Landsbyggðarfyrirlitning í Frjálslynda flokknum?

Það er undarlegt að fylgjast með erjum innan Frjálslynda flokksins um staðsetningu landsþings í Stykkishólmi: Er svona svakalega langt fyrir þessar manneskjur að ferðast úr Reykjavík til Stykkishólms? Er ástæða til að segja sig úr flokki vegna staðsetningar landsþings eins og mér skildist að þingflokksformaðurinn hafi gert um daginn? Eru þessar konur hér að hugsa um fólkið á Austurlandi, sem hvort eð er er ekki margt í Frjálslynda flokknum? Eða óttast þær að mætingin verði best úr því kjördæmi þar sem Frjálslyndi flokkurinn hefur hingað til átt sitt mesta fylgi (þ.e. Norðvesturkjördæmi)? Og það muni koma niður á möguleikum þeirra sjálfra?

Landsfundir, flokksþing, landsþing flokka, hvaða nafni sem æðstu samkomur þeirra heita, eru gjarna haldin í Reykjavík vegna stærstu húsakynnanna og ekki síður vegna mesta hótelplássins - og kannski spilar inn að ef stjórnmálaflokkur vill niðurgreiða fargjöld er minna að greiða niður. Ég tel að það sé aftur á móti mikilvægt að slíkar samkomur séu haldnar sem víðast á landinu. Það er líka gott fyrir okkur Íslendinga að kynnast landinu sem víðast. Fyrir nokkrum árum hóf ég þátttöku í undirbúningi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundirnir voru haldnir á öllum svæðunum í kringum jökulinn. Þetta var örugglega kostnaðar- og fyrirhafnarsamara en að halda fundina í Reykjavík. En þetta var jákvætt vegna þess efnis sem um var að ræða, það var auðveldara að hitta fleira fólk á fundunum, og þjónaði líka þeim tilgangi að efla ferðaþjónustuna á svæðinu að halda fundina þar vegna þeirra þjónustu sem þurfti að kaupa.

Kannski það geti líka verið gott fyrir Reykvíkinga í Frjálslynda flokknum að kynnast Stykkishólmi!


mbl.is Gagnrýna flokksforystuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll,  er ekki allt í góðum gír hjá Íslandshreyfingunni?  Mér þykir mjög vænt um landsbyggðina enda snýst þetta ekkert um það eins og þú veist mæta vel.  Til að upplýsa þig þá er ég ættur frá Fáskrúðsfirði í föðurætt og frá Lýsudal í Staðarsveit á Snæfellsnesi í móðurætt og er mikil landsbyggðarkona.  Málið nýst um lýðræði svo einfalt mál er það.  Að halda landsþing í Stykkishólmi á kosningarári er ekki viturlegt eins og þú hlýtur að sjá ef þú vilt opna augun. Lítill flokkur sem Frjálslyndi flokkurinn er þarf að ná til sem flestra og það gerum við með því að halda landsþing í Reykjavík.  Það væri yndislegt að halda landsþing í Stykkishólmi á öllum tímum bara ekki á kosningaári.

Hafðu góðan dag..

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 15.2.2009 kl. 14:04

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Ásgerður - ég ætla nú ekki að blanda mér í hvað Íslandshreyfingin gerir eða gerir ekki, en nýlega var ég að skoða fylgistölur úr síðustu kosningum og sá að hún fékk mest fylgi í Reykjavík og harla lítið. Ég veit ekki betur en minn flokkur (VG) haldi sinn landsfund í Reykjavík í mars um helgi sem ég kemst alls á fundinn vegna vinnu. Nú veit ég ekkert meira um landsþing Frjálslyndra, t.d. hvort það er fulltrúaþing eða opið öllu flokksfólki.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.2.2009 kl. 14:39

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér hefur alltaf fundist frjálslyndi þessa „Frjálslynda flokks“ ganga helst út á að hver hafi sína prívatskoðun á helst öllum málum og allir vilja stýra flokknum. Þetta er sérkennilegt frjálslyndi enda eru flestir óánægðir fyrrum gildir limir í Sjálfstæðisflokknum. Vel kann að vera að þetta sé mjög „lýðræðislegt“ en ekki vænlegt til árangurs.

Mér finnst nokkuð áskjön að nokkur mál virðast sameina þá t.d. um afnám kvótakerfis og að hefja veiðar á stórhvölum. En skyldu þeir gera sér grein fyrir að nú eru Norðmenn að kveina sér undan erfiðleikum að selja fisk og ef hvalveiðar verða hafnar að nýju mun það vart auðvelda fisksölu.

Í fyrirspurnartíma á dögunum á Alþingi kom í ljós að arður af hvalveiðum er sáralítill en kostnaður mjög hár. Það er því ekki vænlegt að gera út á hvalveiðar, alla vega ekki að svo stöddu en þeir frjálslyndu mega auðvitað hafa hvaða skoðun sem er hvort sem hún er skynsamleg eður ei.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.2.2009 kl. 14:44

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ingólfur, þakka þér fyrir að styðja forystu Frjálslynda flokksins.  Þið hjá VG mynduð eflaust ekki missa svefn þó þingið yrði í Kolbeinsey og varla viljið þið að FF stækki of mikið.

Sigurður Þórðarson, 15.2.2009 kl. 15:51

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Veistu það, Sigurður, að mér er nákvæmlega sama hvar þing Frjálslynda flokksins er haldið - en mér er ekki sama um gagnrýni sem má túlka sem landsbyggðarandstöðu sem Ásgerður upplýsir hér að ofan að hún vilji ekki að hennar gagnrýni sé skilin þannig. En, auðvitað, Sigurður, ég vil ekki að Frjálslyndi flokkurinn stækki fremur en ég vil að aðrir stjórnmálaflokkar, sem ég styð ekki, geri. Mér er reyndar fyrirmunað að skilja að stækkun Frjálslynda flokksins sé tengd staðsetningu þings hans.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.2.2009 kl. 16:42

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það stefnumál sem formaður flokksins, alþingismaðurinn Kristinn H. og framkvæmdastjórinn Magnús Reynir Guðmundsson hafa unnið í af hvað mestri einurð er að tryggja sjálfum sér öll völd. Þetta baráttumál hefur þeim tekist að láta ganga upp með því að vinna með óánægju okkar sem búum höfuðborgarsvæðinu. Þetta er afar slóttug aðferð sem keyrð er áfram af óvinafagnaði þeirra sem óttast vöxt flokksins. Það er deginum ljósara að enginn flokkur nær því að verða virkt afl nema hann fái góðan stuðning kjósenda úr fjölmennasta þéttbýlinu. Brýnasta stefnumál flokksins er uppbygging atvinnu á landsbyggðinni. Þetta er öllum ljóst svo það eru langsótt rök að fálæti okkar á höfuðborgarsvæðinu til fundarstaðarins stafi af óvild til landsbyggðarinnar.

En verði Guðjóni Arnari að góðum verðleikum þau einvaldsvinnubrögð sem hafa einangrað fjölmennasta hóp stuðningsmanna flokksins frá áhrifum.

Auðvitað geta stuðningsmann VG djarft úr flokki talað um landsbyggðarvináttu. Fyrsta pólitíska yfirlýsing formannsins í hlutverki sjávarútvegsráðherra var einmitt sú að "það væri mikill ábyrgðarhluti við þessar aðstæður að setja stjórnun fiskveiða í uppnám."

Ég yrði fyrsti maður til að skrá mig í VG ef ég hefði ekki heyrt þessa dæmalausu yfirlýsingu. Þvílíkur andskotans tvískinnungur.

Um ályktun þína Guðjón Sigþór: Yrði ekki eitthvað auðveldara að ganga gegn um sölutregðu og lækkandi útflutningsverð ef útgerðarkostnaður yrði lækkaður til muna með því að sækja aflann með smábátaútgerð sem þyrfti ekki að hlíta ofurkjörum á aflaheimildum?

Árni Gunnarsson, 15.2.2009 kl. 17:39

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Árni, og umræðurnar; takk líka fyrir innlitið, Mosi góður.

Kannski er ástæða til að láta í ljós þá skoðun að skipting landsins í landsbyggð-höfuðborgarsvæðis sé óvinafagnaður. Það er líka óvinafagnaður - þöggun - að þegja.

Mitt innlegg er almenns eðlis; sjónarmið af þessum toga eru ekki eingöngu innan Frjálsl. flokksins heldur er þetta líkast til vandi sem allir flokkar, öll samtök standa frammi fyrir. En hvort Kristinn og Magnús Reynir eru að reyna að sölsa eitthvað undir sig veit ég auðvitað ekkert um.

Frjálslyndi flokkurinn er og ekki afar áberandi hér um slóðir. Minnist þó þess að nefndur Kristinn sótti fund í Bárðardal sem samtök, sem ég er í, stóðu fyrir þótt svo hann hafi verið þingmaður norðvesturkjördæmis; mér þótti það gott.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.2.2009 kl. 18:23

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sem réði því að fundurinn er haldinn úti á landsbyggðinni er að þar er kostnaður brotabrot af því sem hann er í Reykjavík.  Það verða rútuferðir úr borginni og einnig raðað þannig í bíla að fólk komist örugglega vestur. 

Í upphafi samþykkti miðsstjórn að halda fundinn úti á landi og var rætt um apríl þegar færð væri orðin góð.  Þessu var svo breytt þegar ljóst varð að kosningar yrðu í vor.

Nokkrir varamenn úr miðstjórn náðu því svo breytt að fundurinn yrði haldinn í Reykjavík.  En því var svo einfaldlega breytt aftur, þegar aðalmenn mættu á næsta fund á eftir því margir þeirra eru á landsbyggðinni.  En það sem réði þeirri ákvörðun var einfaldlega kostnaðurinn við að halda slíkan fund.  Í smáflokki sem hefur lítil fjárráð skiptir það verulegu máli hvort aðstaðan kosta milljón eða fimmtíu þúsund. 

Ég er í miðstjórn og ég þekki bæði Guðjón Arnar og Magnús Reynir sem eru reyndar fermingarbræður og skólabræður mínir, ég get því sagt það hér með mikilli þekkingu að þeir eru báðir tveir afar ólíklegir til að reyna að mylja undir sig hvort sem það eru bitlingar frjárráð eða völd.  þetta eru hvorttveggja íslenskir alþýðumenn sem eru með báða fætur á jörðinni og hafa upplifað þá skerðingu sem landsbyggðin hefur orðið fyrir.  Frjálslyndi flokkurinn er fyrst og fremst stofnaður kring um afar óréttlátt kvótakerfi og önnur góð mál, eins og velferðarmál og atvinnumál.  Málefni flokksins eru heilsteypt og góð og forystumenn flokksins hafa virt þann málefnasamning í hvívetna. 

Þess vegna er allt svona niðurrifstal til þess eins að skemma fyrir og  rífa flokkinn niður.  Ég vona að það ágæta fólk sem þannig gerir finni sér annann vettvang fyrir sín áhugamál og baráttu, og að þeim vegni vel í sínu lífi.  Málefni Frálslynda flokksins eru eðal hans, og meðan þeim er fylgt og þau virt, þá er mér nokk sama hver þar ræður ríkjum, og meðan ég sé að núverandi forsvarsmenn virða þá stefnu þá sé ég ekki ástæðu til að breyta um kúrs. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2009 kl. 20:12

9 Smámynd: Halla Rut

Að halda því fram Ásthildur að salurinn hafi verið ódýrari úti á landi er algjörlega út í hött.

Hér sitja menn með tóma sali út um allt og margir lána salina frítt út á kaffisöluna eina.Þetta eru bull rök og hrein lygi.

Það vita allir af hverju svona var staðið að. 

Halla Rut , 15.2.2009 kl. 22:42

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ásthildur og Halla Rut, takk fyrir innlitið og umræðuna.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 16.2.2009 kl. 00:02

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ingólfur.

Sennilega er ég " þessi manneskja " sem þú ert að tala um hér í þínum pistli.

Svo vill til að það er mikil andstaða við staðsetningu þingsins, og sökum þess er þessi fyrirspurn til Guðjóns sett fram, frá okkur Ásgerði Jónu sem höfum boðið okkur fram til forystu.

Ég veit ekki til þess að neinn stjórnmálaflokkur hafi haldið landsþing sitt utan Reykjavíkur, svo ég viti til, og ástæðan einföld, höfuðborgarsvæðið er fjölmennast , því miður.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.2.2009 kl. 00:14

12 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Guðrún María - ég get upplýst þig um að einn af fyrstu landsfundum VG var haldinn á Akureyri og að landsfundurinn 2003 var síðan haldinn í Hveragerði, en reyndar er nokkurt áhorfsmál hvort á að telja Hveragerði utan eða innan höfuðborgarsvæðis þar sem íbúar þess þurfa ekki endilega að leita sér gistingar þar ef þar er fundað.

Bréf ykkar Ásgerðar birtir ekki landsbyggðina í björtu ljósi, þið notið "flýja" með þingið. Og þess vegna spurði ég harkalegrar spurningar um landsbyggðarfyrirlitningu. Árni Gunnarsson í færslunni hér að ofan rökstyður að það séu "langsótt rök að fálæti okkar á höfuðborgarsvæðinu til fundarstaðarins stafi af óvild til landsbyggðarinnar." Ég myndi ekki geta ábyrgst að sambærilegt "fálæti" kæmi hvergi fram í VG ef flokkurinn héldi sinn landsfund að þessu sinni hér á Akureyri - eða Egilsstöðum - í því kjördæmi þar sem flokkurinn hefur notið mests fylgis. En ég held að í framtíðinni verði samt ekki öll þing VG haldin í Reykjavík.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 16.2.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband