Háskólinn á Akureyri: Lögð niður bestu störfin?

Fyrir nokkrum dögum kynnti framkvæmdastjórn Háskólans á Akureyri tillögur sínar til sparnaðar í rekstri Háskólans á fjölmennum fundi starfsfólks. Á fjárlögum 2009 eru Háskólanum ætlaðir tæplega 1,4 milljarðar eða eftir því sem næst verður komist 8,6 eða 8,8% meira en á fjárlögum 2008 (þetta vissi framkvæmdastjórnin ekki á fundinum - þetta eru tæp 6% eftir nýjum upplýsingum þann 23. janúar), en það sem meira máli skiptir er að upphæðin er 7,1% lægri en til stóð í upphaflegu fjárlagafrumvarpi og því mikill vandi á höndum stjórnenda. Stjórnendur Háskólans settu sér þrjú markmið: Vernda störf, raska ekki námi nemenda og byggja upp öflugan háskóla (til langtíma), hafi ég skilið rétt það sem rektor sagði á fundinum. Sparnaðurinn sem þurfti að ná fram, miðað við frumvarpið og áætlanir unnar út frá því, er ríflega 100 milljónir og næst tæpur helmingur með því að samningur við menntamálaráðuneytið um eflingu Háskólans frá desember 2007 frestast. En rúmlega 50 milljónir á að spara með því að veita engin svokölluð rannsóknarmisseri á síðari hluta árs 2009 og fyrri hluta árs 2010 og leggja af að mestu eða alveg ferðir á rannsóknarráðstefnur erlendis.

 Rannsóknir eru, ásamt kennslu, kjarnastarfsemi háskóla. Kennsla í háskólum er að því leyti frábrugðin kennslu í öðrum skólum að við sem kennum notum og eigum að nota þekkingu úr rannsóknum sem við sjálf höfum stundað eða aflað með því að fylgjast með því besta sem gerist í fræðaheiminum um víða veröld. Þetta er einkum gert með þrennu móti: Í fyrsta lagi eru 40-43% vinnutíma prófessora, dósenta og lektora, sem hafa gengist undir strangt hæfnismat, ætlað að fara í rannsóknir, í öðru lagi með að við förum í rannsóknarmisseri , eitt á hverjum þremur árum eða eitt ár af hverjum sex, og í þriðja lagi með því að Háskólinn hefur kostað eina ráðstefnuferð til útlanda á tveggja ára fresti. Með því að borga eitthvað með sér hefur mörgum tekist að fara árlega, eða oftar með því að finna aðra styrki, eða borga meira með sér, og þannig flutt á ósérhlífinn hátt með sér þá þekkingu sem með þessu fæst, en einnig miðlað þeirri þekkingu sem við höfum skapað hér. Háskólinn ætlar líka að skerða dagpeninga á ferðalögum innanlands, t.d. ráðstefnuferðum, en mér skilst að greiða ferðakostnaðinn. Að hætta að greiða slíka dagpeninga er brot á kjarasamningi.

Þessar aðgerðir eru mjög alvarlegar og koma til með að bitna á rannsóknum þar sem yfirvöld Háskólans gefa til kynna að rannsóknarmisserum verði fækkað mjög þegar þessu aðhaldstímabili sem að ofan er nefnt lýkur - og hafa þannig skapað ótta um að rannsóknarmisseri verði lögð alveg af. Það er líka hugsanavilla í aðgerðunum því að með því að rannsóknarmisseri eru lögð niður eru lögð niður þau störf, sem í því felast. Og þetta eru ekki bara einhver störf, heldur eru þetta nú vísast einhver allra eftirsóknarverðustu störfin sem unnt er að fá á Akureyri, og það er ekki sagt til að kasta rýrð á önnur góð störf . Ég veit ekki með vissu hversu margir áttu að vera í rannsóknarmisseri á næsta háskólaári en það eru líklega milli fimm og tíu á hverjum tíma. Við sem ekki fáum rannsóknarmisseri á árinu 2009 eða árinu 2010 samkvæmt reglum, samþykktum í upphafi síðasta árs, munum þá kenna og spurt er: Hvað verður þá um „störf" þeirra sem hefðu leyst okkur af? Getur verið að framkvæmdastjórnin hafi gleymt þeim?

Okkur verður örugglega sagt að við höldum 40-43%-rannsóknartímanum. Og ég hef ekki heyrt nein áform um að leggja hann af enda er hann í kjarasamningum sem verður ekki einhliða breytt. Okkur var líka sagt á fundinum um daginn frá því að að við gætum sótt um fé úr innlendur og erlendum samkeppnissjóðum, rétt eins og við höfum ekki vitað vel af þeim sjóðum. Við í Háskólanum á Akureyri höfum verið misdugleg að ná því fé og eitt af því sem átti að efla á næstu árum var að leggjast á eitt um að okkur gengi betur á því sviði. Flestir samkeppnissjóðir leggja mikið upp úr samvinnu háskóla, helst í mörgum löndum. Rannsóknarmisseri og ráðstefnuferðir eru meðal annars notuð til að hitta aðra fræðimenn til að kanna áhuga og undirbúa slíkar umsóknir.  Með því að leggja niður slíkt dregur úr möguleikum okkar á að ná fé úr samkeppnissjóðum.

Ástæða er hafa verulegar áhyggjur af boðuðum aðgerðum fyrir framtíð Háskólans á Akureyri. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að virtir fræðimenn leiti fyrir sér annars staðar þar sem rannsóknarmisseri verða ekki lögð niður og fé til að fara á ráðstefnur erlendis veitt. Það verður enginn stórflótti strax því að við sem vinnum hér erum viljum Háskólanum vel - en okkur ber skylda til þess að verja þær starfsaðstæður sem hér er lýst því að það verður býsna erfitt að laða að nýja kennara við þessar aðstæður. Þetta er stórt landsbyggðarmál ef lögð eru niður bestu störfin utan höfuðborgarinnar - eða þeim breytt á svo gagngeran hátt. Þetta þekki ég ágætlega því að ég flutti gagngert til Akureyrar fyrir fjórtán árum - en mér þykir ekki líklegt að ég hefði gert það hefði ég ekki haft vonir um geta fengið rannsóknarmisseri sem hluta af starfskjörum. Rannsóknir í Háskólanum á Akureyri leggjast ekki af nú þegar þótt þessar gjörðir verði, meðal annars vegna þess að rannsóknir eru langtímaverkefni og niðurstöður bíða iðulega birtingar - en afleiðingarnar verða afdrífaríkar fljótlega.

Mér skilst raunar að nýskipað háskólaráð þurfi að samþykkja þessar gjörðir, meðal annars þar sem þær eru brot á ársgömlum og metnaðarfullum reglum um rannsóknarmisserin sem tryggðu virkustu rannsakendunum forgang að því að fara í rannsóknarmisseri. Þannig að kannski verður dregið úr afleiðingum þessarar gjörðar eða gefin út yfirlýsing um að hún sé tímabundin.


mbl.is Mótmæli á Ráðhústorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Þetta eru svipaðar aðgerðir og boðaðar hafa verið til í HÍ en þar hafa (allavega innan verkfræði- og náttúruvísindasviðs) verið gerðar undantekningar með skertum farareyri og dagpeningum fyrir þá akademísku starfsmenn sem eru að byggja upp rannsóknarferil sinn. Fyrsta tillaga hljóðaði svo að einungis prófessorar gætu vænst þess að halda inni re´tt til rannsóknarmissera. Þetta þýðir í raun að við þurfum að kenna meira, hlaupa hraðar fyrir fleiri nemendur og er það sama og gerðist í Finnlandi á sínum tíma. Góður punktur hjá þér að forsenda fyrir fræðasamstarfi erlendis er samskiptagrundvöllur sem skapast oft á fundum og ráðstefnum erlendis.  Þetta er áhyggjuefni til langs tíma en einnig skemur. Gangi ykkur vel að berjast í ykkar málum fyrir norðan.

Anna Karlsdóttir, 21.1.2009 kl. 23:59

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Háskólarnir þurfa að gæta þess vel að aðgerðir þeirra bíti ekki í skottið á sér. En skyldu ekki einkaháskólarnir gleðjast ef ríkisháskólarnir leggja niður "gulrætur" sínar?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.1.2009 kl. 13:20

3 Smámynd: Hermann Óskarsson

Þakka þér þetta yfirlit Ingólfur Ásgeir. Mér er málið skylt þar sem ég á að heita einn af stjórnendum HA þó ég sé í rannsóknarleyfi þessa stundina við Berkeley-háskóla. HÍ mun hafa farið þá leið einnig að auka kennsluskyldu prófessora og ekki veit ég hvernig þér hefði litist á það. Punktur þinn varðandi afleysingakennsluna er góður, en frá sjónarhóli deildanna hefur þessi kennslukraftur stundum minnkað útgjöld þeirra en ekki háskólans í heild þar sem rannsóknaleyfin eru greidd af sérstakri fjárveitingu háskólans.

Hermann Óskarsson, 22.1.2009 kl. 16:12

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Hermann, ég held eins og ég held fram í færslunni að sparnaðurinn étist upp að nokkru - og þá ekki tekið tillit til langtímaskaðans. Nú er ég fremur hlynntur því að kennsluyfirvinnan sé minnkuð þótt reyndar hafi komið þau ár að ég hafi unnið of mikið af henni.

Góðar kveðjur til þín og fjölskyldunnar

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 23.1.2009 kl. 08:19

5 Smámynd: Hermann Óskarsson

Tek undir með þér Ingólfur. Það skiptir máli orðið, hvernig aurinn er hirtur og krónunni kastað?

Þakka góðar kveðjur þínar.

Hermann Óskarsson, 24.1.2009 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband