Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Steep & Brew

Sit á einu af uppáhaldskaffihúsunum mínum, Steep & Brew á State Street í Madison, Wisconsin, á leið yfir í kennaradeildina, um tíu mín. gang héðan þar sem ég mun sitja við vinnu í dag í rannsóknarmisseri mínu. Ég hef nú verið í Bandaríkjunum í rúmar tvær vikur og fylgst með kosningabaráttunni. Út um alla borg eru Obama-Biden skilti fyrir framan húsin og í gluggum þeirra. Og í mörgum verslunum er lýst yfir stuðningi við þá félaga. Hið sama gilti um úthverfi Cleveland, Shaker Heights og Cleveland Heights, þar sem ég dvaldi í síðustu viku, en þó ekki jafnsamfelldur stuðningur og hér og fleiri McCain-Palin skilti þegar lengra dró frá miðborginni.


mbl.is McCain sakar Obama um vanhæfni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagstofnanir eða pólitíkusar?

Nú er auðvitað bankakreppa hápólitískt mál, afleiðing af auðvaldskerfi, of óskýrum eða lítilfjörlegum reglum og óheftum vaxtarhugsunarhætti - og pólitíkusar þurfa að fást við vandann og taka pólitískar ákvarðanir þegar við á. En um margt af þessu hlýtur að þurfa fagfólk í bankastarfsemi.

Og ég tók eftir því, íslenska fjármálaráðherranum til hróss, að hann beinlínis reyndi að snúa hinn breska af sér og það ættu að vera Fjármálaeftirlit landanna tveggja sem myndu reyna að leysa það mál sem ráðherrarnir tveir ræddu um í símtalinu fræga. Ég get ómögulega skilið hvers vegna viðtalið var ekki birt strax: Var það trúnaður við breska fjármálaráðherrann sem sneri því Árni sagði á haus? Ég get þá a.m.k. ekki séð annað en Darling hafi rofið slíkan trúnað. Það skaðaði traust til stjórnvalda að leyna viðtalinu, fékk mann til að trúa að Árni hefði sagt einhverja vitleysu, þegar hann í raun og veru reyndi að fá Darling til að fara faglegar leiðir. Vonandi hefur Darling ekki með yfirlýsingum sínum skaðað hagsmuni þeirra sem hann þóttist ætla að verja!


mbl.is „Var ekki í nokkrum vafa eftir samtalið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarföt?

Óneitanlega minnir þetta á umræðuna um föt frambjóðenda Framsóknarflokksins, sem upp kom snemma á þessu ári. Er þessi umræða til marks um málefnafátækt - eða er verið að benda á ósamræmi í málflutningi og gjörðum?
mbl.is Sarah Palin kastar fínu fötunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Capitalism and deregulation (auðvald, afnám regluveldis)

Á ferð minni um Bandaríkin sl. tvær vikur hafa margir spurt um bankamálin og ástandið á Íslandi. Þetta er reyndar frekar hvimleitt umræðuefni en það var samt fljótlegt að útskýra orsakirnar: auðvaldsskipulagið og sem fæstar reglur settar eigendum fjármagns - og skilja flestir hvað muni hafa gerst. Það reyndist heldur ekki erfitt að útskýra einkavinavæðinguna, sem ég held að Framsóknarflokkurinn vilji nú ekkert við kannast þótt hann væri á fullu í þessu öllu saman með Sjálfstæðisflokknum í tólf ár. Einkavinavæðingin er líka þekkt í Bandaríkjunum. En mikið hefði verið gaman að Íslandi hefði verið stjórnað þannig að slíka hluti þyrfti ekki að útskýra því að ljóst er að áhrifin er ekki góð fyrir landið.
mbl.is Norðurlöndin sameinist í aðstoð við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr skilaboð

Hætta að flækjast fyrir, segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokkins. Jamm, það kemur alls ekki á óvart að íhaldið biður um að lögum verði breytt eða frá þeim vikið og umhverfisáhrif ekki metin. Á náttúra Íslands líkt og efnahagur þjóðarinnar að gjalda fyrir ófarirnar í bankamálunum? Ég segi nei við því. Gott að heyra að ekki er bilbugur á umhverfisráðherra sem svaraði Jóni alveg skýrt og nefndi reyndar í leiðinni að Alcoa virtist ekkert vera að flýta sér.


mbl.is Allt í fína á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðubréf eða óreiðubréf

Fyrir um það bil 15 árum kom fram á aðalfundi Hagþenkis, félags höfbunda fræðirita og kennslugagna, að gjaldkerfi geymdi fjármuni félagsins í reiðubréfum hjá einhverjum bankanum, líklega Íslandsbanka sem síðar skipti um nafn og heitir nú Glitnir. Hrósuðu fundarmenn gjaldkeranum mjög fyrir að hafa ekki sett féð í óreiðubréf og þótti fyndið. En það er bara ekkert fyndið það sem hefur gerst nú að fólk hefur misst fjármuni sína vegna kaupa á alls konar bréfum sem ekki eru innistæðutryggð með sama hætti og innlánsreikningar. Vitanlega er þó ekki rétt að tala um ótrygg bréf sem óreiðubréf heldur hafa þau að mér skilst reynst glæfrabréf, ekki pappírsins virði eins og sagt er, enda líklega oft á tíðum engin bréf, heldur rafrænar færslur.

(Gjaldkeri á þetta víst að vera, ekki gjaldkerfi!)


mbl.is Gengi bréfa bankanna 0 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera vitur eftir á - eða fyrir fram

Hinar miklu hamfarir bankakerfisins virðast koma flestum á óvart og valda okkur öllum vonbrigðum og mismunandi miklum efnahagslegum áföllum – en áttum við að vera hissa? Ekki við sem höfum lesið marxísk fræði; við vitum um það eðli auðvaldsskipulagsins að það verða kreppur þar sem margir verða illa úti. Við vitum líka að það væri í grundvallaratriðum rangt að dæma í öllum tilvikum í einstaklingana sem vissulega kunna að vera valdir að þeim óförum sem bankarnir nú lenda í, því að það er kerfið, hugmyndafræði einkaeignarinnar, sem veldur óförunum, en ekki misvitrar gjörðir bankafólksins, þótt slíkar misvitrar gjörðir hafi ábyggilega verið fjölmargar. Auðvitað er rétt að ná með lögum yfir þá sem hafa hagað sér glæpsamlega og ef til vill komið fjármunum sínum undan á óheiðarlegan hátt.

Nú um stundir er rétt og mikilvægast að endurskoða hina pólitísku stefnu áður en fleiri félagsleg kerfi eru einkavædd. Síðustu daga hefur nefnilega komið í ljós að í raun er banka- og fjármálakerfið líka félagslegt kerfi – sem þarf að vera gangandi til að fólk og fyrirtæki geti gengið að sínum daglegu störfum.

Við vinstri græn vildum ekki einkavæða bankana og alls ekki með þeim hætti sem það var gert. Við vinstri græn erum því ekki vitur eftir á – heldur vitur fyrir fram. Reyndar tala ég ekki hér sem talsmaður flokksins þannig ég man ekki nákvæmlega hvað vinstri grænu forystumennirnir sögðu; þannig man ég ekki fyrir víst hvort alþingismenn flokksins lögðu áherslu á til þrautavara að einkavæða bara annan ríkisbankann í einu, þ.e. Búnaðarbankann eða Landsbankann. En ég man að sumt af því sem vinstri græn sögðu var afgreitt sem afturhalds- og svartsýnisraus. Enda held ég fáa hafi órað fyrir þeim hamförum sem átt hafa sér stað síðustu daga – nema kannski þá sem best héldu við marxismanum sínum.

mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnufundur um verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð

Undanfarin misseri hef ég tek þátt í því áhugaverða starfi sem er uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs, sl. ár í svæðisráði norðursvæðis og þar á undan í nefnd sem undirbjó lög um þjóðgarðinn. Á morgun verður vinnufundur stjórnar og svæðisráða, haldinn í Mývatnssveit, þar sem undirbúnar verða verndaráætlanir um þjóðgarðinn. Verndaráætlun heitir á ensku management plan og er í rauninni framkvæmda- og skipulagsáætlun. Þar verður tekið fram hvaða verndarstig er á hverjum hluta þjóðgarðsins.

Ég vona að það takist á vinnufundinum að móta heildstæðar hugmyndir um uppbyggingu gönguleiða í þjóðgarðinum. Ég á mér þann draum að það verði kerfi leiða þannig að hægt sé að ganga báðum megin Jökulsár á Fjöllum og að það verði hringleið um jökulinn og svo verði gönguleiðir til sjávar fyrir sunnan jökul og í Lóni og ef til vill víðar fyrir suðaustan jökulinn. En út frá þessum leiðum þurfa líka að vera gönguleiðir niður í byggð, t.d. frá Dettifossi til Mývatnssveitar og frá Herðubreiðarlindum og Öskju niður í Bárðardal og niður í Mývatnssveit. Margar af þessum leiðum eru til staðar, en það þarf að setja þær fram sem heildstætt kerfi sem getur orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, erlenda sem innlenda, og finna nýjar leiðir og enn fjölbreyttari.

Ég býst einnig við því að rætt verði um hvers konar vegir og bílslóðir skuli vera í þjóðgarðinum því að áætlun um þá þarf auðvitað að vera í slíku plaggi sem verndaráætlunin verður. Miklu skiptir að vegir falli sem best að landinu en það á því miður ekki við um þann veg sem nefndur er Dettifossvegur og á að liggja að hluta til um Vatnajökulsþjóðgarð, bæði þann hluta sem áður tilheyrði þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum, svo og frá Dettifossi upp á þjóðveg um land sem þyrfti að tilheyra þjóðgarðinum þegar fram líða stundir. (Sjá fyrri blogg - og annað blogg.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband