Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Að skjóta IMF!

Fræg er sagan af afrískum einræðisherra sem átti hafa sagt "við bara skjótum hann!" þegar ráðgjafar hans bentu sífellt á að hitt og þetta mætti ekki vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) leyfði það ekki. Það er með öllu óþolandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlist til þess að ábendingum hans við frumvörp sé haldið leyndum. Slík leynd er illa fallin til að vekja traust á vinnubrögðum stjórnvalda. Þannig höfum við ekki hugmynd um hvort athugasemdir hans eru í rauninni "tæknilegar" eða hvort þær eru pólítísk afskiptasemi.

Ef út í það er farið eru aftur á móti fátt sem er bara tæknilegt og ekki pólítískt - en það er ein af aðferðum nýfrjálshyggjunnar til að koma málefnum sínum áfram, sbr. greiningu á stjórnunar- og vandamálavæðingu skólakerfisins að halda því fram að hápólítískar breytingar séu tæknileg útfærsla. Ég trúi ekki að athugasemdir Alþjóðagjaldleyrissjóðsins séu bara tæknilegar, en það er þó ekki útilokað að þær geti verið skynsamlegar í baráttunni gegn hinni alvarlegu útgáfu af nýfrjálshyggjunni sem Ísland varð fyrir barðinu á.


mbl.is Tæknilegar ábendingar í trúnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisráðuneytið lykilráðuneyti eða skiptimynt?

Engum kom á óvart að í fyrstu ríkisstjórn sem VG situr í skuli flokkurinn fara með umhverfismál. Við vinstri græn fögnum því ákaflega Kolbrúnu Halldórsdóttur sem umhverfisráðherra og vonum að seta hennar og flokksins í ráðuneytinu verði sem lengst og vegur ráðuneytisins verði aukinn. Umhverfissinnar hafa að mínum dómi einnig ástæðu til að fagna því að vinstri græn hafa nú tekið við ráðuneytinu. Aftur á móti, þótt ég tali í rauninni aðeins fyrir mig, en hvorki samtökin sem ég er í forsvari fyrir (SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi) né aðra umhverfissinna, þá er síst af öllu rétt að fagna brotthvarfi Þórunnar Sveinbjarnardóttur úr ráðuneytinu heldur þakka henni fyrir að hefja ráðuneytið til meiri vegs en áður. Ég held reyndar að niðurlægingunni hafi verið náð á tímabili Sivjar Friðleifsdóttur, en það er önnur saga. Það sem olli Þórunni mestum erfiðleikum var að hún var ekki nægilega vel studd af eigin flokki og alls ekki af samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Starf Kolbrúnar er líklega auðveldara af því að hún tekur við af Þórunni en ekki ráðherrunum sem sátu á undan henni.

 Mér finnst við þessi stjórnarskipti það samt hafa gerst enn á ný að umhverfisráðuneytið, sem flæmdist á milli stjórnmálaflokka og ráðherra á kjörtímabilinu 2003-2007 sem skiptimynt í stað forsætisráðuneytisins, hafi verið notað sem eins konar skiptimynt, eina ráðuneytið sem Samfylkingin sleppir til VG. Hin hliðin er sú að VG hefði hlotið að krefjast þess að fá umhverfisráðuneytið ef flokkurinn settist í ríkisstjórn - sama hver átti í hlut. VG þarf því nú að standa undir því merki að umhverfisráðuneytið verði lykilráðuneyti en aldrei aftur skiptimynt. Ráðuneytið þarf að fá aukið vald og fleiri málaflokka, meiri mannafla og sterkara umboð til að mæta ekki afgangi, til dæmis þarf að verja sambærilega miklu fé í að undirbúa náttúruverndaráætlun og gert er við rammaáætlun um orkunýtingu sem nú er í undirbúningi. Þá má nefna að Umboðsmaður Alþingis hefur oftar en einu sinni þurft að finna að seinlæti í málsmeðferð á stjórnsýslukærum. Ráðuneytið vann gott starf við að koma Vatnajökulsþjóðgarði á koppinn, starf sem ekki má raskast við ráðherraskipti, en verra er að aðeins tvö af þeim fjórtán svæðum sem til stóð að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun Alþingis 2004-2008 voru friðlýst. Kolbrún getur eflaust ekki miklu rótað á 80 dögum, þótt hún sé dugleg, en vonandi verður hún lengur í ráðuneytinu.


mbl.is Fjármál Lúðvíks komu í veg fyrir ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan undir 200 metrum?

Þetta er nokkuð veglegt tap og nú bíð ég spenntur eftir yfirlýsingum frá forstjórum Kaupþings um að þeir hafi verið beittir óréttlæti, því að í hvert skipti sem koma fram upplýsingar um hina ótrúlegu ævintýramennsku sem virðist hafa viðgengist koma slíkar yfirlýsingar.

Það var því nokkuð hressandi þegar ég hitti Guðrúnu í Svartárkoti um daginn og minntist eitthvað á kreppuna við hana - en hún bar sig vel og taldi enga kreppu þarna uppi á brún hálendisins, því að kreppan næði bara 200 metra yfir sjávarmál! Svartárkot verður líka væntanlega eitt af hliðunum inn í Vatnajökulsþjóðgarð og þótt hann hafi enn ekki leitt af sér mikla uppbyggingu á jaðarsvæðunum mun hann leiða gott af sér - en hann mun þó væntanlega ekki fá þúsund milljarða til eins né neins, heldur var gert ráð fyrir að stofnun hans kostaði rúman milljarð.


mbl.is Afskrifa tæpa þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umbætur í námslánum

Vonandi verða menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, þau Katrín og Steingrímur, samtaka um endurskoðun úthlutunarreglna LÍN - ég set ekki spurningarmerki í fyrirsögnina vegna þess að ég treysti því að svo verði. Ástæða þess að ég minnist á þetta er nú samt sú að þegar við háskólastúdentar gengum einhvern tíma á fund Ragnars Arnalds sem var menntamálaráðherra í rúmt ár, 1978-1979, og kvörtuðum undan einhverju í sambandi við námslánin, vísaði hann okkur að fjármálaráðherra réði nú meiru um fjármálin en hann! Ekki man ég hver var fjármálaráðherra, en hitt man ég að í febrúar 1980 tók Ragnar við því ráðuneyti og hafði fjármálin með höndum í þrjú ár. Á þeim tíma voru sett ný lög þar sem krafist var aukinnar endurgreiðslu og endurgreiðslutímabilið lengt úr 20 árum í 40 ár þannig að skuldin verður ekki felld niður mun ég borga af námsláninu mínu til 77 ára aldurs. Ég man reyndar ekki hverju Ragnar svaraði þá, held að fyrra svarið hafi verið ofurlítið vanhugsað. En ég segi þessa sögu hér þeim flokksforingjum mínum til aðhalds og þó ekki síður stuðnings.

Ástæður hafa kannski aldrei verið ríkari en í dag að koma til móts við fólk sem hefur haft sæmilegt kaup og stendur nú uppi atvinnulaust, en fær ekki lán samkvæmt núgildandi reglum, skilji ég rétt. Námslánakjörin sem ég bý við frá árunum 1976-1983 og aftur 1987-1991 eru hagstæð; ég borga því meira sem tekjur mínar aukast. Þeir sem tóku lán eftir 1992 þurfa að borga hærra hlutfall. Fyrirkomulagið um að borga eftir tekjum að námi loknu er afar sanngjarnt og kemur að hluta til í staðinn fyrir námsstyrki, kannski sanngjarnara þegar upp er staðið. Hinu má heldur ekki gleyma að aukin háskólamenntun og annað lánshæft nám er líka þjóðarhagur, og það er þjóðarhagur að ungt fólk á öllum aldri geti stundað nám, til dæmis til að standa betur að vígi á vinnumarkaði.

Loks má ekki gleyma manninum sem varð fyrir námsláni; hann fékk góðar einkunnir þótt hann hefði eiginlega ekki búist við því.


mbl.is Vék stjórn LÍN frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningarök hvalveiðisinna

Íslenskir hvalveiðisinnar eru mikið tilfinningafólk og taka engum öðrum rökum en tilfinningum sínum um að rétt sé að veiða hval. Mikil er líka trú þess um að hvalveiðar skapi atvinnu - sérstaklega ef það er nú borið saman við hvalaskoðun.

Ég get ekki sannað svo óyggjandi sé að hvalveiðar skemmi fyrir ferðamennsku. Sumt ferðafólk vill bæði sjá hval og borða eitthvað sem annars staðar fæst ekki - ferðafólk getur verið tækifærissinnar í þessum skilningi, þ.e. að grípa tækifæri til upplifunar. En samt: Miklu færri sjá nú hvali í ferðum frá Húsavík skv. upplýsingum sem ég sá nýlega hafðar eftir Herði Sigurbjörnssyni hjá Norðursiglingu. Þannig skemma hvalveiðar með beinum hætti fyrir möguleikum hvalaskoðunar. Hvað þarf til að slíkar upplýsingar séu sönnun?

Ég hef líka orðið var við hrokagikkshátt gagnvart þeim sem vilja horfa á hvali og margir Íslendingar fara ekki að horfa á hval - nema til að skemmta erlendum gestum sínum. Ég er ekkert að undanskilja sjálfan mig þessum merkilegheitum. En ég ber mikla virðingu fyrir því nýsköpunarfólki sem gerði hvalaskoðun að sæmilega vænlegri atvinnugrein sem í sumum tilvikum laðar fólk til landsins sem alls ekki hefði komið.

Dofri Hermannsson bloggar um þetta eins og margt annað skynsamlegt. Hann segir meðal annars: „Að það verði að veiða hval af því hann borðar svo mikið af fiski. Í fyrsta lagi borða ekki allar tegundir hvals fisk og í öðru lagi þyrfti að veiða tugi þúsunda hvala til að heildarmagn af fiski í hvalsmaga minnki svo nokkru nemi." Höfum þetta í huga þegar metin eru tilfinningarök hvalveiðisinna.


mbl.is Meirihluti fylgjandi hvalveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að veiða vísindi

Fræg er sagan af því þegar útvarpsráð fann að gagnrýni Erlings Sigurðarsonar í þættinum Daglegu máli í Ríkisútvarpinu á orðið vísindaveiðar. Hann mun hafa bent á að flest orð um veiðiskap væru mynduð annaðhvort af tegundinni sem ætti að veiða (þorskveiðar, laxveiðar) eða veiðarfærinu sem ætti að nota (netjaveiðar, stangveiði). Orðið vísindaveiðar væri að þessu leyti sérstakt og væri spurning hvort nota ætti vísindin til að veiða með þeim eða hvort veiða ætti vísindin. Mig minnir líka að Erlingur gerði gagnrýnina að umtalsefni í næsta þætti en hvort hann fékk nýja gagnrýni eða var látinn hætta man ég nú ekki.

Hvalveiðar í vísindaskyni sýnast mér í rauninni yfirleitt vera yfirvarp og hætta á að það séu vísindin sem festist í því neti eða verði skotin með þeim skutli. Ég legg til að orðið hvalveiðar verði eftirleiðis skrifað eftir norðlenskum framburði: kvalveiðar. Svo má líka finna upp orðið kvalvísindi í þessu skyni. En hvernig Erlingur myndi bregðast við því af sinni málfræðilegu skarpskyggni veit ég aftur á móti ekki.


mbl.is Japanar neita að hætta vísindaveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband