Jafnréttismenntun: Gagnrýnin greining

Jafnréttismenntun á að felast í gagnrýnni skoðun á viðteknum hugmyndum stofnunum samfélagsins í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra - segir næstum því orðrétt í nýrri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nýta á nýjar fræðigreinar á borð við kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði í því skyni að þessi menntun gagnist, fyrir utan fræðigreinar sem þegar eiga sér stoð í skólakerfinu, á borð við félagsfræði, landafræði og sögu, sem hafa margt til málanna að leggja í þessu samhengi.

En menntamálaráðuneytið þarf bæði aðhald og stuðning í þessari viðleitni við að hrinda í framkvæmd þessu ágæta markmiði. Því var það snemma á þessu ári sem stjórn Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun við Háskóla Íslands sendi fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins um hvað nýtt ákvæði í grunnskólalögum um jafnréttismál sem grein í grunnskóla merkti - en jafnréttismál eru talin upp í 25. gr. laga nr 91/2008:

„Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt." Spurt var:

1) Hvaða merking er lögð í orðið jafnréttismál í þessari grein? Er átt við jafnrétti í víðri merkingu, kynjajafnrétti þar með talið? Felst í þessu sérstök áhersla á kynjajafnrétti, sbr. t.d. álit rýnihóps frá desember 2010?

2) Hvort jafnréttismál séu með þessu að fá stöðu námsgreinar í grunnskólum?

3) Ef jafnréttismál fá ekki stöðu námsgreinar hvernig gerir ráðuneytið ráð fyrir að inntak og skipulag náms um jafnréttismál verði í grunnskólum?

Ráðuneytið svaraði spurningunum aðeins óbeint og benti á að í meðförum Alþingis hafi jafnréttismál og trúarbragðafræði bæst við fyrri námsgreinar. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru jafnréttismál talin námsgrein sem fellir að námssviðinu samfélagsgreinar í viðmiðunarstundaskrá. Þá kemur fram hjá ráðuneytinu að við túlkun á inntaki námsgreinarinnar jafnréttismál sé eðlilegt að líta til 24. greinar laganna. Þar eru ákvæði 2.gr. (markmiðsgreinar) grunnskólalaganna útfærð nánar. Þar segir m.a.: ,,Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti".

Í svari ráðuneytisins kemur fram að í tilefni af fyrirspurninni um hugtakið jafnréttismál hafa lögfræðingar ráðuneytisins kannað notkun orðanna jafnrétti og jafnræði í lögum almennt, sem og í Íslenskri orðabók. Af þeirri könnun megi draga þá ályktun að almennt séð feli hugtakið jafnrétti í lögum, án frekari skírskotunar, í sér vísun til almennrar reglu um jöfnuð manna á milli, einkum þegar um er að ræða þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja vegna fötlunar, þjóðernis eða félagslegrar stöðu. Að þessu leyti virðist hugtakið jafnrétti vera notað jöfnum höndum og hugtakið jafnræði, sbr. einnig skýringar hugtakanna í Íslenskri orðabók. Loks segir í svari ráðuneytisins að ef það hefði verið ætlun löggjafans að með hugtakinu jafnréttismál í grunnskólalögum væri eingöngu vísað til kynbundins jafnréttis hefði þurft að kveða skýrt á um það. Í vinnu að nýrri aðalnámskrá 2011 þar sem fjallað er um jafnréttisfræðslu sé því gengið út frá jafnrétti í víðri merkingu, kynjajafnrétti þar með talið.

Næst kemur fram í svari ráðuneytisins að við þróun þeirrar menntastefnu sem birt er í nýrri aðalnámskrá sé byggt á sex grunnþáttum menntunar sem á að hafa að sérstöku leiðarljósi við námskrárgerðina á öllum skólastigum, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einn þessara áhersluþátta er jafnrétti. Tekið er fram í svarinu að ástæða sé til að gera formlega greinarmun á eðli jafnréttis sem grunnþáttar í menntastefnu á öllum skólastigum annars vegar og jafnréttismálum sem námsgreinar í grunnskóla. Gott er hins vegar að frétta að sömu megináherslur eigi að liggja til grundvallar báðum hugtökunum.

Í sameiginlegum hluta aðalnámskrár allra skólastiga 2011 sem finna má á vef ráðuneytisins er m.a. fjallað um jafnrétti sem grunnþátt. Í þeirri vinnu var m.a. byggt á niðurstöðum rýnihóps sem vísað er til í 1. spurningu fyrirspurnarinnar:

Í aðalnámskrá grunnskóla - og líka í aðalnámskrá leik- og framhaldsskóla segir m.a. (tilvitnun valin af menntamálaráðuneytinu): ,,Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, kennsluhátta og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum þarf að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks."

Ef farið verður eftir þessu er lítið að óttast annað en tímaskort. En í drögunum er líka lögð áhersla á að „Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra" [feitletrun mín]. Lögð er sérstök áhersla á að skólakerfið nýti sér nýjar fræðigreinar á borð við kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði. Það er líka vísað í lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Því er ljóst af grunnþættinum að kynjajafnrétti á að skipa stóran sess í skólunum, en ekki á kostnað annars jafnréttis og mismununar, enda er einnig sagt: „Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta." Vonandi bera þeir sem vinna að námskrá samfélagsgreina gæfu til að vinna vel úr þessum leiðbeiningum og skipa kynjajafnréttisfræðslu í það öndvegi sem hún hefur átta vera í í þau 36 ár sem ákvæði hafa verið um hana í lögum um kynjajafnrétti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Vonandi leysir þetta öll okkar vandamál. Og skýrir hegðun okkar og viðbrögð.

Sigurjón Benediktsson, 10.8.2011 kl. 23:14

2 identicon

Heimspeki er líka grein sem er gríðarlega mikilvæg til þess að rannsaka hugsun, hugmyndir og hefðir sem við búum við. Ég held að feminísk heimspeki gæti hjálpað mikið til þess að sporna við mismunun í skólunum, bæði hjá nemendum og starfsfólki.

Sigurlaug Hreinsdóttir 12.8.2011 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband