Útinám í Skagafirði

Hvernig er hægt að kenna að njóta umhverfisins á vefnum? Er hægt að kenna útinám í kennslustofu? Hvernig er sanngjarnt að deila kostnaði af menntun barna sem þurfa að vera fjarri lögheimili sínu? 

Á ársþingi Samtaka fámennra skóla í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum (í Lýtingsstaðahreppi "hinum forna", eins og heimafólk tekur til orða þótt aðeins séu fá ár síðan hreppurinn sameinaðist flestum öðrum hreppum í héraðinu), í gær var m.a. fengist við þessi viðfangsefni. Kynntir voru tveir námsefnisvefir um umhverfið, annar þegar tiltækur, hinn á leiðinni, og sagt frá hugmyndafræði útináms og tilurð útikennslustofu í Norðlingaholti í Reykjavík þar sem norskur háskóli aðstoðar Norðlingaskóla við gríðarlega áhugavert þróunarstarf þar sem stefnt er að því að geta kennt sem flestar námsgreinar úti. Á ársþinginu var einnig fjallað um málefni kennitölulausa barna sem eiga rétt á menntun (lagalegan sem byggðan á mannréttindasjónarmiðum) - en slík mál heyrist um í fjölmiðlum og þau snerta dreifbýlið vísast ekki síður en þéttbýlli staði. Ársþinginu lauk með gönguferð um nágrennið þar sem lærðum folf, blöndu af frisbí og golfi, og hinum rómaða hátíðarkvöldverði samtakanna og heimatilbúnum skemmtiatriðum, m.a. sagði Rúnar Sigþórsson, einn af frumkvöðlum samtakanna, staddur í Cambridge á Englandi, nokkrar pekkasögur í gegnum síma, tölvupóst og mannlega miðla. Þetta var í alla staði velheppnað þing. Á heimleiðinni í morgun þurfti ég svo í óvæntan bíltúr út í Fljót og yfir Lágheiði vegna umferðaróhapps á Öxnadalsheiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Sæll Ingólfur og takk fyrir síðast, lenti líka óvænt í löngum hring með Skagafirði og Eyjafirði, fallegt en vakti spurnigar um samgöngumál enn ákveðnar. Þingið var að sjálfsögðu gott nú eins og endranær, gangi okkur vel í hugmyndum okkar um framtíð ríkisstjórnarinnar...

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 29.4.2007 kl. 13:51

2 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Komdu sæl Ingólfur

Varð forvitin - hvað áttu við með kennitölulaus  börn?

Valgerður Halldórsdóttir, 29.4.2007 kl. 21:46

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Nú rekurðu mig næstum því á gat, Valgerður, því ég greip þetta upp af glæru fulltrúa skólamálanefndar sveitarfélaga. Þetta eru börn innflytjenda sem annaðhvort hafa ekki sótt um kennitölu eða bíða eftir að fá hana. Það fór eitthvert mál í fjölmiðla í fyrravetur þar sem börnum var neitað um skólavist af því að þau höfðu ekki kennitölu. Slíkt er algerlega ótækt - meðan það er reyndar líka ótækt ef það er tilfellið að foreldrar þeirra láti það farast fyrir að sækja um kennitölu. Ég man nú ekki alveg hvað Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri lagði til - en mér skilst að skólamálanefnd sveitarfélaganna sé með það í athugun hvernig sveitarfélög eigi að meðhöndla svona mál.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 30.4.2007 kl. 07:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband