Sólskin á Akureyri, slydda í Chicago

Var rúma viku í Bandaríkjunum og kom heim í gærmorgun, afar vonsvikinn að sjá veggverkið hans Hlyns Hallssonar farið - fauk það kannski út í veður og vind eins og mætti gjarna henda álversáform norðan sem sunnan heiða? Á miðvikudagsmorguninn var hvassviðri og slydda í Chicagó þar sem ég var ásamt 13.000 öðrum ráðstefnugestum Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) þar af a.m.k. tíu öðrum Íslendingum, að berjast á milli ráðstefnuhótela í miðborginni. Gott að koma heim í sólskin en síðra að koma heim í annríki.

Um páskana gisti ég á Arbor House í Madison, Wisconsin, sem kallar sig "environmental inn", umhverfisgististað. Fyrir utan að flokka ruslið í hverju herbergi, sem ætti nú bara að vera sjálfsagt, var allur búnaður, svo sem handklæði og lín, og hráefni, t.d. sápan, úr lífrænum efnum, oft mjög fagurfræðilega örvandi, og maturinn sömuleiðis hollur, góður, fallegur ... Eitthvað af orkunni úr sólarrafhlöðum og regnvatninu safnað til vökvunar, svo dæmi séu nefnd um annað. Annars er Madison heimaborg þar sem ég var í doktorsnámi á sínum tíma.

Á fimmtudaginn á að taka í notkun gestastofu í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Vona að ég komist þangað þrátt fyrir annríkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband