Grænu skrefin í Reykjavík og mislögð gatnamót

Við að fletta blöðum sl. 10 daga sá ég kosningaáróðursauglýsingu meirihlutans í Reykjavík um græn skref. Þessi skref munu bæta mannlífið, t.d. ókeypis ferðir námsfólks í strætó. En við þurfum stærri skref og fráhvarf frá þeirri samgöngustefnu sem R-listinn í Reykjavík því miður fylgdi líka, þ.e. að byggja stærri og meiri umferðarmannvirki, þar með talin þau skrímsli sem einhver nefndi "mislögð" gatnamót - áður en vinstri löppin verður að engu.* Róttækt skref væri að taka frá land fyrir lestarsamgöngur - jafnvel þótt það yrðu 20 ár þangað til lest gæti farið að renna um höfuðborgarsvæðið. Um leið og farið er að taka slíkt land frá kallar það á að koma þeim upp - þá fyrst gæti orðið raunhæft að hafa innanlandsflugvöll annars staðar en í Vatnsmýrinni - en fyrst og fremst eru lestarsamgöngur nauðsynlegar í baráttu gegn mengun og fyrir betra mannlífi.

*Umberto Eco, ítalskur bókmenntafræðingur og rithöfundur, lýsir nútímaborgarsvæði, eða eftirborgarsiðmenningu á þennan hátt: „Los Angeles er stórborg sem samanstendur af 76 minni borgum sem tengdar eru saman með tíu akreina vegum, þar sem mannskepnan lítur svo á að hægri löppin sé hönnuð í þeim tilgangi að vera á bensíngjöfinni, og vinstri löppin óþörf sem hver annar visnaður botnlangi af því að bílar hafa ekki lengur kúplingu – augun eru hlutir til að fókusera á undur sjónarspils og mekanisma, skilti og byggingar sem með ógnarhraða koma í ljós og hverfa og hafa aðeins örfáar sekúndur til að ná athygli og aðdáun. Í tvíburafylki Kaliforníu, Flórída, sem einnig virðist vera gervisvæði, finnum við í reynd hið sama, þ.e. ótruflaðar víðáttur af borgarmiðstöðvum, vegamótum sem spanna stór svæði, gerviborgir sem helgaðar eru afþreyingu (Disneyland er í Kaliforníu og Disneyveröld í Flórída …)" (Travels in Hyperreality, bls. 22). Sjá meira:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta er frábær texti eftir Umberto Eco :) Tek undir með þér Ingólfur að auðvitað á að fara að huga að lestarsamgöngum í höfuðborginni. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 17.4.2007 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband