31.10.2010 | 10:39
„Skólinn á ekki að sinna trúboði"
Ofangreind orð [heiti greinarinnar] eru tilvitnun í páskapredikun sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups (sjá frétt Morgunblaðsins 29. mars sl.). Í predikuninni sem útdráttur var fluttur úr í ýmsum ljósvakamiðlum um helgina kvartaði hann undan því að fámennur þrýstihópur vildi koma fræðslu um kristni út úr skólum.
Trúboð eða fræðsla?
Nú veit ég ekki þrýstihóp" sr. Karl á við, en tel þó líklegt að hann vísi m.a. til mikillar umræðu sem varð fyrir skömmu um trúarbragðafræðslu og trúboð í skólum, m.a. í kjölfar málþings sem vinstri grænir stóðu fyrir um miðjan febrúar sl. Á málþinginu og umræðum í kjölfarið komu fram alvarlegar upplýsingar um umfang trúboðs í opinberum skólum, m.a. um kristið bænahald. Ég minnist sérstaklega samtals við grunnskólastjóra í Keflavík sem sá hreint ekkert athugavert við bænahald í skólanum hjá henni.
Í ljósvakamiðlunum, sem ég fylgdist með um páskana, var ekki birtur sá hluti predikunar sr. Karls sem ég setti í fyrirsögnina. Hún er þó lykill málsins: Skólinn á ekki að sinna trúboði". Hvorki leik-, grunn-, framhalds- né kennaraskólar eiga að boða trú. Hins er það einmitt trúboð í skólum, ógagnrýnar kirkjuferðir og bænahald sem valda því að baráttufólk fyrir trúfrelsi og frelsi til trúleysis treystir ekki skólum til að stunda hlutlaust fræðslustarf um trúarbrögð. Gagnrýni á slíkar tilhneigingar til trúboðs, þ.e. rugling á trúboði og fræðslu, kom fram á nefndu málþingi, m.a. í máli sr. Sigurðar Pálssonar, en hann var um alllangt skeið námstjóri í menntamálaráðuneytinu og þekkir e.t.v. manna best stöðu þessara mála. Sr. Karl þarf því ekki að vera undrandi á að kristindómsfræðslan sé gagnrýnd. Hverjir skyldu stunda slíkt trúboð? Eru það kristnir kennarar sem þekkja ekki muninn á trúboði og fræðslu? Eða er prestum án kennaramenntunar enn þá falin kristindómsfræðslan í einhverjum skólum?
Kristindómur og ásatrú í sögu þjóðar
Að mínum dómi er ekkert óeðlilegt við talsvert mikla kristindómsfræðslu en hún ætti ekki að vera sérstök námsgrein heldur hluti af menningarfræði, lífsleikni, siðfræði eða samfélagsfræði, og ef fólk vill, trúarbragðafræði. Sérstaklega er þetta mikilvægt vegna þess að íslensk menning verður tæpast skilin án umtalsverðrar þekkingar á tvennum trúarbrögðum umfram önnur, þ.e. kristinni trú og ásatrú. En mörg önnur trúarbrögð eru þó vissulega samofin sögu okkar og nágrannalanda okkar, ekki síst íslam. Þar að auki er kristni ein af meginstoðum íslenskrar löggjafar og þess siðgæðis sem flestir vilja rækta með ungu fólki. Síst af öllu gæti ég, sem er menntaður sem sögukennari, borið á móti slíkum staðreyndum.
Það hlýtur því að vera til vansa að trúlaust fólk og fólk af minnihlutatrúarbrögðum telji sig knúið til að taka börn sín úr kristindómstímum - vegna trúboðs - þannig að þau fari á mis við mikilvæga fræðslu. Eða einstaklingar í hópi kennara sem ekki tilheyra lútersku þjóðkirkjunni treysti sér ekki til að kenna kristin fræði, einmitt kannski af því að þau heita kristin fræði og önnur trúarbrögð" eru þar sem einhvers konar viðhengi. Að ógleymdum rétti fólks til að aðhyllast engin trúarbrögð.
Hins vegar veldur það óþörfum ruglingi að kalla námsgreinina kristin fræði og mér finnst að lúterska þjóðkirkjan þurfi að sætta sig við að setja innihaldið ofar forminu. Eða vill kirkjan kannski njóta forréttinda í opinberum skólum? Það er alls ekki hægt að verjast þeirri hugsun eftir að hafa lesið fréttir af predikuninni og heyrt þungann í rödd sr. Karls í því sem var tekið upp í fréttum Ríkisútvarpsins.
Frelsi til trúleysis
Sr. Karl óttast að skólar komi til með að láta sem trú skipti ekki máli" og e.t.v. er það rétt að einhver skoðanasystkina minna í baráttu fyrir trúfrelsi og frelsi til trúleysis telji svo vera og vilji veg trúar og rétt þeirra sem aðhyllast trú sem minnstan. Ég hef bara ekki orðið var við þetta sjónarmið í þeim hópi fólks sem ég umgengst heldur þvert á móti að fjölmargir þeirra sem berjast fyrir þess háttar frelsi telja að trú skipti mjög miklu máli - væri ekki annað að lemja höfðinu við steininn? En við gerum þá réttlætiskröfu að trúleysi sé virt jafnt og trúarbrögð í opinberum skólum - annað væri mismunun.
Aðskilnaður leik- og grunnskólastarfs frá kirkjustarfi og trúboði er bersýnilega afar brýnt verkefni miðað við þær upplýsingar sem komu fram á málþingi vinstri grænna og í umræðum í samfélaginu í kjölfar þess. Að þessu þarf að huga í yfirstandandi námskrárvinnu á vegum menntamálaráðuneytis. Um þetta erum við sr. Karl greinilega alveg sammála ef ég skil orð hans rétt, þótt vera kunni að okkur greini á um leiðir til þess. Þannig vill hann að Kennaraháskólinn (og væntanlega þá einnig aðrir kennaraskólar) skipi kristni og öðrum trúarbrögðum meðal kjarnagreina. Ég tek undir að það þurfi að efla þekkingu kennara á því hvernig á að kenna um trú og trúarbrögð en efast stórlega um að pláss sé fyrir kristin fræði sem skyldugrein í kennaranámi meðan bitist er um hverja vinnuviku í því námi. Kannski sameining trúarbragðafræða við menningarfræði eða lífsleikni og siðfræði gæti aukið það rými?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.