18.9.2011 | 09:54
Er kynjakerfið álög?
Ég er búinn að sjá núna nokkrum sinnum auglýsingu Verslunarmannafélags Reykjavíkur um "álög" sem lögð eru á stúlkubarn á fæðingardeild, og algerlega dofinn ungan mann sem stóð með sóp þegar álögin voru lögð á stúlkuna. Mér finnst sá hluti auglýsingarinnar kannski bestur: Við karlar fljótum sofandi gagnvart því óréttlæti sem við höldum að við græðum á.
Jafnframt hefur Verslunarmannafélagið lagt til að konur fái 10% afslátt í búðum. Ef farið verður að þeirri tillögu munu karlmenn væntanlega steinhætta að versla fyrir heimilin og aukin vinna lenda á konum við innkaup (vinna sem sennilega er þó unnin af þeim í miklum meirihluta) - er það ekki?
Það er alltaf forvitnilegt að sjá einhverja nýja nálgun gagnvart vandamálum - en Verslunarmannafélagið leitar afskaplega langt yfir skammt, eða telur það kynjakerfið og feðraveldið vera yfirnáttúrleg fyrirbrigði?
Svo er ég að reyna að rifja upp hvort það sé rétt að það hafi verið verðmunur á mötuneytisgjaldi drengja og stúlkna í Laugaskóla eða MA á sínum tíma. Finnst þetta endilega og að okkur hafi alls ekki fundist neitt að þessu vegna þess að við vissum um betri fjárráð/hærra kaup á sumrin. Þar til við áttuðum okkur líka á því að óréttlát kerfi á að laga á kerfisgrunni en ekki einstaklingsgrunni, því að það voru líka til strákar sem fengu ekki há laun eða áttu mikla peninga að reyna að ganga í skóla. Sama gildir nú: Vill Verslunarmannafélagið að vöruverð til bankastjóra Arion og annarra sem fá milljónir í laun á mánuði sé margfalt hærra en til annarra? Til hvers er Verslunarmannafélag sem gerir kjarasamninga?
Viðbót frá Sigrúnu Ólafsdóttur á Facebook: Í Degi 17. maí 1966 skrifar Guðmundur Gunnarsson um Laugaskóla: Fæðiskostnaður pilta í vetur varð kr. 69.95 á dag og kr. 59.90 fyrir stúlkur.
Athugasemdir
Nú hefurðu gert þig sekan um að lesa ekki að fullu greinina sem um ræðir. 'Fyrirtæki eru hvött til að lýsa stuðningi við átakið og að veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu Á TÍMABILINU 20.-26. SEPTEMBER' sjá http://www.vr.is/index.aspx?GroupId=476386&TabId=1738&NewsItemID=18475&ModulesTabsId=4038
VR s.s. leggur til að með táknrænum hætti á tilteknu tímabili bjóði fyrirtæki konum aukaafslátt byggðan á þeirri staðreynd að þær eru almennt með 10,1% lakari laun fyrir sambærilega vinnu.
Auðvitað er þetta á vissan hátt kjánalegt en það er launamunurinn líka og þetta er ekki verri leið en önnur til að vekja athygli á þeirri staðreynd.
Það að þú vísir í mismunandi kostnað kynja í mötuneyti og að bæði stúlkur og drengir hafi samþykkt þennan mun sýnir bara og sannar hversu djúpt þessi launamunur á rætur sínar að rekja.
Ása Björg, 18.9.2011 kl. 13:14
Ása Björg, ég horfði nú á frétt með viðtali Stefáns Einars, formanns VR. Greinilegt að ég man ekki eftir tímabilinu sem hann tiltók, eða um "átak" væri að ræða. Gott að fá það á hreint! Skil þó vel að þetta á að vera táknrænt - en hæpið. Hefur samt komið af stað umræðu, og það er gott og jákvætt við átakið.
Svo er launamunurinn miklu, miklu meiri í reynd ef teknar eru allar tekjur kynjanna. Þetta er bara sá munur sem ekki hefur tekist að útskýra burt með vinnutíma, menntun eða öðru. Reyndar var fæðiskostnaðurinn líka og ég held aðallega rökstuddur með því að stelpurnar borðuðu minna en við, og það samþykktum við ekki sem rök.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 18.9.2011 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.