu undir væntingum, sem er ekki sjálfsagt að neitt geri á þessum tímum. Annars hef ég verið að hugsa um það undanfarna daga að upplifun mín af þessu ferðalagi er samt miklu meiri af því ég ferðaðist á landi og naut útsýnis og víðáttu heldur en ef ég hefði flogið til flugvallar í grennd við Grand Canyon. Lest hefði sjálfsagt gefið sömu raun og akstur í bíl hvað þetta varðar. Annað að Miklugljúfur komu mér ekki á óvart, ekki náttúran þar - og upplifunarkrafa um hið óvænta er orðin svo sterk í orðræðunni að þá er næsta spurning þeirra sem ég segi frá ferðinni sú hvort þau standi ekki undir væntingum. Jú - en ég vissi bara heilmikið um þau, hef ferðast til staða sem eru líkir (en á minni skala), hef séð mjög mikið af myndum um þau. Það sem kom mér á óvart við þjóðgarðinn var það sem landvörðurinn sagði um arkitektúrinn - hann sagði margar sögur af Mary Coulter, vona ég fari rétt með nafn hennar, sem hannaði mjög margar af hinum sögulegu byggingum. El Tovar-hótelið mun eitt hið frægasta af þeim, byggt 1905. Sem sé: Miklugljúfur eru stórkostleg þótt þau hafi ekki komið mér óvart heldur staðið undir hinum miklu væntingum bæði sem náttúruundur og merkileg saga ferðamennsku í Bandaríkjunum. Annars mun norðurhlutinn - norðurgljúfurbarmurinn, North Rim - vera ekki síður skemmtilegur, liggur hærra í landinu og landvörðurinn sagði að "nicer people" (indælla fólk) heimsækti þann hluta, kannski vegna þess að erfiðara er að komast þangað.

Institute for small town studies virðist áhugaverð.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 4.11.2007 kl. 14:18

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég hef verið heimavið vegna vetrarfrís í grunnskóla sonar míns, en ég skal gefa þér "tilvísunina" á morgun.

Anna Karlsdóttir, 5.11.2007 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband