Umhverfisráðuneytið lykilráðuneyti eða skiptimynt?

Engum kom á óvart að í fyrstu ríkisstjórn sem VG situr í skuli flokkurinn fara með umhverfismál. Við vinstri græn fögnum því ákaflega Kolbrúnu Halldórsdóttur sem umhverfisráðherra og vonum að seta hennar og flokksins í ráðuneytinu verði sem lengst og vegur ráðuneytisins verði aukinn. Umhverfissinnar hafa að mínum dómi einnig ástæðu til að fagna því að vinstri græn hafa nú tekið við ráðuneytinu. Aftur á móti, þótt ég tali í rauninni aðeins fyrir mig, en hvorki samtökin sem ég er í forsvari fyrir (SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi) né aðra umhverfissinna, þá er síst af öllu rétt að fagna brotthvarfi Þórunnar Sveinbjarnardóttur úr ráðuneytinu heldur þakka henni fyrir að hefja ráðuneytið til meiri vegs en áður. Ég held reyndar að niðurlægingunni hafi verið náð á tímabili Sivjar Friðleifsdóttur, en það er önnur saga. Það sem olli Þórunni mestum erfiðleikum var að hún var ekki nægilega vel studd af eigin flokki og alls ekki af samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Starf Kolbrúnar er líklega auðveldara af því að hún tekur við af Þórunni en ekki ráðherrunum sem sátu á undan henni.

 Mér finnst við þessi stjórnarskipti það samt hafa gerst enn á ný að umhverfisráðuneytið, sem flæmdist á milli stjórnmálaflokka og ráðherra á kjörtímabilinu 2003-2007 sem skiptimynt í stað forsætisráðuneytisins, hafi verið notað sem eins konar skiptimynt, eina ráðuneytið sem Samfylkingin sleppir til VG. Hin hliðin er sú að VG hefði hlotið að krefjast þess að fá umhverfisráðuneytið ef flokkurinn settist í ríkisstjórn - sama hver átti í hlut. VG þarf því nú að standa undir því merki að umhverfisráðuneytið verði lykilráðuneyti en aldrei aftur skiptimynt. Ráðuneytið þarf að fá aukið vald og fleiri málaflokka, meiri mannafla og sterkara umboð til að mæta ekki afgangi, til dæmis þarf að verja sambærilega miklu fé í að undirbúa náttúruverndaráætlun og gert er við rammaáætlun um orkunýtingu sem nú er í undirbúningi. Þá má nefna að Umboðsmaður Alþingis hefur oftar en einu sinni þurft að finna að seinlæti í málsmeðferð á stjórnsýslukærum. Ráðuneytið vann gott starf við að koma Vatnajökulsþjóðgarði á koppinn, starf sem ekki má raskast við ráðherraskipti, en verra er að aðeins tvö af þeim fjórtán svæðum sem til stóð að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun Alþingis 2004-2008 voru friðlýst. Kolbrún getur eflaust ekki miklu rótað á 80 dögum, þótt hún sé dugleg, en vonandi verður hún lengur í ráðuneytinu.


mbl.is Fjármál Lúðvíks komu í veg fyrir ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband