Uppeldi og menntun - 1. hefti 2011

Út er komið vorhefti tímaritsins Uppeldis og menntunar með fjölbreyttu efni. Fyrsti hluti þess er viðtal við Jón Torfa Jónasson sem tók við starfi forseta Menntavísindasviðs þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust. Í viðtalinu lýsir Jón Torfi sjónarmiðum sínum til menntunar og spyr gagnrýninna spurninga um helstu viðfangsefni nútímans og úrlausnarefni framtíðarinnar. Sjá efnisyfirlit.

Í heftinu eru fjórar ritrýndar greinar og fimm ritdómar um sex rit úr flokkum námsefnis og rannsókna. Ritrýndu greinarnar spanna ólík viðfangsefni á sviði menntunarfræða og fjalla um orðaforða, leikskólastefnur, námskrá hönnunar og smíði og loks námsmat í grunnskólum. Þrír dómanna eru um nýjar bækur og námsefni á sviði kynjajafnréttis ætlaðar þremur ólíkum skólastigum, einn dómur er um tvær bækur um tónlistarkennslu og einn er um bók sem lýsir rannsókn um aðstæður nemenda með þroskahömlun.

Tímaritið uppfyllir núna 17 skilyrði af 18 sem tímarit eru metin eftir í stigakerfi fræðimanna í háskólunum og telst þannig standa jafnfætis mörgum erlendum tímaritum að gæðum og höfundur fær 15 stig í launakerfi háskólafólks fyrir birtingu greinar í tímaritinu. Leiðbeiningar fyrir greinarhöfunda eru á netinu, bæði á íslensku og ensku.

Hægt er að panta áskrift og einstök tölublöð hjá SRR í síma 525 5980 eða á netfangið mvs-simennt@hi.is. Nýjum áskrifendum gefst kostur á að kaupa eldri rit á afsláttarverði. Uppeldi og menntun er einnig fáanlegt í Bóksölu kennaranema, Stakkahlíð, Bóksölu stúdenta, Hringbraut og í öllum stærri bókaverslunum. Eldri árgangar tímaritsins eru nú komnir á vefinn timarit.is og yngri árgangar eru birtir á vef tímaritsins, með eins árs birtingartöf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband