Ekið fyrir Skaga

Ég ók fyrir Skaga í sumar sem auðvitað er ekki í neinar sérstakar frásögur færandi nema að ég hafði aldrei komið norðar en til Blönduóss, Húnaflóamegin, og aldrei norðar en Sauðárkróks, austanmegin á Skaganum. Fyrst og fremst var þetta ökuferð í góðu veðri til að njóta landslagsins - en ekki vegarins sem er malarvegur frá Skagaströnd að vestan og að nýjum vegi yfir Þverárfjall, 16 km norðan Sauðárkróks - og sums staðar mjór - en maður kemst þetta nú á hvaða bíl sem er ef ekið er á skynsamlegum hraða.

Mest á óvart kom Kálfshamarsvík, útgerðarstaður frá fyrri hluta síðustu aldar og fór í eyði fyrir ca 70 árum. Hann er Húnaflóamegin. Þar er búið að koma upp ýmsum upplýsingum og merkja stuttar gönguleiðir og jafnvel búið að koma upp hreinlætisaðstöðu. Höfn frá náttúrunnar hendi og falleg náttúra, og viti. Kjörinn áfangastaður, a.m.k. í jafngóðu veðri. T.d. hægt að setja niður og borða nestið sitt.

Minna kom á óvart hvað Skagaströnd er glæsilegt byggðarlag.

Eitt fór í pirrurnar á mér eftir að hafa ekið og notið náttúru og útsýnis: Norðan á Skaganum var stórt svæði þar sem búið er að planta lúpínu og eftir að hafa ekið í gegnum lúpínulaust svæði langa leið stakk þetta gríðarlega í augu. Mig minnir þetta heiti Ásbúðir. Enn sem komið er sýndist lúpína vera að mestu innan girðingar - en ég held að hún virði ekki girðinguna, enn síður en túnrollur. En kannski má beita fé í þetta áður en lengra fer.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Það er nú svo ágætt með það að Lúpína þolir ekki beit eða slátt og þar sem í henni er eiturefni sem virkar sem "rúsgift"  svo rollurnar sækja í hana.    Þarna lifir fátt annað en krækilyng, melapungur og aðrar harðgerar plöntur.   Er verið að reyna að auka frjómagn jarðvegsins svolítið og jafnvel skapa skjól þarna á berangrinum.   Það er enginn óravegur í heimskautsbauginn þarna!

Þó þetta stingi í augun þá skilar þetta e.t.v. einhverju til baka síðar til ábúendanna/landeigendanna.    Útsýnið yfir "eyðimörkina" er e.t.v. áhugavert í skamman tíma en verður leiðigjarnt!

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiríksson, 7.8.2010 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband