Friðlýsum Héðinsfjörð um leið og göngin opnast

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi hafa sent umhverfisráðherra annars vegar og bæjarstjórn Fjallabyggðar hins vegar eftirfarandi áskorun:

 

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, skora hér með á umhverfisráðherra og bæjarstjórn Fjallabyggðar að beita sér fyrir friðlýsingu Héðinsfjarðar sem friðlands eða fólkvangs. Friðlandið yrði stofnað eigi síðar en jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða opnuð, en undirbúning friðlýsingar, merkingar gönguleiða og brúun lækja og mýrlendis þarf að hefja sem allra fyrst.

     Fjallabyggð og byggðarlög í nágrenninu hafa mikla hagsmuni af því að friðland verði stofnað á norðanverðum Tröllaskaga, með eins konar hjarta í Héðinsfirði. SUNN telja því sé eðlilegt að sveitarfélagið beiti sér í málinu með umhverfisráðherra. Þá er ekki ólíklegt að hinn siglfirski samgönguráðherra hafi áhuga á málinu. Friðlýsing myndi hafa afar góð áhrif á ímynd svæðisins alls og vafalítið stuðla að auknum ferðamannastraumi um norðanverðan Tröllaskaga og auka þannig þau jákvæðu áhrif sem fólk á svæðinu vonast til að skapist vegna jarðganga og vegar sem liggur þvert yfir Héðinsfjörð. 

     Þótt Héðinsfjörður verði ekki friðland eða fólkvangur við opnun jarðganganna þarf að gera friðunarráðstafanir þegar vegur verður kominn. Um þetta hafa landeigendur, náttúruverndaryfirvöld, SUNN og fjölmargir aðrir sem hafa tjáð sig verið sammála, t.d. þarf að hindra bílaumferð utan þjóðvegar og það þarf að gera þar gott göngustíga- og gönguleiðakerfi sem í senn verndar gróður og landslag og tryggir almenningi aðgang. Koma þarf á fót móttöku fyrir gesti, bílastæðum, göngustígum og brúm yfir læki og um mýrlendi. Allar slíkar aðgerðir munu gagnast betur ef landið verður formlega friðlýst og komið á landvörslu og upplýsingagjöf fyrir ferðafólk.  

Sjá um fyrri tilraun til friðlýsingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér er til efs um að traffíkin verði eitthvað yfirgengileg þarna. Menn líta á þessi göng eins og alfa og omega fyrir afkomu Siglufjarðar en enginn getur svarað því hverju þau eiga að breyta.  Enginn er eftir til að breyta neinu.   Mér er enn óskiljanlegt enn af hverju ódýrari og vitrænni kosturinn að gera göng yfir í fljótin var ekki valinn. Það er eins og þessi ákvörðun hafi verið tekin á fylleríi.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.8.2007 kl. 12:21

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ég held að ákvörðun um göngin hafi ekki verið tekin á fylliríi en hún er um margt hæpin fyrir því, sérstaklega að samgönguvandi Siglfirðinga til vesturs leysist ekki. Mýrlendið í Héðinsfirði þolir alls ekki mikinn átroðning en það er ekki síður um vert að bæta aðgengi til að njóta náttúrufegurðar og rólegheita (ef það verður ekki alltof mikill hávaði af veginum).

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.8.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Áhugavert mál - efni í skoðunarferð næsta sumar

Valgerður Halldórsdóttir, 16.8.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband