Virkjanir án mats á umhverfisáhrifum

Múlavirkjun á Snæfellsnesi er nú til umræðu eftir að í ljós kom að hún var byggð öðruvísi en til stóð. Stöðuvatn, sem átti að haldast óskert, var gert að uppistöðulóni og nú er komið í ljós að ekki voru rannsakaðar fornminjar sem fóru undir vatn. Virkjunin slapp við mat á umhverfisáhrifum sem er helsta aðferðin til að almenningur geti látið í ljós álit sitt á framkvæmdum. Stífla við nýlega virkjun í Eyjafirði brast í flóðum í vetur; sú virkjun fór ekki í mat á umhverfisáhrifum. Og nú hefur verið sóst eftir því að virkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi fái undanþágu frá mati en henni fylgir líka vegur um ósnortið land; vonandi sér umhverfisráðherra ástæðu í ljósi reynslunnar að krefjast mats, ekki bara af umhverfis- og náttúruverndarástæðum, heldur líka þeim að undirbúningur gæti orðið vandaðri við slíkar framkvæmdir ef þær eru betur undir búnar. Nægar náttúruverndarástæður eru þó gegn virkjuninni í Skaftafellssýslu og það er ljóst að Múlavirkjun er hæpin af slíkum ástæðum, a.m.k. eins og hún var byggð í trássi við kynnt áform.


mbl.is Óskráðar fornminjar fóru undir vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ég held að best sé að halda því til haga, af gefnu tilefni, að Múlavirkjun er eitt af þessum miður geðslegu dekurverkefnum Sjálfstæðisflokksins. Markmiðið sýnist mér fyrst og fremst vera, að greiða fyrir innrás einkavæðingar í virkjana- og orkubúskap þjóðarinnar, sem fram að þessu hefur verið sameign fólksins í landinu. Og þegar slíkt er á dagskrá er ekki til siðs að fara varfærnum höndum um eitt eða neitt. Duglegir sjálfstæðismenn á ríkisspenanum láta ekki fornminjar eða annað gamalt rusl stöðva sig þegar peningahugsjónin er annars vegar.

Það væri annars verðugt verkefni fyrir glöggt fólk, að taka saman, svona eins og tuttugu ár aftur í tímann, lista yfir öll dekurverkefni sjálfstæðismanna þar sem þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ásamt opinberu fjármagni hafa komið við sögu.

Jóhannes Ragnarsson, 1.8.2007 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband