Gróðursetjum birki og grávíði í stað Valhallar

Bruninn á Þingvöllum kemur minna á óvart þegar maður fréttir af því að brunavarnir voru ekki í lagi - og fyrir nokkrum árum man ég eftir því að frárennslismál voru líka í ólagi. Húsið hefur verið dæmt næstum því ónýtt og ekki metið vera menningarverðmæti sem ætti að varðveita þess vegna. Húsið hefði því vísast átt að vera búið að rífa fyrir alllöngu. Það ber að fagna að ekki varð manntjón við þessar aðstæður, aðstæður sem lá fyrir að væru ekki í lagi, en ég harma tjón persónulegra muna starfsmanna hótelsins.

Ég tek undir með Sigurði Oddssyni um að best væri að tyrfa yfir reitinn - eða gróðursetja eitthvað af birki og grávíði ef það passar við umhverfið þarna á eyrum Öxarár. Ekki kemur til greina að endurbyggja húsið og það þarf að fara að gera gangskör að því að fækka sumarbústöðum broddborgara við vatnið. Það kemur líka fram í ýmsu sem ritað hefur verið í gær og í morgun að framtíðargistisvæði fyrir Þingvelli á að vera við Skógarhóla.


mbl.is Best að tyrfa yfir reitinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á Þingvöllum stóð lögréttuhús til 1801 þegar það var rifið og niðurlæging staðarins varð alger. Í stað Valhallar ætti að reisa lítið Alþingishús í svipuðum stíl og húsið í Reykjavík, þar sem þingmenn gætu komið saman á hátíðarstundum við þingsetningu og þingslit og hægt væri að hafa fundi og móttökur með erlendum og innlendum gestum.

Í húsinu væri auk þess aðstaða til lágmarks þjónustu við gesti og gangandi og upplýsingamiðstöð og nokkurs konar safn sem notaði nýjustu tækni til að varpa ljósi á sögu og eðli staðarins.

Þetta hús þyrfti ekki að verða eins stórt og Valhöll var. Vísa á blogg mitt um þetta efni, en þessi tillaga mín er mjög í anda þeirra ábendinga sem fengust hjá UNESCO þegar Þingvellir komust á heimsminjaskrá.

Með bruna Valhallar gefst kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja þetta svæði.

Ómar Ragnarsson, 11.7.2009 kl. 20:53

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið og ábendingarnar, Ómar. Mér finnst sú hugmynd að hafa hús sem nota mætti til samkomuhalds vissulega ekki slæm, svo fremi að frárennslismál verði höfð í lagi. En aftur varðandi upplýsingamiðstöð og safn að þá er nú slík starfsemi komin á annan stað, það er við efri enda Almannagjár og ekki þörf á henni þarna niður frá. Eru ekki húsin við hlið kirkjunnar núna notuð fyrir móttökur erlendra höfðingja?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.7.2009 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband