Frístundabyggð í Mývatnssveit

Umhverfisráðherra hefur í trássi við fagstofnanir sínar, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, veitt heimild til frístundabyggðar í landi Voga í Mývatnssveit, líka í trássi við a.m.k. suma nágrannana ef marka má frétt DV í dag. Undanfarna áratugi hefur verið staðið fast á bremsunni gagnvart slíkri byggð við Mývatn og í nágrenni þess – í þeim tilgangi að vernda vatnið og landið. Lögum um Mývatn og Laxá var breytt 2004 þannig að verndarákvæði um vatnið sjálft, ána og vatnasviðið eru nú mun sterkari en fyrr – þ.e. ef farið væri almennilega eftir lögunum (sjá 4. gr.). Í lögunum er tekið fram að gera skuli verndaráætlun. Þar skal „m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu. Verndaráætlunin skal gerð í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, hagsmunaaðila og umhverfisverndarsamtök á svæðinu og stofnanir sem starfa lögum samkvæmt á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar” (6. gr.). Þessi verndaráætlun hefur ekki verið gerð. Án þess að það varði meira eða minna þessa tilteknu byggð, hef ég efasemdir um að leyfisveiting yfirleitt til frístundabyggðar eigi rétt á sér því að vatninu stafar hætta af aukinni byggð og umferð – fyrir utan að mikil frístundabyggð getur skert umferðarrétt almennings. Verndaráætlun, sem er sama stjórntækið og á að gilda um Vatnajökulsþjóðgarð, á hins vegar að geta að hluta til komið í veg fyrir deilur um einstakar athafnir stjórnvalda. Því verður að krefjast þess af Umhverfisstofnun að ljúka hið snarasta við verndaráætlunina – og af ráðuneytinu að reka á eftir henni við það. Og varla vilja sveitungar mínir, hvorki Vogungar né aðrir, standa í deilum hver við annan um einstök svæði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alma Lísa Jóhannsdóttir

Smá kveðja frá Suðurkjördæmi, er nú stödd við rætur Vatnajökuls - Höfn...  það þarf víða að vera á varðbergi.....! Kærar baráttukveðjur Alma

Alma Lísa Jóhannsdóttir, 3.5.2007 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband