Dagskrá um Þjórsárver í Árnesi 17. mars 2012

Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í
Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst.

Hinn 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Þessi atburður  markaði upphaf varðstöðunnar um Þjórsárver.

Fundurinn var fjölmennur og stóð fram á nótt. Þar kom fram einhugur um að vernda bæri Þjórsárver. Samþykkt var ályktun þar að lútandi, og til er ítarleg fundargerð. Þegar hún er lesin, 40 árum síðar, er ljóst að þessi fundur skipti sköpum um framgang mála á þeim tíma og sennilega alla tíð.  Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera hefur staðið nær samfellt síðan og margir mikilvægir áfangasigrar unnist.

Í tilefni þessara tímamóta boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands  til afmælisdagskrár í félagsheimilinu Árnesi.  Skyggnst verður inn í tíðarandann í Gnúpverjahreppi fyrir fjörutíu árum,  litið yfir farinn veg og horft til framtíðar.

Meðal framsögumanna eru Birgir Sigurðsson rithöfundur, sem var einn þeirra sem stóðu fyrir fundinum árið 1972, Gísli Már Gíslason prófessor og formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur sem hefur rannsakað bakgrunn þess að Gnúpverjar tóku sér svo afgerandi stöðu með
náttúrunni, óbyggðunum og fuglum himinsins. Flutt verður tónlist og kaffiveitingar verða á boðstólum.

MEÐ RÚTU Í ÁRNES ?: Ef nægur fjöldi næst til að leigja rútu, þá verður það gert. Við biðjum þau sem hyggjast ferðast með rútu að láta vita á netfangið: axel@axel.is í síðasta lagi á miðvikudagskvöld, 14. marsVerð er 2000-2500,- krónur eftir þátttöku. Rútan mun fara frá
BSÍ kl. 12:00 þann 17. mars og stoppa á bensínstöðinni við Kringluna (12:05), á N1 í Árntúnshöfðanum (12:10) og á Olís við Rauðavatn (12:15). Einnig er mögulegt að stoppa í Hveragerði og á Selfossi ef áhugi er fyrir því (látið bara vita). Farið verður aftur til Reykjavíkur í síðasta lagi um 16:30. Þeir sem hafa samband og vilja fara með rútu verða látnir vita ef ekki verður næg þátttaka til að leigja rútu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband