Traust efnahagsstjórn?!

Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur mælst með ódýrustu auglýsingarnar í kosningabaráttunni, sækir nú í sig veðrið við að auglýsa og leggur áherslu á trausta efnahagsstjórn, t.d. í einni sem sýnir forsætisráðherra í helgarjakka og blárri peysu utan yfir fráhnepptri skyrtu. Fullyrt er að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. En fyrir hvern? Í auglýsingunni - sjá t.d. Moggann 6. maí, bls. 41 - er beitt markvissum blekkingum með því að fullyrða að kaupmáttur hafi aukist um 75% frá árinu 1994 og atvinnuleysi „sem áður var mikið vandamál er nú svo að segja óþekkt". Blekkingin felst í að velja upphafsár til samanburðar á hagstæðan hátt - Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega verið óslitið við völd frá 1991. Fyrstu árin eftir valdatöku hans voru heilmikil atvinnuleysisár, sennilega þau mestu frá því í heimskreppunni milli 1930 og 1940. Af hverju velur flokkurinn ekki upphafsárið 1991 til samanburðar? Er sá samanburður ekki nógu hagstæður?

Skuggahliðar velmegunar Sjálfstæðisflokksins eru því miður æði margar: Versnandi tannhirða barna ætti ekki að eiga sér stað í svo ríku landi. Fátækt fólks með börn veldur óþolandi aðstöðumun barna á grunnskólaaldri til tómstundaiðkunar. Aðbúnaður háskólanema hefur ekki batnað í takti við fjölgun þeirra enda eru framlög ríkis á nemanda með þeim lægstu sem þekkist í sambærilegum löndum - og nemendur þurfa að borga þó nokkurt skrásetningargjald. Við sem störfum í Háskólanum á Akureyri munum vel fjárskortinn hér fyrir einu til tveimur árum. Og Háskólinn er líka tilraunastofa einkavæðingar í húsnæðismálum. Lyfja- og lækniskostnaður stórhækkaði, sennilega mest á fyrstu stjórnarárunum. Rányrkja á náttúrunni er gífurleg en síðast en ekki síst hafa auðlindir verið afhentar kvótakóngum og álfurstum - það er ekki bara Framsóknarflokkurinn sem ber ábyrgð á eyðileggingu náttúrunnar, þótt ég ætli nú ekki bera sérstakt blak af honum.

Almenn stefna Sjálfstæðisflokksins felst í því að hygla þeim ríku á kostnað þeirra smáu. Honum hefur orðið ágengt í þessum efnum - það sýnir t.d. þróun skattleysismarka. Þetta þarf að stöðva í kosningunum á laugardaginn þannig að takist að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Atkvæði greitt vinstri grænum - XV - er atkvæði greitt aukinni velferð og meiri jöfnuði, gegn fátækt og með náttúruvernd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan pistil Ingólfur. Þetta er einmitt málið. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 7.5.2007 kl. 23:25

2 identicon

Ætli ástæðan fyrir ártalinu 1991 sem viðmiði sé ekki notuð til þess að vera ekki að styggja samstarfsflokkinn um of frekar en að menn skammist sín fyrir tímabilið.

Óli GH 8.5.2007 kl. 00:12

3 identicon

Já Sjálfstæðisflokkurinn ætlar enn að leika úlfinn í sauðagærunni. Allt svona gott og fallegt, eins og í baráttunni fyrir sveitastjórnarkosningarnar og seinast til Alþingis. Og samkvæmt því sem fram kom í umfjöllun um stjórnamálaauglýsingarnar í sjónvarpinu í gær þá skoðar fólk bara myndir og fyrirsagnir en kynnir sér ekki innihald umræðunnar. Sorglegt. Fáir flokkar græða eins á því og íhaldið, því það kann að setja upp glæsta framhlið þó innistæðan á bakvið sé ekki mikil. Efnahagsstjórnin sem menn guma er af er einmitt dæmi um þetta. Hámenntaður framhaldsskólakennari var t.d. að skoða bókhaldið sitt aftur í tímann. Síðustu 5 árin hafa laun hennar hækkað um 12.000 krónur á mánuði, en á sama tíma hafa t.d. fasteingagjöld, afborganir af íbúð, tap á barnabótum og vaxtabótum vegna jarðarskattaáhrifa leitt til þess að kostnaður hennar hefur aukist um rúm 80.000 á mánuði. Ekki vegna tilverknaðar hennar sjálfrar heldur vegna efnahagsstefnunnar. Og þó hægt sé að fá út meðaltalskaupmáttaraukningu þá dugar slíkt skammt á móti hinu. Kennarinn er því í sömu sporum og svo margir aðrir, alls konar aukaverkanir sem lenda á almenningi gera það að verkum að erfiðara er að láta enda ná saman, þrátt fyrir allt tal um góðæri. Vonandi man fólk eftir því á kjördag og lætur ekki úlfinn í pelsinum plata sig.

Friðrik Dagur Arnarson 8.5.2007 kl. 12:08

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir þetta, Hlynur, Óli og Diddi!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.5.2007 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband